Fjórða Sveppamyndin svonefnda verður frumsýnd í Sambíóunum í október næstkomandi. Tökur á myndinni hefjast 21. júlí nk. og eru sömu aðalleikarar og í flestum fyrri myndum um ævintýri Sveppa, þ.e. Sverrir Þór Sverrisson, Guðjón Davíð Karlsson og Vilhelm Anton Jónsson.
Myndin mun bera heitið Algjör Sveppi og Gói bjarga málunum og verður söguþráðurinn á þá leið „að illmennið sem áhorfendur muna eftir í fyrstu mynd þeirra félaga stefnir á landsyfirráð að nýju og þurfa félagarnir að leggja sitt af mörkum svo ekki fari illa fyrir landsmönnum og fróni,“ eins og segir í tilkynningu.
Sambíóin taka myndina til sýninga og var samningur þessa efnis undirritaður í höfuðstöðvum dreifingarfyrirtækisins á dögunum. Leikstjórn verður sem fyrr í höndum Braga Þórs Hinrikssonar sem ásamt Sverri Þór Sverrissyni skrifar handritið.