Timberlake og félagar í skýjunum

Justin Timberlake er ein skærasta stjarnan í heiminum í dag.
Justin Timberlake er ein skærasta stjarnan í heiminum í dag. mbl.is/Eggert

„Það er ekki hægt annað en að vera algjörlega í skýjunum, þetta fór svo ótrúlega vel fram,“ segir Ísleifur B. Þórhallsson hjá Senu, sem er enn í sæluvímu líkt og flestir sem sóttu tónleika Justin Timberlake í Kórnum í gær.

Tónleikarnir voru þeir síðustu í Evróputúr Timberlake, sem tekur sér nú hlé áður en hann heldur til Ástralíu. Samkvæmt heimildum mbl.is geta aðdáendur því miður ekki átt von á að rekast á Timberlake á götum Reykjavíkur, því hann er þegar farinn af landi brott, en mun vera alsæll með hve vel tókst til og það sama á við um það fjölmenna lið sem fylgdi honum hingað. Höfðu þau á orði að þau hefðu ekki getað hugsað sér betri endi á tónleikaferðinni.

„Það er mjög gaman að segja frá því að þau eru alveg í skýjunum, allt fólkið í kringum tónleikana. Bæði tæknifólkið og þeir sem stjórna þessum túr, þegar þau fóru úr húsinu í gær voru þau ekkert að fela hvað þau voru glöð með þetta,“ segir Ísleifur. „Það var ótrúlega jákvæð gleðistemning í öllum, í húsinu og salnum. Allir brosandi út að eyrum og ég held að fólkið á sviðinu hafi líka verið að skemmta sér. Þetta var algjör hamingjusprengja.“

Sjá fyrri frétt mbl.is: Gríðarleg stemning á Timberlake

Klósettin verða fleiri næst

Kórinn í Kópavogi hefur ekki verið notaður áður til tónleikahalds og má því segja að þetta hafi verið ákveðið tilraunaverkefni, sem gekk upp. „Þetta gekk algjörlega fram úr björtustu vonum. Hvort sem þú lítur á umferðarstjórnum, öryggisgæslu eða sýninguna sjálfa, það gekk allt eins og smurt,“ segir Björn Sigurðsson framkvæmdastjóri Senu

Bein útsending Live Nation á netinu þótti líka takast afar vel til. Ekki eru þó komnar tölur yfir hversu margir fylgdust með tónleikunum um allan heim. „En við fengum upplýsingar um að það hefði gengið rosalega vel, bæði Live Nation og fólkið á bak við JT trúðu því ekki hvað það var hægt að gera flott „show“ á Íslandi. Hefði maður verið út í heimi og horft á þetta á skjánum hefði maður haldið að þetta væri nær því að vera 30 þúsund manna tónleikar,“ segir Björn.

Á tónleikunum voru hátt í 17.000 áhorfendur en þeir létu svo sannarlega heyra í sér, eins og Björn bendir á. „Yfirleitt er það bara harðasti kjarninn í miðjunni sem er svona vel með á nótunum, en þarna tóku allir undir, út í alla jaðra á salnum og alls staðar.“

Það helsta sem gagnrýnt verið frá tónleikunum er skortur á klósettum, svo sumstaðar mynduðust langar raðir. Björn segir það hafa gengið stórslysalaust fyrir sig, en sé eitthvað til að læra af. „Ég get alveg tekið undir það, eftir á að hyggja hefði mátt skella niður fleiri klósettum. Það er eitthvað sem fer á tossalistann fyrir næsta gigg,“ segir Björn.

Nú vita allir að þetta er hægt

Og næsta gigg gæti verið ekki langt undan, ef marka má Ísleif. Aðspurður segir hann tónleikana hiklaust hafa lagt grunninn að því sem koma skal. „Þetta var í fyrsta skipti sem þetta hús er notað og gleðitíðindi hvað þetta gekk vel. Loksins erum við komin með hús sem getur hýst þennan fjölda, allt að 19 þúsund manns, og nú vitum við þetta svínvirkar. Það var nóg pláss til hliðanna og aldrei neinar stíflur neinstaðar.“

Gríðarleg skipulagning liggur baki tónleikunum, bæði hvað varðar tæknilegu hliðina, kerfi fyrir hljóð mynd og netútsendingu, auk því sem snýr að því að koma áhorfendum á staðinn og burt.

„Þetta verður ekki mikið stærra, en nú þegar búið er að leysa þessi mál einu sinni er ekkert mál að gera það aftur,“ segir Ísleifur. „Við gerðum þetta í samvinnu við stærsta tónleikahaldsfyrirtæki í heimi, Live Nation, það flugu sérstaklega einhverjir yfirmenn þaðan til landsins og það voru erlendir umboðsmenn á staðnum, þannig að nú vita allir að þetta er hægt hér.“

Hægt er að horfa á tónleikana á vef Yahoo Live Nation

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hafðu stjórn á tilfinningum þínum þótt eitthvað verði til að róta upp í þeim. Einhver langt í burtu hjálpar þér með viturlegum ráðum, leiðbeiningum eða bænum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Sofia Rutbäck Eriksson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hafðu stjórn á tilfinningum þínum þótt eitthvað verði til að róta upp í þeim. Einhver langt í burtu hjálpar þér með viturlegum ráðum, leiðbeiningum eða bænum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Sofia Rutbäck Eriksson