Sænska ríkissjónvarpið hefur klippt út atriði sem ekki þykja standast tímans tönn í nýrri útgáfu af Línu langsokk eftir Astrid Lindgren. Til að mynda er ekki lengur talað um negrakónginn í nýrri útgáfu af þáttunum um Línu.
Paulette Rosas Hott, sem annast útgáfumál hjá sænska sjónvarpinu, segir í samtali við norska ríkisútvarpið að ákveðið hafi verið að taka út efni sem sem gæti sært eða þótt niðurlægjandi í huga barna.
En þetta er ekki í fyrsta skipti sem Lína langsokkur er ritskoðaður því árið 2006 tók norska ríkisútvarpið út texta úr þáttunum um Línu sem ekki var talinn við hæfi. Þar var pabbi Línu ekki lengur negrakóngur heldur kóngur í Suðurhöfum. Í nýju útgáfunni nú er hann bara kóngur ekki negra né í Suðurhöfum.
Ekki eru allir á eitt sáttir um þessa ákvörðun og telja að það sé óþarfi að breyta textanum.