Nýtt myndband frá Rjómanum, einni af myndbandanefndum Verslunarskóla Íslands, hefur vakið nokkra athygli en því lýkur með því að húsnæði Menntaskólans í Reykjavík er sprengt í loft upp.
Myndbandið er birt í tilefni af VÍ-MR deginum, eða MR-VÍ deginum eftir því hvorum megin Miklubrautarinnar hollusta manns liggur, sem er árlegur viðburður þar sem skólarnir tveir keppa sín á milli í ýmsum íþróttagreinum og ræðumennsku.
Augljóst er að miklu púðri hefur verið eytt í myndbandið en þó ekki sprengipúðri því að sjálfsögðu er hér um að ræða stórgóðar tæknibrellur en ekki alvöru sprengingar. Sjón er sögu ríkari.