Fyrrum heimsmeistarinn í boxi, Muhammed Ali, er orðinn svo veikburða að hann getur varla talað. Ali hefur glímt við Parkinson-veiki í mörg ár og nú virðist sem farið sé að draga alvarlega úr lífsmætti hans.
Rahman, bróðir Muhammeds, sem staddur er í Hollywood á frumsýningu myndarinnar I am Ali, segir í samtali við The Sunday People að erfitt sé að eiga í samskiptum við Muhammed. „Ég veit ekki alveg hver skoðun hans er á þessari kvikmynd því út af veikindum hans eigum við í erfiðleikum með samskipti. Hann hefur þó gefið í skyn að hann sé stoltur af myndinni og að hann bíði spenntur,“ segir Rahman.
Ali varð heimsmeistari í boxi í þrígang og keppti nokkra ódauðlega bardaga, meðal annars þá sem nefndir hafa verið The Thrilla in Manila og The Rumble in the Jungle. Kvikmyndin sem nú er að koma út, gerir þessum bardögum góð skil auk þess sem hún fjallar mikið um yngri ár Alis, þar sem hann ólst upp í Louisville í Bandaríkjunum.
Myndin I am Ali er væntanleg til Evrópu í nóvember eða desember.