Lagið Bohemian Rhapsody með hljómsveitinni Queen hefur góð áhrif á fólk sem er veikt eða líður illa. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar um lög sem fólk hlustar helst á þegar það er að upplifa erfiða tíma.
Skoðanakönnunin var gerð fyrir eina af útvarpsstöðvum BBC, en í könnuninni voru þúsund manns spurðir um þau 10 lög sem þeir hlustuðu helst á þegar þeim liði illa.
Dancing Queen með Abba var í öðru sæti og lagið vinsæla Happy með Pharrell Williams var í þriðja sæti ásamt klassískri tónlist almennt.
Meira en 2/3 svarenda sögðust hlusta á tónlist þegar þeim liði illa. Níu af hverjum tíu sögðust sammála þeirri fullyrðingu að tónlist hjálpaði fólki þegar því liði illa eða ætti við erfiðleika að stríða.