Bandaríski leikarinn Robin Williams var hvorki undir áhrifum áfengis né annarra vímuefna þegar hann svipti sig lífi 11. ágúst síðastliðinn. Williams hengdi sig en hafði áður reynt að skera sig á púls, samkvæmt því sem segir í niðurstöðu réttarmeinafræðings.
Ýmsar sögur hafa verið á kreiki um það hvers vegna Williams, sem þekktur var og dáður fyrir gamanleik, ákvað að stytta sér aldur. Í ljós hefur komið að bæði stóð Williams ekki eins vel fjárhagslega og menn höfðu talið og þá glímdi hann við Parkinson-sjúkdóminn.
Williams skrifaði ekki sjálfsvígsbréf né gaf hann til kynna með nokkrum hætti að hann ætlaði að enda líf sitt með þessum hætti. Vitað var að Williams þjáðist af þunglyndi og hefur fjölskylda hans sagt að borið hafi á vænisýki vikum fyrir andlátið. Hins vegar hafi ekki borið á sjálfsvíghugsunum, að hennar sögn.
Við lík Willams fannst einnig vasahnífur og á vinstri úlnlið voru ummerki eftir hann.