Tónlistarmaðurinn Noel Gallagher var afar duglegur að stunda næturlífið á sínum yngri árum. Hann fór alla leið og drakk, reykti og neytti eiturlyfja. Hann kveðst þó hafa hætt að nota kókaín vegna þess að honum leiddist að ræða um tilvist geimvera.
Gallagher var orðinn leiður á að eiga „furðuleg“ samtöl við fólk og þess vegna ákvað hann einn góðan veðurdag að hætta allri eiturlyfjaneyslu. Gallagher segist hafa eytt heilu klukkustundunum í að ræða um píramída, geimverur, Bítlana og morðingja John F. Kennedy þegar hann var undir áhrifum kókaíns.
„Ég varð uppgefinn á þessum samtölum. Ég hélt partí heima hjá mér hvert einasta kvöld, ég hélt að það væri það sem maður ætti að gera,“ sagði Gallagher sem hætti að nota kókaín árið 1998.
„Það var auðvelt að hætta. Ég er agaður og hugsaði bara einn góðan veðurdag: „Mér leiðist og þetta er ólöglegt,“ sagði Gallagher í spjallþættinum The Jonathan Ross Show.