Bandaríski rokkarinn Bruce Springsteen og söngvari Coldplay, Chris Martin, komu gestum á tónleikum U2 í New York í gærkvöldi á óvart með því að hlaupa í skarðið fyrir Bono sem slasaðist nýverið á reiðhjóli.
Tónleikarnir voru til stuðnings baráttunni við alnæmi og HIV-smitaða.
U2 tilkynnti tónleikana með aðeins nokkurra klukkustunda fyrirvara en þeir voru haldnir á Times Square og var aðgangur ókeypis.
Bono slasaðist á reiðhjóli í síðasta mánuði og buðu liðsmenn írsku sveitarinnar tveimur þekktum söngvurum að taka við hljóðnemanum í stað Bonos.
Chris Martin sagði að nú hefði draumur orðið að veruleika en hann hefur ítrekað vísað í U2 þegar hann er spurður út í áhrifavaldana í tónlistinni. Hann söng lögin With or Without You og Beautiful Day með U2 á sviðinu á Times-torgi í gærkvöldi.
Það var síðan Springsteen sjálfur sem lokaði tónleikunum með því að syngja lögin Where the Streets Have No Name og I Still Haven't Found What I'm Looking For. Þótti Springsteen minna mjög á Bono á sviðinu en aldrei þessu vant var gítarinn fjarri góðu gamni hjá honum.
Auk þeirra komu Carrie Underwood og Kanye West fram á tónleikunum sem stóðu yfir í rúma klukkustund.
Bruce Spingsteen hefur áður tekið I Still Haven't Found What I'm Looking For með U2.