Hljómsveitin Skálmöld er með langflestar tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem afhent verða við hátíðlega athöfn á næsta ári. Sveitin hlýtur níu tilnefningar að þessu sinni í flokknum popp og rokk.
AmabAdamA kemur þar á eftir með sex tilnefningar, Gus Gus hlýtur fimm tilnefningar og Prins Póló og Mono Town koma þar á eftir með fjórar tilnefningar hvor. Hljómsveitirnar Valdimar, Grísalappalísa og Nýdönsk eru með þrjár tilnefningar hvor.
Í djass- og blúsflokki hlýtur Stórsveit Reykjavíkur flestar tilnefningar eða fimm. Þar á eftir fylgja ASA trio, ADHD og Sigurður Flosason með fjórar tilnefningar en plata Sigurðar, Tveir heimar, er jafnframt tilnefnd sem Plata ársins í opnum flokki.
Í flokki sígildrar og samtímatónlistar er uppsetning Íslensku óperunnar á Don Carlo tilnefnd sem Tónlistarviðburður ársins og þau Kristinn Sigmundsson, Oddur Arnþór Jónsson, Hanna Dóra Sturludóttir og Helga Rós Indriðadóttir eru öll tilnefnd sem Söngvari / Söngkona ársins fyrir frammistöðu sína í uppfærslunni. Anna Þorvaldsdóttir hlýtur alls þrjár tilnefningar fyrir Plötu ársins (Aerial), Tónverk ársins (Trajectories) og sem Tónhöfundur ársins.
Verk Atla Heimis Sveinssonar, Hér vex enginn sítrónuviður, er tilnefnt sem tónverk ársins, Atli Heimir er jafnframt tilnefndur sem Tónhöfundur ársins og Hanna Dóra Sturludóttir er tilnefnd sem Söngkona ársins, m.a. fyrir söng í sama verki. Daníel Bjarnason er tilnefndur sem Tónhöfundur ársins fyrir verkin Blow Bright og Ek ken di nag og Ek ken di nag er jafnframt tilnefnt sem Tónverk ársins. Jóhann Jóhannsson er tilnefndur sem Tónhöfundur ársins fyrir tónlist við kvikmyndina The Theory of Everything, samnefnd plata er jafnframt tilnefnd sem Plata ársins í opnum flokki og Jóhann sjálfur er tilnefndur fyrir upptökustjórn.
Á meðal tónlistarviðburða ársins er hin einstaka tónleikaröð Sumartónleikar í Skálholti sem er elsta og jafnframt ein virtasta tónlistarhátíð landsins og hefur verið haldin á hverju sumri frá stofnun árið 1975.