Áhugi Baracks Obama Bandaríkjaforseta á golfíþróttinni varð til þess að tveir bandarískir hermenn urðu á síðustu stundu að færa brúðkaup sitt sem halda átti á Kaneohe Klipper golfvellinum, innan herstöðvar Bandaríkjanna á Havaíeyjum, á sunnudag.
Brúðkaupið færðu hermennirnir í garð yfirmanns síns þegar þeir komust að því að Obama ætlaði að leika golf á sama tíma á Kaneohe Klipper. Þegar þangað var komið beið þeirra forsetinn sjálfur í símanum sem óskaði parinu til hamingju með daginn og baðst afsökunar á að hafa raskað áætlunum þeirra.
Samkvæmt því sem kemur fram í fjölmiðlum vestanhafs varð símtalið frá Obama til þess að bjarga brúðkaupsdeginum.
Obama hefur verið í fríi á Havaíeyjum undanfarna níu daga og gera fjölmiðlar því skil að á þeim tíma hafi hann sex sinnum leikið golf. Meðal annars á aðfangadagskvöld þegar hann lék einn hring með forsætisráðherra Malasíu, Najib Razzak.