Breski kokkurinn Tom Kerridge hefur verið gagnrýndur fyrir að borða lunda á Íslandi. Kerridge er umsjónarmaður sjónvarpsþáttarins Food and Drink á BBC og greindi hann 119 þúsund fylgjendum sínum frá því á Twitter að hann hefði borðað lunda. Gloucestershire Echo greinir frá þessu.
„Í dag er ég búinn að borða lunda, svartfugl, hval og hest... Verður að elska matarupplifun,“ sagði hann á Twitter.
Færsla Kerridge vakti hörð viðbrögð, sérstaklega meðal dýraverndunarsinna, en lundinn er friðaður í Bretlandi og á lista yfir þær fuglategundir sem eru í hættu.
„Hann er að sýna sig, eins og hann sé kaldari en veðrið á Íslandi,“ sagði Mimi Bekhechi, talsmaður People for the Ethical Treatment of Animals, við dagblaðið Sun í dag.
Talsmaður Kerridge sagði við Sun: „Tom myndi aldrei vísvitandi borða dýr sem er í útrýmingarhættu. Hann er meðvitaður um að lundar eru ekki í hættu á Íslandi.“
So today I've eaten puffin, guillemot, whale and horse....Gotta love food experiences....
— Tom Kerridge (@ChefTomKerridge) January 10, 2015