Margir hafa hlegið sig máttlausa af „barninu“ í Hollywood-myndinni American Sniper. Barnið er sagt svo gervilegt, enda augljóslega dúkka að það sé „hrollvekjandi“, „eins og vélmenni“ og líti út fyrir að vera dáið.
Kvikmyndin er í leikstjórn Clints Eastwood og í henni fer Bradley Cooper með aðalhlutverkið. Um hádramatíska mynd er að ræða en margir fjölmiðlar, m.a. The Hollywood Reporter, Telegraph og USA Today hafa ekki getað orða bundist yfir dúkkubarninu í svo rándýrri kvikmynd.
Handritshöfundur myndarinnar, Jason Hall, svaraði fyrir málið á Twitter og sagði að Eastwood hafi ætlað að nota alvöru barn í tökunum. Hins vegar hafi barn sem valið var í hlutverkið veikst og ekki komist á tökustað og annað sem átti að vera í staðinn mætti aldrei á tökustað. Því hafi dúkka verið notuð. Færsla Halls á Twitter hefur nú verið fjarlægð, segir í frétt Huffington Post um málið.