Fegurðin er ekki alltaf tekin út með sældinni. Það er sama hversu glæsileg(ur) þú vaknar, ef þú ert flugfreyja þarftu alltaf að eyða einhverjum tíma í punt áður en þú þykir hæf(ur) til að sinna farþegum.
Þetta sést sérlega vel á myndbandi sem flugfreyjan Hildur Hilmarsdóttir deildi fyrir skemmstu á Facebook síðu sinni. Hildur tók upp myndand af síðasta skiptinu sem hún gerði sig til fyrir vinnuna hjá Emirates Airlines í Dubai þar sem hún hefur verið búsett síðastliðið ár.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is eru nokkuð stífari kröfur um útlit hjá Emirates en íslensku flugfélögunum en þrátt fyrir snögg handtök Hildar tók það hana rétt undir tveimur tímum að hafa sig til. Myndbandið er sem betur fer hraðspólað en sjón er sögu ríkari.