Svo virðist sem varðhundar siðgæðis hafi hrósað sigri of snemma, þar sem breska götublaðið The Sun birti í morgun mynd af berbrjósta konu á blaðsíðu þrjú. Gagnrýnendur strípisíðu blaðsins höfðu fagnað fréttaflutningi The Times, sem sagði frá því á þriðjudag að Sun væri hætt að birta nektarmyndir á blaðsíðu þrjú.
Myndin í dag birtist undir orðunum „skýringar og leiðréttingar“ en undir henni stóð: „Í ljósi nýlegra fregna í öllum öðrum miðlum viljum við gera ljóst að þetta er síða 3 og þetta er mynd af Nicole, 22 ára, frá Bournemouth.
Við biðjumst velvirðingar fyrir hönd þeirra prent- og ljósvakablaðamanna sem hafa varið síðustu tveimur dögum í að tala og skrifa um okkur.“
So it seems the fight might be back on. Thanks to @TheSunNewspaper for all the publicity they've given the campaign. See you tomorrow xxx
— NoMorePage3 (@NoMorePage3) January 21, 2015
The Sun hefur birt myndir af hálfnöktum konum á blaðsíðu þrjú allt frá 1970. Glamúrfyrirsæturnar Samantha Fox og Katie Price eru meðal þeirra kvenna sem tóku sín fyrstu skref í bransanum á síðu 3.
Í undirskriftasöfnun gegn myndbirtingunum hafa alls 217.000 kvittað undir, en samkvæmt YouGov-skoðanakönnun frá 2012 var 61% svarenda fylgjandi því að þessari sérstöku hefð Sun yrði fram haldið.