Myndband af breska þróunarlíffræðingnum Richard Dawkins að lesa upp haturspóst sem honum barst vakti athygli fyrir nokkrum árum. Dawkins hefur nú endurtekið leikinn með skilaboðum sem honum hafa síðan borist. „Þú heldur að guð sé ekki til vegna þess að þú ert hommi og heimskur,“ er á meðal þess „kristilega kærleika“ sem honum hefur verið sendur.
Dawkins var prófessor við Oxford-háskóla og einn af fremstu þróunarlíffræðingum heims. Hann hefur einnig verið ákafur gagnrýnandi trúarbragða og hvergi dregið af sér í yfirlýsingum um skaðsemi þeirra. Sú gagnrýni hans og vörn hans á þróunarkenningu Darwins hafa aflað honum umtalsverðra óvinsælda hjá sumu trúuðu fólki.
„Þú, herra minn, ert alger asni. Uppgerðargáfur þínar eru ekkert annað en prump guðs. Þú ert einn af þeim óheppnum sem þarf að láta guð troða því í andlitið á þér. Sál þín er í hættu,“ skrifar einn áhyggjufullur lesandi skrifa Dawkins honum.
„Richard Dawkins, hvernig getur þú réttlætt þróunarkenninguna þegar þú ert mögulega viðbjóðslegasta og ljótasta skítahrúguveran á jörðinni?“ skrifar annar.
Fjölmargir aðrir óska honum dauða og að hann verði brenndur og pyntaður í helvíti.
Spurður að því hvernig honum verði við að lesa rætna haturspósta þar sem honum er meðal annars óskað að fá krabbamein segir Dawkins að þeir séu ágætir fyrir sjálfstraustið.
„Mér finnst þeir allir frekar skemmtilegir,“ segir hann.