Spennuþátturinn Fortitude, sem tekin var upp hér á landi, hóf göngu sína í kvöld á bresku sjónvarpsstöðinni Sky Atlantic.
Í samtali við Radio Times segir framleiðandi þáttanna, Patrick Spence, upplifunina af Fjarðabyggð hafa verið einstaka en að bæði umhverfið og byggingarnar séu mjög líkar því sem hann hafði séð á norðurskautssvæðinu, þar sem þættirnir eiga sér stað. Auk þess hafi verið kvikmyndateymi á staðnum sem var nýbúið að taka upp Game of Thrones, sem og næg rúm fyrir alla sem komu að gerð þáttanna og því hafi staðsetningin verið fullkomin.
„Ísland er ótrúlegur staður til að kvikmynda,“ segir Spence. „Ég myndi ekki einu sinni íhuga að taka Fortitude upp annars staðar, ef við værum svo heppin að fá að taka upp aðra þáttaröð myndum við fara aftur til Íslands. Við elskuðum það. Okkur langar mikið til að gera aðra,“ segir Spence.
Spence bendir lesendum Radio Times jafnframt á þá staði á landinu sem þeir eiga að heimsækja vilji þeir upplifa þá náttúru sem sjá má í þáttunum. Segir hann Jökulsárlón, sem sést í upphafi fyrsta þáttarins, vera magnþrungið allt árið um kring. Þá bendir hann á Mjóafjarðarheiði sem lék hlutverk jökuls í þáttunum og sömuleiðis á Reyðarfjörð, Eskifjörð og Seyðisfjörð sem allir leika hlutverk smábæjarins Fortitude og nánasta umhverfis hans í þáttunum.