Ummæli Bjarkar Guðmundsdóttur í viðtali við tónlistarvefmiðilinn Pitchfork um hvað það sé algengt að karlar njóti heiðursins af verkum kvenna hafa vakið mikla athygli og umræðu. „Ég vil styðja ungar stelpur sem nú eru upp úr tvítugu og segja við þær: Þið eruð ekki að ímynda ykkur hluti. Þetta er erfitt. Allt sem karl segir einu sinni þurfið þið að segja fimm sinnum,“ segir Björk í viðtalinu.
Viðtalið er tekið í tilefni af útkomu plötunnar Vulnicura, sem sett var í sölu í vefverslunum tveimur mánuðum fyrr en ætlað var eftir að henni var lekið á netið.
Í viðtalinu við Pitchfork er Björk spurð um rangfærslur um að listamaðurinn Alejandro Ghersi, sem notar listamannsnafnið Arca, hefði stjórnað upptökum á plötunni, þegar hið rétta væri að þau hefðu gert það saman. Segir spyrillinn að þetta minni á tilvitnun í Joni Mitchell þegar hún var á hátindi frægðar sinnar þess efnis að sá karlmaður, sem svo vildi til að væri í sama herbergi og hún, fengi heiðurinn af list hennar.
Vildi ekki tala um þessa hluti í tíu ár
„Já, í tíu ár vildi ég ekki tala um hluti af þessum toga, en síðan hugsaði ég með mér: „Þú ert heigull ef þú stígur ekki fram. Ekki fyrir þig, hyeldur fyrir konur. Segðu eitthvað,““ segir Björk í viðtalinu. „Þannig að um 2006 skrifaði ég eitthvað á netið þar sem ég kom málum á hreint vegna þess að það hafði verið sett svo oft á netið að það var að verða staðreynd. Þetta var ekki bara spurning um að einn blaðamaður hefði rangt fyrir sér, allir höfðu rangt fyrir sér. Hvað hef ég verið lengi í tónlist, 30 ár? Ég hef verið í hljóðverum frá því ég var 11 ára; Alejandro hafði aldrei gert plötu þegar ég vann með honum. Hann veldi setja eitthvað á Twitter hjá sér, til að segja að hann hefði verið meðstjórnandi. Ég sagði: „Nei, við vinnum aldrei þessa orrustu. Látum það bara eiga sig.“ En hann gaf sig ekki. Ég hef stundum velt fyrir mér að gefa út kort af öllum mínum plötum þannig að það yrði klárt hver gerði hvað. En það myndi alltaf virka eins og vörn og yrði brjóstumkennalegt.“
Björk segir að konur séu í allt annarri stöðu en karlar og tekur Kanye West sem dæmi um leið og hún tekur fram að hún sé ekki að hallmæla honum: „Þetta snýst um hvernig fólk talar um hann. Á síðustu plötunni sinni fékk hann alla bestu taktsmiðina á plánetunni til að gera takta fyrir hann. Oft var hann ekki einu sinni á staðnum. Samt dró enginn eina sekúndu í efa að hann væri höfundurinn. Ef það sem ég segi við þig núna hjálpar konum, þá er ég til í að segja það. Ég gerði til dæmis 80% af töktunum á Vespertine og það tók mig þrjú ár að vinna plötuna vegna þess að svo mikið af þeim eru örtaktar – þetta var eins og að vinna risastórt útsaumsverk. Matmos komu til liðs við mig síðustu tvær vikurnar og bætti við ásláttarhljóðfærum ofan á lögin, en gerðu ekkert af aðalþáttunum og þó fá þeir alls staðar heiðurinn af því að hafa gert alla plötuna. Drew [Daniel úr tvíeykinu Matmos] er náinn vinur minn og hann leiðrétti þetta í hverju einasta viðtali, sem hann fór í. En þeir hlusta ekki einu sinni á hann. Það er mjög skrítið.“
„18 atriði þar sem Björk hafði rétt fyrir sér um allt“
Ummæli Bjarkar hafa vakið athygli. Á vefmiðlinum Buzzfeed birtist grein undir fyrirsögninni „18 atriði þar sem Björk hafði rétt fyrir sér um allt“.
Á vefnum Daily Life bar Ruby Hamad sjötíu ára gömul ummæli Frances Perkins, sem var vinnumálaráðherra og eina konan í ríkisstjórn Franklins D. Roosevelts Bandaríkjaforseta þegar hann var að vinna á kreppunni miklu á fjórða áratug 20. aldar.
Í bókinni The Woman Behind the New Deal greinir sagnfræðingurinn Kirstin Downey frá því að það hafi í raun verið Perkins, sem hafði mest að segja um lykilatriði í þeirri áætlun, sem nefndist New Deal eða nýi sáttmáli. Hamad birtir ummæli, sem Perkins lét falla síðar um setu sína í stjórninni: „Ég reyndi eins og unnt var að bera grímu. Ég vildi gefa þá mynd að ég væri hljóðlát, skipulögð kona, sem ekki suðaði látlaust. Ég vissi að kona, sem kemur með hugmynd inn í samtal manna, er ekki vel séð … Þú greipst ekki fram í með snilldarhugmyndir.“
Hamad tekur síðan orð Bjarkar úr viðtalinu við Pitchfork sjö áratugum síðar: „Eftir að hafa verið eina stelpan í hljómsveitum komst ég að því – eftir að hafa farið erfiðu leiðina – að ef ég ætlaði að ná fram hugmyndum mínum varð ég að láta eins og þeir – karlarnir – hefðu fengið hugmyndirnar. Ég varð mjög góð í þessu og tók ekki einu sinni eftir því sjálf.“
Í lok viðtalsins segir Björk að hún finni greinilega á sér að „þriðja eða fjórða femínistabylgjan liggi í loftinu, þannig að kannski er nú góður tími til að opna öskju Pandóru örlítið og lofta út“.
Í sunnudagsblaðinu er fjallað um lekann á plötu Bjarkar á netið, ákvörðunina um að setja hana strax í sölu í vefverslunum og nær einróma lof um plötuna, sem Der Spiegel kallar meistaraverk.