Fjögur af sex lögum komust áfram í Söngvakeppni sjónvarpsins í gær og munu taka þátt í lokakeppninni næstkomandi laugardagskvöld þegar framlag Íslands til Eurovision verður valið.
Lögin sem komust áfram eftir símakosninguna voru Lítil skref, Fjaðrir og Fyrir alla. Fjórða lagið, sem leynileg dómnefnd valdi áfram, heitir Milljón augnablik. Á meðfylgjandi myndum má sjá hversu mögnuð stemningin var í Háskólabíói í gærkvöldi.
Hvítur og rauður voru áberandi litir í keppninni í gær. Þulirnir þrír klæddust eldrauðu og margir vildu meina að hvítt og rautt litaþema hefði verið gegnumgangandi í keppni kvöldsins.
Flytjandi lagsins Lítil skref er María Ólafsdóttir. Höfundar lags og texta eru þeir Ásgeir Orri Ásgeirsson, Pálmi Ragnar Ásgeirsson og Sæþór Kristjánsson.
Hljómsveitin SUNDAY flutti lagið Fjaðrir, í hljómsveitinni eru Hildur Kristín Stefánsdóttir, Guðfinnur Sveinsson, Vignir Rafn Hilmarsson og Helga Kristín Ingólfsdóttir.
Hljómsveitin CADEM flutti lagið Fyrir alla, í henni eru þau Daníel Óliver, Emelie Schytz og Caroline Waldemarsson.
Lagið Milljón augnablik var flutt af Hauki Heiðari Haukssyni. Höfundur lags og texta er Karl Olgeir Olgeirsson.