Risavöxnu rapphneyksli afstýrt

Fancy er án efa vinsælasta lag Iggy Azalea til þessa …
Fancy er án efa vinsælasta lag Iggy Azalea til þessa en þar bregður hún sér í hlutverk Clueless persónunnar Cher. Skjáskot af YouTube

Einar stærstu fréttirnar af Grammy verðlaunum gærdagsins eru, ótrúlegt en satt, ekki af sigurvegarum heldur af því sem ekki varð. Margir vilja nefnilega meina að einu stærsta hneyksli í sögu verðlaunanna hafi verið afstýrt þegar nafn Eminem var kallað upp fyrir bestu rapp breiðskífu ársins í stað Iggy Azalea sem einnig var tilnefnd.

Það kemur eflaust mörgum á óvart að Eminem þyki betri kostur en Azalea. Hann er þrátt fyrir allt hvítur karlmaður í tónlistarheimi sem rekur uppruna sinn til undirokunar þeldökkra Bandaríkjamanna. Þar að auki hafa textabrot af umræddri plötu vakið mikla reiði og þá sérstaklega setning þar sem Eminem vísar í heimilisofbeldi ruðningskappans Ray Rice og segist tilbúinn að kýla söngkonuna Lönu Del Rey tvisvar í andlitið.

Dauðasynd rapparans

Þrátt fyrir húðlit sinn og umdeilda texta nýtur Eminem mun meiri virðingar en Iggy í rapp-samfélaginu og er viðurkenndur af þeldökkum jafningjum sínum og fyrirrennurum. Fræðimenn í faginu hafa skrifað þá velgengni á það að auk þess að bjóða upp á gott flæði og sterkar rímur hefur Eminem aldrei þóst vera annað en hann er. Hann hefur ekki reynt að koma sér fyrir í „ghetto-inu“ þar sem rapphefðin á uppruna sinn heldur fjallað um hjólhýsagarðinn sem hann ólst upp í, stormasöm sambönd sín við fjölskyldumeðlimi sína og vímuefnafíkn. Í ádeilum sínum á stjórnvöld og „kerfið“ hefur Eminem síðan sýnt af sér meiri trúðslæti en hefð er fyrir í rappheiminum og þannig hefur honum tekist að skapa sér sína eigin rödd, að mestu leyti án þess að sýna uppruna listformsins virðingarleysi.

Iggy Azalea þykir aftur á móti síendurtekið fremja dauðasynd rapparans. Óskrifuð regla númer eitt í bandarísku rappi er að vera alltaf sjálfum sér trúr eða „keep it real“ eins og sagt er ytra en mörgum þykir sú hafa reynst Iggy, sem raunar er áströlsk, ofviða. Iggy hefur síendurtekið þurft að berja af sér orðróm og ásakanir um að hún skrifi ekki sína eigin texta. Slíkt þurfa konur innan rappheimsins reglulega að þola en í þetta sinn heyrast efasemdaraddirnar hærra en vanalega og einna hæst frá öðrum kvenkyns röppurum.

Stærsta vandamál Iggy er hinsvegar meintur menningarstuldur (e. cultural appropriation) hennar en það er það athæfi þegar meðlimir ríkjandi menningarhóps yfirfæra og eigna sér einkenni minnihlutahópa. Iggy hefur verið sökuð um að breyta rödd sinni og hreim þegar hún rappar til þess að hún líkist meira rödd og talanda þeldökkra, bandarískra kvenna. Iggy talar hljómþýðri röddu með áströlskum hreim en þegar hún rappar breytist hreimurinn og röddin verður skrækari eins og heyra má á myndböndunum neðst í fréttinni. Í ofanálag hefur Iggy gefið í skyn að Miley Cyrus hafi stolið „twerk“ danshreyfingunni frá sér en í raun rekur hreyfingin uppruna sinn til Afríku og á sér langa sögu í bandarísku rappi.

Kynþáttavandamál Grammy-verðlaunanna

Menningarstuldur var mikið á millli tannanna á álitsgjöfum, bloggurum og blaðamönnum fyrir Grammy verðlaunin í ár. Eins og Raquel Cepeda bendir á í grein sinni „Do the Grammys have a race problem“ fyrir The Rolling Stone voru allir þeir sem tilnefndir voru í flokknum „Besti nýji tónlistarmaðurinn“ hvítir og sömu sögu var að segja í flokknum „Lag ársins“. Þá voru þriðjungur þeirra sem tilnefndir voru fyrir bestu rapp-plötuna einnig hvítir og breski sálarsöngvarinn Sam Smith, sem er hvítur en undir áhrifum þeldökkra R&B listamanna, deildi sæti með Beyoncé Knowles fyrir flestar tilnefningar og hirti að lokum mestan fjölda verðlauna. Það voru þó tilnefningar Iggy sem vöktu mestu reiðina.

„Framkoma hennar er óraunveruleg endursköpun af borgarlífinu sem hæðir það, svar tónlistar við landheimtustefnu miðstéttarinnar á hverfi lágstéttarinnar, sem vanhelgar menninguna og fólkið sem Azalea heldur því fram að hún hafi verið innblásin af,“ skrifar Cepeda.

Áþekkar hugmyndir má finna í grein Lindsay Zolads fyrir New York Magazine sem ber fyrirsögnina „Please, Don’t Let Iggy Azalea Win the Best Rap Album Grammy“. Zolads bendir á að Iggy hafi fengið ótal tækifæri til að sýna samfélagi þeldökkra samkennd, t.a.m. vegna þöggunar svartra radda og lögregluofbeldi gegn ungum svörtum mönnum, en að hún hafi klúðrað flestum þeirra rækilega.

Zolad tekur þó fram að helsta ástæða þess að Azalea eigi verðlaunin ekki skilin séu gleðilaust flæði hennar og formlausir textar. Hún segir plötuna vera tóma og ófyrirgefanlega venjulega.

Afsláttur vegna kyns?

Margir hefðu viljað sjá konu fara heim með verðlaunagripinn í fyrrnefndum rappflokki enda er Iggy aðeins fimmta konan til að vera tilnefnd. Missy Elliot hefur verið tilnefnd fjórum sinnum fyrir bestu rapp-plötuna og Eve og Nicki Minaj hafa báðar fengið sína tilnefninguna hvor. Lauren Hill er eina konan sem unnið hefur verðlaunin en þau hlaut hún ásamt félögum sínum í The Fugees.

Konur eiga erfitt uppdráttar í rappheiminum og þeir sem fylgjast með rappsenunni hér heima þekkja þá staðreynd vel. Eina konan sem hefur ílengst í bransanum hér á landi er hin eitursnjalla Cell7 sem steig sín fyrstu skref með hipphopp sveitinni Subterranean á tíunda áratugnum og átti stórbrotna endurkomu árið 2013. Með tilkomu Reykjavíkurdætra, sem telja hátt á annan tug, varð þar áberandi breyting á en þær koma fram undir formerkjum femínisma og taka hlutverki sínu sem fyrirmyndir ungra stúlkna fagnandi.

Reykjavíkurdætur hafa, líkt og Iggy Azalea, orðið fyrir miklu aðkasti á veraldarvefnum, ekki síst eftir að rapparinn Emmsjé Gauti tjáði sig um tónlist þeirra. Þær „faglegu“ athugasemdir sem gerðar hafa verið um tónlistarsköpun stúlknanna snúa, líkt og þær athugasemdir sem Azalea fær, einna helst að flæði og textagerð auk þess sem sjálf tónlistin hefur fallið misjafnan jarðveg meðal hefðbundinna rappunnenda. Ólíkt Iggy hafa Reykjavíkurdætur aftur á móti ekki verið gagnrýndar á grundvelli menningarstulds heldur einmitt fyrir viðleitni sína við að aðlaga rapphefðina femínískum gildum. Það verður að segjast að slík gagnrýni er í hæsta máta óupplýst og oftast ósmekkleg í ofanálag en meðal þess sem stúlkurnar hafa verið kallaðar er„remúlaðifylltu brundbuddur“.

Reykjavíkurdætur eru það margar og ólíkar að ótækt er að alhæfa um hæfni þeirra sem rappara útfrá hópnum sem heild. Að undanskyldum nýlegum mótsvörum Kolfinnu Nikulásdóttur eða Kylfunnar við tístum Emmsjé Gauta hafa þær hinsvegar staðið sem ein heild gegn misrétti. Það hefur Iggy ekki gert og í pistlinum „Iggy Azalea: Dumb or Evil? A Brief Investigation“ kemst Kara Brown vel að orði um ástæður þess að það sé ekki andfemínískt að gagnrýna Iggy.

„Það væri mun óréttmætara að leyfa valdamiklum konum að komast upp með hegðun sína bara af því að þær eru konur,“ skrifar Brown. „Að styðja konur þýðir að taka þær nógu alvarlega til að benda á mynstur kynþáttafordóma sem rekur rætur sínar til og hefur áhrif á lúmska, stærri kynþáttafordóma sem enn gegnsýrir bandaríska menningu.“

Fimm fyrir konur, sex fyrir Eminem

Azalea vandamálið hvíldi það þungt á herðum hipphopp heimsins að þegar þetta er skrifað hefur enn engin gagnrýni dúkkað uppi á veraldarvefnum vegna sigurs Eminem en sú mun eflaust líta dagsins ljós. Eftir gærkvöldið á hann samtals 15 Grammy verðlaun en Kanye West er eini rapparinn sem oftar hefur verið verðlaunaður á hátíðinni, eða 21 sinni.

Eminem hefur unnið verðlaunin fyrir bestu rapp-plötuna sex sinnum en eins og áður kom fram hefur einungis fimm konum einu sinni hlotnast sá heiður að vera tilnefndar. Það virðist morgunljóst að Grammy verðlaunahátíðin eigi við kynþáttafordóma að stríða en líkt og rappsenan sjálf virðist hátíðin einnig eiga við kynjamismunun að stríða.

Sérfræðingar Grammy verðlaunanna virðast hafa lært af Macklemore klúðri síðasta árs og ákveðið að velja ekki einfaldlega þann listamann sem á mestu fylgi að fagna á Top40 vinsældalistanum. Því er aldrei að vita nema á næsta ári verði það Missy Elliot, Azealia Banks, M.I.A eða Nicky Minaj sem lyfti grammófóninum góða. Við skulum samt ekki halda niðri í okkur andanum.

Hér má heyra Iggy ræða um sviðsnafnið sitt.

Og hér má heyra hana rappa í lagi sínu „Work“.

Eminem er umdeildur en alls ekki eins illa séður og …
Eminem er umdeildur en alls ekki eins illa séður og Iggy. mbl.is/AFP
Iggy Azalea hefur haldið því fram að Miley Cyrus hafi …
Iggy Azalea hefur haldið því fram að Miley Cyrus hafi verið að herma eftir henni með því að twerka. mbl.is/AFP
Iggy Azalea á rauða dreglinum í nótt.
Iggy Azalea á rauða dreglinum í nótt. mbl.is/AFP
Missy Elliott tróð óvænt upp á Ofurskálinni ásamt Katy Perry …
Missy Elliott tróð óvænt upp á Ofurskálinni ásamt Katy Perry í síðasta mánuði og vonast margir til að það merki að endurkoma rappgyðjunnar sé yfirvofandi. mbl.is/AFP
Reykjavíkurdætur eru fjölmennur hópur rappkvenda.
Reykjavíkurdætur eru fjölmennur hópur rappkvenda. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir