„Enginn ofurpabbi með byssu sem bjargar öllu“

Mörg leikstjórnarverkefni bíða Baltasars Kormáks.
Mörg leikstjórnarverkefni bíða Baltasars Kormáks. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kvikmyndavefurinn Variety greindi frá því um helgina að Baltasar Kormákur kæmi til með að leikstýra kvikmyndinni The Oath eftir handriti Ólafs Egilssonar. Baltasar er staddur á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín, Berlinale, þar sem hann er framleiðandi nýjustu kvikmyndar Dags Kára Péturssonar, Fúsa, sem frumsýnd var á hátíðinni í gær. Blaðamaður sló á þráðinn til Baltasars til að forvitnast um The Oath, eða Eiðinn eins og hún heitir á íslensku, nýjustu kvikmyndina af nokkrum sem hann mun leikstýra.

Baltasar segir Eiðinn verkefni sem RVK Studios, framleiðslufyrirtæki hans, hafi verið að þróa með Ólafi undanfarið. Upphaflega hafi Eiðurinn átt að vera sjónvarpsþáttasyrpa en hann hafi fljótlega áttað sig á því að þarna væri spennandi efni í kvikmynd. „Þetta er eitt besta efni og mest spennandi sem ég hef séð fyrir bíómynd og þá er ég að telja með það sem ég hef verið að lesa úti. Mig langar líka að gera íslenska mynd fljótlega þannig að við ákváðum að setja þetta saman sem bíómynd og erum komnir með handrit sem við erum að byrja að kynna. Það er slegist um að komast inn í þetta verkefni, grínlaust,“ segir Baltasar og á þar við erlenda framleiðendur.

Læknir til bjargar dóttur sinni

En um hvað fjallar Eiðurinn? „Þetta er bara Ísland í dag þar sem þú sérð fréttir hverja einustu helgi um týndar stelpur. Þessar unglingsstelpur eru alltaf að hverfa yfir eina og eina helgi og eru greinilega að daðra við eitthvað sem er hættulegra en þær eiga að vera að daðra við. Sagan segir af lækni, föður stúlku sem fer að reyna að ná henni út úr þessu og lendir í ótrúlegu mótlæti og erfiðleikum.

Ég hef lýst þessu sem „realistic Taken“. Það er enginn ofurpabbi með byssu sem bjargar öllu heldur sýnir myndin það sem er í raun og veru að gerast í kringum okkur. Það eru misjafnir gæjar af dekkri stigum lífsins að draga stelpur á tálar sem eru ekki orðnar fullorðnar ennþá,“ segir Baltasar og vísar í spennumyndina Taken þar sem Liam Neeson fer með hlutverk fyrrverandi leyniþjónustumanns sem leitar horfinnar dóttur sinnar og fellir hvern þann sem stendur í vegi fyrir honum. „Ég þekki nú þrjár svona sögur sem eru ansi nálægt bæði mér og Óla og eru mjög erfiðar,“ segir Baltasar um umfjöllunarefni Eiðsins.

– Læknirinn kemst þá í kast við glæpamenn...

„Já, og svo er fjallað um hvaða áhrif þetta hefur á allt heimilislífið, þegar þú ert að reyna að stjórna ástum dóttur þinnar sem er nánast vonlaust en mjög skiljanlegt því þú vilt ekki að hún eyðileggi líf sitt og framtíð með því að fara inn í þessa heima. Þetta er þrususpennandi. Á sama tíma er þetta einn færasti læknir landsins og ég er einmitt kominn með Tómas Guðbjartsson sem sérlegan ráðgjafa og aðstoðarmann minn,“ segir Baltasar og á þar við hjartaskurðlækninn þjóðkunna. Baltasar segir ráðgjöf Tómasar tryggja að allt sem snýr að læknisfræði í myndinni verði rétt.

Mikill áhugi ytra

Baltasar segir handrit Ólafs eitt það mest spennandi sem hann hafi lesið og að myndin verði öll gerð á Íslandi. Þeir sem hann hafi kynnt myndina fyrir úti í Berlín hafi verið mjög spenntir fyrir henni og haft áhuga á því að koma að framleiðslunni. „Þannig að ég er að vona að ég geti gert þetta sem fyrst. Ég er að klára Everest úti en mig hefur mikið langað til að koma heim og halda áfram að gera myndir heima líka, eins og ég hef alltaf sagt,“ segir Baltasar.

– Er mögulegt að þessi mynd fari fremst í röð þeirra sem þú ætlar að leikstýra?

„Það getur vel verið. Handritið er á góðum stað, við erum búnir að vinna saman í þessu við Óli. Óli á náttúrlega handritið upphaflega,“ segir Baltasar og ítrekar að hann sé meðhöfundur. Spurður að því hvort búið sé að velja leikara í myndina segir Baltasar svo ekki vera. „Það eru frábær hlutverk í þessu og ég er byrjaður að leita að leikurum en það er ekki búið að ákveða neitt ennþá.“

Hollywood-Seyðisfjörður

Baltasar heldur frá Berlín til Lundúna eftir viku og þegar störfum hans lýkur þar heldur hann til Seyðisfjarðar í tökur á sjónvarpsþáttunum Ófærð. Baltasar er einn fjögurra leikstjóra þáttanna sem RVK Studios framleiðir. „Það er Hollywood-Seyðisfjörður,“ segir Baltasar, hlær að heimshornaflakkinu og segist afskaplega ánægður með Ófærð. Hinar Norðurlandaþjóðirnar fái ekki að sitja einar að því að framleiða vandaða glæpaþætti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar