Óskarsverðlaunahátíðin er eitt mikilvægasta kvöld ársins í vestrænum kvikmyndaiðnaði. Glys og glamúr rauða dregilsins heillar enn fremur marga og þrátt fyrir að hátíðin fari fram um miðja nótt á íslenskum tíma eru margir sem missa aldrei af Óskarnum. Þetta árið verkur hátíðin jafnvel enn meiri áhuga Íslendinga en áður þar eitt af óskabörnum þjóðarinnar, Jóhann Jóhannsson tónskáld, er tilnefndur til verðlauna. Ef ætlunin er að halda sér vakandi í heila nótt yfir sjónvarpsviðburði er ekki verra að vera vopnaður vitneskju um það sem mun eiga sér stað. Mbl.is tók saman helstu staðreyndir um hátíðina og mun fylgjast grannt með gangi mála í kvöld og nótt.
Óskarsverðlaunahátíðin var fyrst haldin árið 1929. Verðlaunahafarnir voru kynntir þremur mánuðum áður í fjölmiðlum og var því lítil spenna í loftinu þegar alls 15 styttur voru afhentar þetta kvöld. Þessu fyrirkomulagi var breytt árið eftir og fékk fjölmiðlafólk nöfn sigurvegara í hendurnar klukkan 11 sama kvöld og hátíðin fór fram allt fram til ársins 1940. Það ár birti Los Angeles Times nöfn sigurvegaranna í kvöldútgáfu sinni og gátu gestir hátíðarinnar því lesið um úrslitin áður en að þeim kom. Síðan þá hafa nöfn verðlaunahafa verið í innsigluðum umslögum allt þar til þau eru kynnt á hátíðinni.
Hátíðinni var fyrst útvarpað beint árið 1930 og hefur verið sjónvarpað frá árinu 1953. Fyrst var sýnt í lit árið 1966 og þremur árum síðar hófust alþjóðlegar útsendingar og er Óskarinn nú sýndur beint í yfir 200 löndum.
Hvorki stríð né náttúruhamfarir hafa komið í veg fyrir að hátíðin hafi verið haldin til þessa en hinsvegar hefur henni verið frestað þrisvar, um viku árið 1938 vegna flóða í Los Angeles, í tvo daga vegna jarðarfarar Martin Luther King Jr. Árið 1968 og í einn sólarhring árið 1981 vegna morðtilræðis við þáverandi forseta Bandaríkjanna, Ronald Reagan.
Þrír einstaklingar hafa hafnað Óskarnum, Dudley Nichols sem vann fyrir handritið að The Informer árið 1935, George C. Scott sem vann fyrir leik sinn í kvikmyndinni Patton árið 1970 og Marlon Brando árið 1972 en hann vann verðlaunin fyrir leik sinn í The Godfather. Nichols hafnaði þeim vegna ágreinings milli Kvikmyndaakademíunnar (e. Academy of Motion Picture Arts and Sciences) og Samtaka rithöfunda (e. The Writer's Guild). Scott þótti athöfnin yfirborðskennd og kallaði hana tveggja klukkustunda kjötskrúðgöngu. Brando vildi hinsvegar mótmæla framferði Bandaríkjanna og Hollywood gagnvart indjánum Norður-Ameríku og sendi leikkonuna Mariu Cruz, til að taka við verðlaununum í gervi indjánastúlkunnar Sacheen Littlefeather.
Verðlaunin ganga undir tveimur nöfnum, Kvikmyndaverðlaun akademíunnar (e. The Academy Awards) og Óskarsverðlaunin (e. The Oscar). Hið fyrrnefnda vísar til þess að það er einmitt Kvikmyndaakademían sem veitir þau. Aðeins fæst innganga í akademíuna með formlegu boði en þrátt fyrir að hún innihaldi marga alþjóðlega listamenn eru flestir meðlimanna hvítir.
Síðarnefnda nafnið, Óskarsverðlaunin eða einfaldlega Óskarinn, er hinsvegar dregið af gælunafni verðlaunagripsins sem heitir réttu nafni „The Academy Award of Merit“. Gælunafnið var lengst af jafnframt gælunafn hátíðarinnar en árið 1939 var það formlega tekið upp við markaðsetningu hátíðarinnar og frá 2013 hefur það verið opinbert heiti hennar.
2,809 Óskarsstyttur hafa verið afhentar frá fyrstu verðlaununum árið 1929 og frá árinu 1982 hefur sami verðlaunaframleiðandinn í Chicago séð um framleiðslu þeirra. Hver stytta er um 34 cm á hæð og vegur tæp fjögur kíló. Hún stendur á filmuhjóli með fimm pílárum sem standa fyrir fimm upprunalegar greinar akademíunnar: leikara, leikstjóra, framleiðendur, tæknimenn og handritshöfunda.
Ekki eru til staðfestar heimildir um ástæðu gælunafnsins Óskar. Vinsælasta sagan segir að þegar Margaret Herrick, þáverandi bókasafnsvörður akademíunnar, hafi fyrst barið styttuna augum hafi hún haft á orði að hún líktist Óskari frænda hennar.
Á seinni stríðsárunum voru Óskarsstytturnar ekki úr málmi heldur gifsi þar sem framleiðendur hátíðarinnar vildu sýna stuðning sinn við stríðið í verki. Verðlaunahafar gátu þó skipt styttunum sínum út fyrir gylltar styttur að stríðinu loknu.
Óskarsverðlaunahátíðin árið 2015 er sú 87. í röðinni en eins og alltaf eru kvikmyndaverk frá árinu áður, í þessu tilviki 2014, gjaldgeng til verðlauna. Útsendingin frá rauða dreglinum hefst á RÚV klukkan 23.55 á íslenskum tíma á sunnudagskvöld en athöfnin sjálf hefst klukkan 01.30 aðfaranótt sunnudags og gera má ráð fyrir að hún standi yfir til 5.
Neil Meron og Graig Zadan eru framleiðendur Óskarsins þriðja árið í röð og er fyrsta teymið til að ná þeim árangri í 16 ár. Leikstjórinn Hamish Hamilton sem sá um sýningu Beyoncé Knowles í hálfleik Ofurskálarinnar (e. Super bowl) árið 2013 er þeim til halds og trausts ásamt danshöfundinum Rob Ashford og leikmyndahönnuðinum Derek McLane. Tónlistarstjórn er í höndum Stephen Oremus sem er þekktastur fyrir vinnu sína við Frozen og hljómsveitarstjórans Harold Wheeler úr Dancing With the Stars. Auk þeirra koma hundruð einstaklinga að ýmsum misstórum verkum tengdum hátíðinni. Tveir mikilvægustu einstaklingarnir eru þó nafnlausir því það eru þeir meðeigendur í endurskoðendafyrirtækinu PriceWaterhouseCoopers sem sjá um að koma nöfnum sigurvegaranna í umslögin sem svo eru innsigluð fram að stóru stundinni.
Í október var tilkynnt að leikarinn Neil Patrick Harris myndi vera aðalkynnir Óskarsins en hann er þekktastur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum How I Met Your Mother. Það þýðir að Harris gæti orðið sá fyrsti til að hafa kynnt allar fjórar stærstu verðlaunahátíðir skemmtanabransans vestanhafs sem saman eru kallaðar EGOT. Hann hefur nú þegar kynnt Emmy-verðlaunin og Tony-verðlaunin svo Grammy-verðlaunin eru þau einu sem hann á eftir.
Harris er mikill söngleikjaunnandi og vann t.a.m. Tony-verðlaun í fyrra fyrir leik sinn sem Hedwig í Broadway-söngleiknum Hedwig and the Angry Inch. Því er ekki að undra að hann hafi þegar gefið upp að hann stefni á stórkostlegt söngleikjaatriði með sérstökum gestum. Lagið sem Harris mun syngja heitir „Moving Pictures“ og er samið af lagahöfundum Frozen, Kristen Anderson-Lopez og Robert Lopez sem unnu m.a. Óskarsverðlaun í fyrra fyrir lagið „Let It Go“ sem hvert einasta mannsbarn virðist þekkja. Gera má ráð fyrir að þónokkuð af atriðum Harris muni innihalda söng og dans en þar að auki er ekki ólíklegt að eitthvað verði um töfrabrögð en slíkar brellur munu í miklu uppáhaldi hjá leikaranum geðþekka.
Hér má sjá Harris opna Tony-verðlaunin árið 2013.
Auk Harris munu fjölmargir þekktir einstaklingar sjá um að afhenda stytturnar og kynna skemmtiatriði. Samkvæmt hefðinni munu sigurvegarar fyrir bestu leikkonur og leikara í aðal- og aukahlutverkum afhenda verðlaun til hins kynsins í sínum flokki en það verða þau Cate Blanchett, Matthew McConaughey, Lupita Nyong‘o og Jared Leto. John Travolta mun einnig kynna verðlaun í ár og bíða margir spenntir eftir því að sjá hvort honum gangi aftur eins illa og í fyrra því þá klúðraði hann gjörsamlega framburði á nafni Idinu Menzel.
Þess má geta að textinn sem kynnarnir fara með á sviðinu er allur saminn af handritshöfundinum Greg Berlanti.
Að venju munu öll þau lög sem tilnefnd eru til verðlauna sem besta frumsamda lagið í kvikmynd vera flutt á sviðinu. Maroon 5 munu flytja „Lost Stars“ úr Begin Again, John Legend og Common munu flytja „Glory“ úr Selma, Tegan, Sara og the Lonely Island munu flytja „Everything Is Awesome” úr The Lego Movie og Rita Ora mun flytja „Grateful“ úr Beyond the Lights. Þá mun Tim McGraw flytja „I‘m Not Gonna Miss You“ úr Glen Campbell: I‘ll Be Me í stað Campbell sjálfs. Campbell þjáist af Alzheimer og kvikmyndin segir frá kveðjutónleikaferðalagi hans. Lagið er það síðasta sem Campbell mun nokkurn tíma gefa út og er ljúfsár kveðja hans til ástvina sinna.
Nýlega var tilkynnt að Lady Gaga mundi koma fram í fyrsta skipti á Óskarsverðlaununum og miðað við yfirlýsingar framleiðanda hátíðarinnar mun henni ætlað að heiðra einhvern eða einhverja svo líklegt er að hún muni ekki syngja eigin lög. Jack Black mun einnig koma fram og spila röð laga en einnig munu þær Jennifer Hudson og Anna Kendrick koma fram. Blaðamaður Vulture telur að Hudson muni syngja á meðan að á minningarathöfn hátíðarinnar stendur yfir en framleiðendur hátíðarinnar segjast hafa fengið gæsahúð á æfingu söngkonunnar.
Þá erum við komin að máli málanna, tilnefningum og verðlaunahöfum. Í ár eru 24 flokkar með alls 131 tilnefningu. Fimm tilnefningar eru í flestum flokkum en í flokknum besta kvikmyndin eru þær átta og í flokki fyrir besta hár og förðun eru aðeins þrjár.
Kvikmyndirnar The Grand Budapest Hotel og Birdman fengu flestar tilnefningar í ár eða níu hvor. Flestir telja að sú síðarnefnda hljóti Óskarinn fyrir bestu kvikmyndina en sú fyrrnefnda er einnig tilnefnd til þeirra verðlauna ásamt Boyhood, Whiplash, The Theory of Everything, The Imitation Game, American Sniper og Selma.
Allar tilnefningarnar má finna með því að smella hér.
Jóhann Jóhannson er tilnefndur í flokknum besta frumsamda tónlistin fyrir The Theory of Everything en hann vann Golden Globe-verðlaunin fyrir tónlistina fyrr á árinu. Jóhann hefur um áratugaskeið verið virkur við tónsmíðar, þrátt fyrir að hann hafi kannski fyrst náð athygli heimsbyggðarinnar á undanförnum árum. Jóhann er 45 ára, fæddist í Reykjavík hinn 19. september 1969 og er fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Golden Globe-verðlaunin. Jóhann var einnig tilnefndur til BAFTA-verðlaunin en þar tók tónlistin í The Grand Budabest Hotel sigurinn.
Fjölmargir spá Jóhanni hinsvegar Óskarsverðlaununum, þar á meðal blaðamenn Variety auk þess sem spekúlantar Indiewire telja hann eiga þau skilið en að hugsanlega fái The Grand Budapest Hotel þau engu að síður.
Hér má lesa stutta úttekt á ferli Jóhanns sem skrifuð var eftir að hann vann Golden Globe-verðlaunin.
Sex aðrir Íslendingar hafa verið tilnefndir til Óskarsverðlauna, Friðrik Þór Friðriksson fyrir Börn náttúrunnar, Björk Guðmundsdóttir og Sjón fyrir lagið „I’ve seen“ it all úr Dancer in the Dark, Rúnar Rúnarsson og Þórir Snær Sigurjónsson kvikmyndagerðarmenn fyrir stuttmyndina Síðasti bærinn og Vestur-Íslendingurinn Sturla Gunnarsson fyrir After the Axe. Enginn Íslendingur hefur þó hlotið verðlaunin til þessa og verður spennandi að sjá hvort Jóhann verði fyrsta óskabarn þjóðarinnar til að verða Óskarsbarn þjóðarinnar.
Á hverju ári koma upp einhverjar deilur um þá sem hefðu eða hefðu ekki átt að vera tilnefndir til Óskarsverðlauna og í ár, eins og svo oft áður, er áherslan óverðskuldaða yfirburði hvíta mannsins.
Óskarinn í ár verður sá „hvítasti“ frá árinu 1998 þar sem enginn þeldökkur, rómanskur (e. hispanic) eða asískur einstaklingur er tilnefndur fyrir leik, leikstjórn eða kvikmyndatöku. Sú staðreynd hefur verið sérlega umdeild í ljósi þess að eina af stærstu myndum ársins, Selma, fjallar um kröfugöngu þeldökks fólks fyrir jöfnum kosningarétt á við hvíta sem stýrt var af Dr. Martin Luther King Jr. Af þeim átta myndum sem tilnefndar eru í flokknum besta kvikmynd ársins innihalda sex þeirra að mestu leiti hvíta leikara og einblína á upplifanir hvítra, karlkyns aðalpersóna. Einu undantekningarnar eru The Grand Budapest Hotel, þar sem Tony Revolori frá Guatemala er í aðalhlutverki og Selma þar sem nánast öll aðalhlutverk eru í höndum þeldökks fólks. Ava DuVernay er eini kvenkyns og jafnfram eini þeldökki leikstjórinn í þeim flokki en hún var ekki tilnefnd í flokknum besti leikstjórinn.
Samkvæmt Huffington Post hefur aðeins 31 þeldökkur einstaklingur unnið Óskarsstyttu frá upphafi af hátt í 3.000 sigurvegurum. Kvikmyndaiðnaðurinn þykir enda á margan hátt mjög hvítþveginn og karlmiðaður og endurspeglast það í meðlimum Kvikmyndaakademíunnar sjálfrar en árið 2012 voru 84% þeirra hvítir og 77% voru karlmenn. Á sama tíma voru aðeins 3% meðlima þeldökkir einstaklingar.
Árið 2005 voru fimm af 30 leikurum sem tilnefndir voru til Óskarsverðlauna þeldökkir og það met stendur enn. Í ár eru allir 20 leikararnir hvítir. Halle Berry var fyrsta þeldökka konan til að vinna verðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki árið 2002 og enn í dag hefur engri annarri þeldökkri konu hlotnast sá heiður. Á því verður engin breyting í ár og þrátt fyrir að 12 years a Slave hafi verið sigursæl í fyrra eru þeldökkir einstaklingar innan kvikmyndaiðnaðarins ekki bjartsýnir á að nokkurra breytinga sé að vænta í raun. Leikstjórinn Spike Lee sagði í samtali við The DailyBeast að um ákveðna hringrás væri að ræða.
„Einu sinni á 10 ára fresti eða svo fæ ég símtöl frá blaðamönnum um það að fólk sé loksins byrjað að meðtaka svartar kvikmyndir. Fyrir síðasta ár var það árið með Halle Berry, Denzel og Sidney Poitier. Þetta er 10 ára hringrás. Svo ég fer ekki í heljarstökk afturábak þegar það gerist.“