Borgarfulltrúinn Hildur Sverrisdóttir bendir þingkonunni Vigdísi Hauksdóttur góðfúslega á það á Facebook-síðu sinni í kvöld að orðið „skrýtilegt“ sé víst til. Vigdís hafði gert notkun Hildar á orðinu að umtalsefni á sinni Facebook-síðu og taldi það uppfinningu Hildar.
„Einn okkar allra skemmtilegasti orðasmiður síðustu ár heldur hér fram að ég hafi búið til bullorð í beinni útsendingu. Hún lætur að því liggja að hún hefði eflaust ekki komist upp með það, eins og ég. Jón og séra Jón og allt það,“ skrifar Hildur, sem situr í borgarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn, á Facebook-síðu sína í kvöld.
Tilefni er færsla sem Vigdís setti á Facebook-síðu sína í tilefni af viðtali sem Hildur var í á Bylgjunni.
„Mikið er ég heppin að hafa ekki fundið upp og sagt í tvígang „skrýtilegt“ í beinni útsendingu á Bylgjunni - það væri eitthvað ;-)“ skrifaði Vigdís.
Hildur er hins vegar fljót að benda á að orðið „skrýtilegt“ er vissulega til í íslenskri orðabók. Hún segist þó ekki taka umvöndun Vigdísar illa enda sé það stórkostlegt að fá athugasemdir um íslenskt mál frá sjálfri Vigdísi Hauksdóttur.
„Það að það hafi svo reyndar bara verið hún sem var að misskilja skrifa ég bara á einhverja seinheppni hjá henni að þessu sinni og hef fulla trú á að næst hitti hún kúna á höfuðið... :)“ skrifar Hildur.
Til gamans má geta að samkvæmt íslenski orðabók þýðir orðið „skrýtilegur“ að vera „kátlegur“ eða „skrýtinn“.