Hótanir og ökuskírteini til Vantrúar

Merki Vantrúar.
Merki Vantrúar.

„Við höfum fengið skönnuð ökuskírteini og bréf frá lögmanni um að hann muni hefja málsókn á hendur okkur ef við hættum ekki við þetta hið snarasta,“ segir Sindri Guðjónsson, formaður Vantrúar. Félagið hefur fengið gríðarleg viðbrögð eftir að það lýsti því yfir í gríni að það hygðist skrá alla landsmenn í það.

Mbl.is sagði frá því í morgun að stjórn Vantrúar hefði ákveðið að skrá alla landsmenn í félagið frá og með 1. mars. Tilkynningin var sett inn á grínsíðu á vef Vantrúar og var sett fram sem ádeila á hvernig skráningu fólks í trúfélög er háttað á Íslandi. Þar var einnig sagt að fólk gæti skráð sig úr félaginu en það þyrfti að senda afrit af ökuskírteini til þess. 

Viðbrögðin létu hins vegar ekki á sér standa og segir Sindri að fjöldi pósta hafi borist félaginu í dag þar sem fólk óskar eftir að það sjálft, börnin sín og jafnvel ófædd börn, verði skráð úr félaginu. Flesti létu nægja að senda nafnið sitt og barnanna en dæmi voru um að einhverjir sendu skönnuð ökuskírteini. Fyrir utan lögfræðihótunina segir Sindri að einhverjar hótanir hafi borist í garð félagsmanna.

„Þetta var grín. Sjálfur hefði ég haldið að þetta væri svo augljóslega ádeila. Auðvitað er það út í hött að biðja fólk um að senda okkur afrit af ökuskírteinum og annað slíkt. Það var auðvitað bara fyrst og fremst hugsað sem grín og er í sérdálki á síðunni okkar sem heitir grín,“ segir Sindri.

Óeðlilegt fyrirkomulag trúfélagsskráninga barna

Það sem Vantrú vildi deila á með þessu gríni er hvernig fólk er skráð í trúfélög á Íslandi. Upphaflega segir Sindri að allir Íslendingar hafi verið skráðir sjálfkrafa í þjóðkirkjuna. Síðan hafi það breyst og börn séu skráð í trúfélag móður. Nú sé það þannig að börn séu skráð í trúfélög móður ef hún fer ein með forræði eða ef foreldrarnir eru í sama félaginu.

„Það eru margir skráðir í þjóðkirkjuna að sér forspurðum, algerlega án þess að hafa beðið um það, jafnvel af því að foreldrar þeirra voru skráðir án þess að hafa verið spurðir. Fjöldi fólks er því skráður í félag sem það hefur aldrei skráð sig í og enginn á undan þeim. Það er það sem við erum að benda á að þetta er óeðlilegt fyrirkomulag. Líka að það liggi svona mikið á að það þurfi að skrásetja börn í trúfélag eins og skot. Það sé ekki ákvörðun sem fólk tekur síðar heldur þurfi sérstaklega að ákveða að vera ekki í trúfélagi,“ segir Sindri.

Til að taka af öll tvímæli segir hann að ekki standi til að skrá landsmenn í Vantrú.

„Það hefur enginn verið skráður í félagið Vantrú og við höfum ekki áhuga á að skrá neinn í það félag nema hann sækist eftir því að eigin frumkvæði,“ segir Sindri.

Fyrri frétt mbl.is: Allir Íslendingar skráðir í Vantrú

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar