Grínistinn Joan Rivers var skilin útundan úr sérstöku myndbandi sem spilað var á Óskarsverðlaunahátíðinni í nótt. Myndbandið var gert til að heiðra þær stjörnur sem hafa látist á undanförnum mánuðum.
Rivers lést í september á seinasta ári og vinkona hennar, Kelly Osbourne, er ósátt við að hennar hafi ekki verið minnst á hátíðinni á meðan leikara á borð við Lauren Bacall og Robin Williams var minnst. Osbourne birti skilaboð á Twitter í gær og lýsti yfir óánægju sinni. „Er ég að missa af einhverju eða var Joan Rivers skilin útundan í minningarathöfninni á Óskarnum?“
Talsmenn hátíðarinnar hafa brugðist við skilaboðum Osbourne. „Joan Rivers er meðal þeirra margra verðugu listamanna sem við gátum því miður ekki tekið fyrir í minningarathöfninni á Óskarnum í ár,“ sagði meðal annars í tilkynningu sem gefin var úr í nótt. Ástæðan mun vera takmarkaður tími sem fékkst í að spila myndskeiðið.