Ögrandi sýning um uppgötvanir æskuáranna

Sýningin tekur á ýmsum málefnum sem þóttu óviðeigandi á þeim …
Sýningin tekur á ýmsum málefnum sem þóttu óviðeigandi á þeim tíma, og eru jafnvel viðkvæm enn í dag. Ljósmynd/Emil Örn Kristjánsson

„Þetta verður frábær sýning,“ segir Stefán Hallur Stefánsson, sem leikstýrir rokksöngleiknum Vorið Vaknar í uppsetningu Herranætur, leikfélags Menntaskólans í Reykjavík. Er þetta 170. sýning leikfélagsins og sú stærsta frá upphafi. Sýningin er sett upp í Gamla bíó, og er frumsýning á föstudaginn nk.

Söngleikurinn er eftir Duncan Shaeik og Steven Sater en byggður á samnefndu leikverki eftir Frank Wedekind sem kom út árið 1891. Wedekind var eitt vinsælasta og mest leikna leikskáldið á fyrstu áratugum 20. aldar í Þýskalandi. Söngleikurinn var frumsýndur á Broadway árið 2006 og sópaði að sér virtum verðlaunum. Þá hefur verkið nokkrum sinnum verið sett upp hér á landi, síðast af Leikfélagi Reykjavíkur árið 1999.

Þeir listrænu stjórnendur sem koma að sýningunni auk Stefáns Halls eru Hákon Jóhannesson, aðstoðarleikstjóri, Kristína R Berman, útlitshönnuður, Hallur Ingólfsson, tónlistarstjóri og Þórey Birgisdóttir og Brynhildur Karlsdóttir, danshöfundar.

Vildu færa Herranótt á annað „level“

„Krakkarnir í Herranótt vildu gera eitthvað stórt í sniðum. Sýningu sem hefur eitthvað fram að færa - ásamt því að innihalda dans, söng og öll þessi stórsýningartilbrigði,“ segir Stefán Hallur, spurður um það hvers vegna þetta tiltekna verk hafi orðið fyrir valinu.

Um er að ræða ádeiluverk sem fjallar um unglinga að reyna að fóta sig í heimi fullorðinna í lok 19. aldar. Sýningin tekur á ýmsum málefnum sem þóttu óviðeigandi á þeim tíma, og eru jafnvel viðkvæm enn í dag.

Tekst á við spurningar sem allir glíma við

„Á sínum tíma var þetta mikið tabú leikrit. Sjálfsfróun og uppgötvanir æskuáranna, líkt og verkið kemur inná, hneykslaði marga. Það var ekki mikið talað um þessi hugðarefni, þetta þótti mikið feimnismál og þykir kannski enn að einhverju leyti,“ segir Stefán.

Þá segir hann verkið að einhverju leyti barn síns tíma, en það takist samt sem áður á við spurningar sem allir glími við. „Til dæmis þegar við uppgötvum sjálf okkur sem kynverur, fordóma samfélagsins, og samskipti barna og foreldra. Hugðarefnin í verkinu eru enn þann dag í dag til staðar bara með aðeins öðruvísi og öfugsnúnari formerkjum. Í dag eru okkar tabú m.a. sexting og hefndarklám sem snúa að einhverju leyti að uppgötvunum unglingsáranna og uppeldi barna okkar og unglinga. En þegar uppi er staðið snýst þetta allt um það sama; hver við erum, hvað við erum og hvað við megum og megum ekki.“

Stefán segir verkið ögrandi, án þess þó að sýnd sé bein nekt eða sett sé á svið gróft ofbeldi. Þá segir hann verkið fantavel skrifað, en þó hafi listrænu stjórnendurnir ákveðið að snyrta það aðeins til. „Það er aðallega gert til að þóknast okkar persónulegu dramatúrgísku pælingum. Ameríkaninn hefur gert það fullauðvelt fyrir fólk að skilja verkið, svo við reyndum að snyrta þau element í burtu - en lögin standa vissulega fyrir sínu.“

Farið að líta hættulega vel út

Hákon tekur við og segir söguna gerast í óræðum smábæ í Þýskalandi og fjalla um kynþroskaskeiðið, og hvernig það geti haft hugarfarsleg áhrif á fólk á viðkvæmum aldri og viðkvæmu þroskastigi.

Stefán tekur undir með Hákoni og heldur áfram. „Þetta snýst um jarðveginn, hvaðan þú kemur, á hverju þú nærist þegar þú ert að alast upp, hvaða upplýsingar þú færð, hvernig þú færð að blómstra og hvort þú fáir yfir höfuð að blómstra og vera það sem þú ert. Það sem býr innra með þér, fær það að njóta sín eða ertu settur undir glerhatt?

Þetta snýst um hvernig við tökumst á við vandamálin og hvað gerist ef við fáum ekki að nærast í okkar eiginlega umhverfi og fáum ekki að vera það sem við erum. Í þessu verki endar það með hrapallegum afleiðingum fyrir eina persónu. Sú persóna tekur mjög afdrifaríka ákvörðun sem hefur skelfilegar afleiðingar í för með sér,“ segir hann.

„Þetta er farið að líta hættulega vel út,“ bætir Hákon við.

Ógrynni af hæfileikafólki í skólanum

Alls koma um hundrað manns að sýningunni á einn eða annan hátt, en á sviðinu eru um 30 manns hverju sinni. Þar á meðal er hljómsveit á sviðinu alla sýninguna, sem inniheldur meðal annars trommur, gítara, bassa, klarínett, selló og fiðlu. „Það er ógrynni af hæfileikafólki í þessum skóla,“ segir Stefán.

„Það er búið að vera alveg æðislegt að vinna með þessum hóp,“ heldur hann áfram og lítur yfir sviðið, þar sem söngæfing er í þann mund að hefjast. „Það eru forréttindi að vera með þrjátíu manns á sviðinu sem vinna svona vel saman. Það verður að vera gert á jafningjagrundvelli sem leiðir til einhvers. Þetta hefði aldrei verið hægt nema því hópurinn er búinn að vinna á mjög fagmannlegum grundvelli og það kom mér yndislega á óvart hvað þau eru lausnamiðuð.“

Búa til leikmynd úr líkömum

Stefán segir verkið sérstakt að því leyti að nánast engin leikmynd er á sviðinu, en þess í stað sé hópurinn leikmyndin. „Hópurinn býr til alla stemningu, alla staði og allt umhverfi. Þau bregða sér í allra kvikinda líki og búa til heilt bæjarfélag á sviðinu bara með líkömum. Það er mjög ögrandi að takast á við það að búa til heim úr líkömum.“

Stefán segir danshöfundana hafa unnið þrekvirki, og lítur á Brynhildi sem situr við hlið hans. „Þetta er ákveðin myndlist að einhverju leyti þar sem líkaminn verður að mótunarefni fyrir sviðslist. Ég myndi segja að verkið talaði sínu máli fyrir áhugafólk um myndlist, danslist, hreyfilist og sviðslist almennt. Maður sér þetta ekki endilega á hverjum degi.“

Brynhildur tekur undir og segir það ekki hafa skipt máli hvað lagt er fyrir hópinn, þau leysi það með glæsibrag. „Meirihlutinn er vissulega ekki menntaðir dansarar en metnaðurinn sem þau eru búin að sýna til að ná þessu hundrað prósent er ótrúlegur.“

„Þegar þú nærð svona miklum krafti á sviðinu í samhæfðar hreyfingar, þaulæfðar skiptingar og vel leiknar senur þá er þetta algjörlega magískt að horfa á,“ segir Stefán að lokum.

Frumsýning fer fram á föstudaginn nk. og hægt er að kaupa miða á sýninguna á midi.is. Þá geta áhugasamir kynnt sér sýninguna á Facebook-síðu söngleiksins.

Stefán Hallur Stefánsson, leikstjóri verksins, ásamt Hákoni Jóhannessyni, aðstoðarleikstjóra og …
Stefán Hallur Stefánsson, leikstjóri verksins, ásamt Hákoni Jóhannessyni, aðstoðarleikstjóra og Brynhildi Karlsdóttur, annarra danshöfunda verksins. Ljósmynd/Emil Örn Kristjánsson
Söngleikurinn er eftir Duncan Shaeik og Steven Sater en byggður …
Söngleikurinn er eftir Duncan Shaeik og Steven Sater en byggður á samnefndu leikverki eftir Frank Wedekind sem kom út árið 1891. Ljósmynd/Emil Örn Kristjánsson
Nánast engin leikmynd er á sviðinu, en þess í stað …
Nánast engin leikmynd er á sviðinu, en þess í stað er hópurinn leikmyndin. Ljósmynd/Emil Örn Kristjánsson
Alls koma um hundrað manns að sýningunni á einn eða …
Alls koma um hundrað manns að sýningunni á einn eða annan hátt. Ljósmynd/Emil Örn Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar