Vilja rannsaka aftur flugslysið sem Buddy Holly lést í

Buddy Holly
Buddy Holly Mynd / Wikipedia

Rannsóknarnefnd flugslysa í Bandaríkjunum er að skoða beiðni þess efnis að taka að nýju upp rannsókn á flugslysi í febrúar árið 1959. Vélin hrapaði og um borð var m.a. rokkstjarnan Buddy Holly. Fleiri stjörnur voru um borð, þeir Ritchie Valens og J.P. „Big Bopper“ Richardson.

Rokkstjörnurnar létu allar lífið í slysinu og einnig 21 árs gamall flugmaður vélarinnar. Vélin tók á loft um nótt frá Mason City í Iowa en hrapaði fljótlega eftir flugtak í slæmu vetrarveðri.

Unnendur rokktónlistar hafa lengið kallað þennan hörmungaratburð „daginn sem tónlistin dó“. Sá frasi var svo gerður ódauðlegur í lagi Don McLean frá árinu 1971, American Pie.

Í gær var skrifað á vef rannsóknarnefndar flugslysa (NTSB) að hún hefði fengið beiðni um að taka slysið aftur til rannsóknar. Til að svo megi verða segir nefndin að ný sönnunargögn þurfi að liggja fyrir eða vísbendingar um að rannsóknin á sínum tíma hafi ekki verið fullnægjandi.

„Ef nefndin kemst að því að beiðnin uppfylli þessi skilyrði munum við skoða öll þau nýju sönnunargögn sem lögð verða fram og rannsaka trúverðugleika þeirra,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Sá sem sendi beiðnina til rannsóknarnefndarinnar er L.J. Coon, tónlistarmaður og flugmaður í Boston. Hann segist mjög ánægður að aftur skuli vera komin hreyfing á málið.

Rannsóknarnefndin sem skoðaði flugslysið á sínum tíma kenndi hinum unga flugmanni, Roger Peterson, um hvernig fór. Fram kom í niðurstöðum nefndarinnar að það væri álit hennar að Peterson hefði ekki haft nægilega þekkingu til að fljúga flugvél í slæmu veðri. Komst nefndin því að þeirri niðurstöðu að flugmaðurinn hefði tekið „óskynsamlegar“ ákvarðanir í fluginu.

Coon gagnrýnir þessa niðurstöðu í tólf liðum. Meðal þess sem fram fjallað er um í beiðni hans er dreifing búnaðar/farangurs um borð í vélinni og þá bendir hann á möguleikann á því að blöndungur vélarinnar hafi verið stíflaður með ís og snjó.

Vélin var eins hreyfils og af gerðinni Bonanza. 

Buddy Holly var 22 ára er hann lést í slysinu. Hann var gríðarlega vinsæll tónlistarmaður þrátt fyrir ungan aldur, á þeim árum þegar rokktónlistin var að breiðast út. Hans vinsælustu lög snertu við mörgum, s.s. That'll Be the Day, Peggy Sue og It Doesn't Matter Anymore.

Holly var á leið á tónleika í Fargo í Norður-Dakota ásamt Valens, sem var aðeins sautján ára gamall. Valens er þekktastur fyrir lag sitt La Bamba. Richardson var 28 ára. Hans þekktasta lag er Chantilly Lace.

Risastórt minnismerki, hin ábearndi svörtu gleraugu Hollys, eru á þeim stað þar sem vélin hrapaði á snæviþöktum akri.

Ritchie Valens.
Ritchie Valens. Af Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert staðráðin/n í að koma hlutunum í verk í dag. Sýndu öðrum þolinmæði og reyndu að sýna meiri skilning og umburðarlyndi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert staðráðin/n í að koma hlutunum í verk í dag. Sýndu öðrum þolinmæði og reyndu að sýna meiri skilning og umburðarlyndi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir