Fjölhæfur en frakkur þáttastjóri

Jeremy Clarkson í breskum Aston Martin eðalbíl á Transfagarasan veginum …
Jeremy Clarkson í breskum Aston Martin eðalbíl á Transfagarasan veginum skammt frá borginni Sibiu, sem er 300 km norðvestur af Búkarest. mbl.is/afp

Aðdáendur breska bílablaðamannsins Jeremy Clarksons, helstu stjörnu Top Gear bílaþátta BBC-sjónvarpsins, eru með böggum hildar yfir brottvikningu hans. Stuðningssíður þar sem hvatt er til að hann verði ekki látinn fljúga fyrir fullt og allt hafa sprottið upp og meir að segja þingmaður hefur krafist þess að BBC reki hann ekki.

Clarkson var vikið ótímabundið úr starfi meðan rannsókn fer fram á meintum slagsmálum hans og eins af framleiðendum Top Gear-þáttanna, en þeir munu hafa deilt um matvæli á tökustað í Newcastle fyrir nokkrum dögum. Herma fregnir að rifrildið hafi endað með því að Clarkson kvaddi hinn stjórann með sjómannakveðju, kjaftshöggi öðrum orðum.

Eftir á að koma í ljós hvort BBC skeri Clarkson úr snörunni og taki hann aftur í sátt þegar rannsóknin umrædda er afstaðin. Eða hvort slitin verði varanleg. Þessu fylgir jafnframt óvissa um þættina vinsælu sem 350 milljónir manna eru sagðir horfa á í viku hverri í 150 löndum.  

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Clarkson kom sér í vandræði en vegna ítrekaðra „agabrota“ höfðu honum verið settir úrslitakostir og hótað brottrekstri stigi hann eina ferðina enn útaf sporinu.

Rekinn úr einkaskóla

Jeremy Clarkson fæddist í Doncaster í Jórvíkurskíri árið 1960, sonur farandsala og kennslukonu. Faðir hans seldi tekatlaskjólur og sælgætisfyllta Paddingtonbangsa. Högnuðust þau nógsamlega til að geta borgað fyrir piltinn nám í einkaskólum, en pilti vildu þau koma til sem bestra mennta. Var Clarkson rekinn úr þeim seinni, að því er hann sjálfur segir fyrir „drykkju, reykingar og fyrir að verða öðrum almennt til leiðinda.“   

Eftir feril sem blaðamaður við héraðsblöð í Norður-Englandi vann hann sig upp í að verða falin forysta fyrir Top Gear þáttunum árið 1988. Öðlaðist hann vinsældir og frægð sem gerðu hann að nokkurs konar almenningseign. Auk bílaþáttanna framleiddi hann á fyrstu árunum hjá BBC þætti og ritaði bækur um jafn ólík efni sem sögu og verkfræði. Á árunum 1998 til 2000 stjórnaði hann þar og eigin spjallþætti sem við hann var kenndur.

Skoðanafesta og glettni, svo og framkoma hans bæði í sjónvarpi og utan þess kallaði oft yfir hann sterk viðbrögð og gagnrýni fjölmiðla, stjórnmálamanna, hagsmunahópa og almennings. Samtímis jukust vinsældir hans mjög og er honum þakkaðar miklar vinsældir Top Gear sem verið hafa einhverjir vinsælustu sjónvarpsþættir BBC um árabil.

Fyrsta kaupið fyrir að selja bangsa

Fyrsti vinnuveitandi Clarkson var faðir hans, Edward Grenville Clarkson. Lagðist hann í flakk og seldi sælgætisfylltu bangsana sem reyndist ábatasöm iðja. Síðar fór hann í blaðamannaskóla og í starfsþjálfun hjá héraðsblaðinu Rotherham Advertiser. Einnig vann hann fyrir Rochdale Observer, Wolverhampton Express og blöðin Star, Lincolnshire Life og Associated Kent Newspapers.

Árið 1984 stofnaði Clarkson fyrirtækið Motoring Press Agency (MPA) en í nafni þess skrifaði hann ásamt bílablaðamanninum Jonathan Gill um reynsluakstur bíla fyrir blöð og tímarit. Þá skrifaði hann reglulega fyrir tímaritið Top Gear magazine eftir að því var hleypt af stokkum 1993. Eitt leiddi af öðru og 1998 var honum boðið að taka við sjónvarpsþáttunum samnefndu.

Meðfram starfi á BBC hefur Clarkson skrifað reglulegan dálk í götublaðið The Sun og einnig hefur hann haft eigin dálk í The Sunday Times. Hann er endurbirtur í ástralska vikublaðinu The Weekend Australian. Ennfremur skrifar hann dálk í vikuritið Wheels sem er hluti af Toronto Star í Kanada. Loks hefur Clarkson skrifa bækur á léttu nótunum um bíla og ýmis önnur viðfangsefni.

Erfiðleikar í einkalífi

Í einkalífinu hefur Clarkson vegnað misjafnlega vel. Fyrsta eiginkona hans, Alexandra James, hljóp frá honum með einum af bestu vinum hans hálfu ári eftir brúðkaup þeirra. Rúmum þremur árum seinna, í maí 1993, kvæntist hann umboðsmanni sínum og dóttur breskrar stríðshetju, Frances Cain. Bjuggu þau í Chipping Norton á Cotswoldssvæðinu ásamt þremur börnum. Sótti hún um skilnað í apríl í fyrra og fara sögur af því að Clarkson eigi nú í sambandi við konu, Phillipa Sage, sem starfaði í Top Gear þáttunum.

Í september 2010 fékk Clarkson lögbann sett á fyrstu konu sína til að koma í veg fyrir að hún gæti sent frá sér bók þar sem hún hélt því fram að þau hefðu áfram átt í kynferðislegu sambandi eftir seinna brúðkaup hans. Hann lét svo sjálfur aflétta lögbanninu ári seinna og réttlætti það með þeirri fullyrðingu að bann af þessu tagi hefði öfug áhrif því samstundis væru sagðar fréttir af banninu og fólkinu sem það varðaði og ekkert fengist ráðið við umfjöllun um málavexti á samfélagssíðum í netheimum.

Syndum hlaðinn

Halda mætti að Clarkson bæri fleiri syndir á herðum sér en almennt gengur og gerist. Meðal annars hefur dálæti hans á gallabuxum verið kennt um þverrandi sölu á flíkum af því tagi þar sem þær voru allt í einu orðnar einkennisflíkur miðaldra karla. Er Levi's buxnaskraddarinn sagður hafa farið illa út úr því að Clarkson skyldi mæta í útsendingar í buxum hans. Talað var um „Jeremy Clarkson áhrifin“ í heimi fataframleiðslu.

Undir lokin er ekki úr vegi að víkja að því, að Clarkson er mikill unnandi tónlistar rokksveitarinnar Genesis. Skrifaði hann grein á umslag endurútgáfu plötunnar Selling England by the Pound.

Cl­ark­son ger­ir grín að brott­vís­un­inni

Stjórn­anda Top Gear vikið úr starfi

 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar