„Þetta er okkar Hamlet“

„Ást þeirra er svo sterkt að þó það fari fyrir …
„Ást þeirra er svo sterkt að þó það fari fyrir þeim eins og fer, þá efast ég ekki um ást þeirra í lokin,“ segir Nína Dögg Filippusdóttir sem leikur Höllu á móti Stefáni Halli Stefánssyni í hlutverki Fjalla-Eyvindar. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er óneit­an­lega gam­an að kljást við þessa þjóðsagna­per­sónu, því Fjalla-Ey­vind­ur stend­ur okk­ur Íslend­ing­um mjög nærri og all­ir telja sig þekkja hann. En, líkt og með öll önn­ur hlut­verk sem ég tekst á við, reyni ég að leita að mann­eskj­unni frem­ur en að leika goðsögn­ina. Það hef­ur því verið mjög gam­an á æf­inga­ferl­inu að skoða og rann­saka ólík­ar hliðar þessa manns. Þetta er að ein­hverju leyti okk­ar Hamlet,“ seg­ir Stefán Hall­ur Stef­áns­son sem fer með hlut­verk úti­legu­manns­ins fræga í Fjalla-Ey­vindi og Höllu sem Þjóðleik­húsið frum­sýn­ir á stóra sviðinu í kvöld. Leik­ritið er eft­ir Jó­hann Sig­ur­jóns­son en leik­stjór­inn Stef­an Metz, sem hlaut mikið lof í fyrra fyr­ir upp­færslu sína á Eld­raun­inni eft­ir Arth­ur Miller, hef­ur unnið eig­in leik­gerð upp úr verk­inu.

„Halla er mögnuð af því að hún er svo sterk,“ seg­ir Nína Dögg Fil­ipp­us­dótt­ir sem fer með hlut­verk Höllu. „Hún er dæmi­gerð ís­lensk kona, en heilt yfir eru ís­lensk­ar kon­ur mjög sterk­ar. Við grenj­um al­veg, en erum á sama tíma svaka­lega harðar af okk­ur. Halla er fylg­in sér, ákveðin og í raun al­gjör frenja. Hún er miklu sterk­ari en all­ir karl­menn verks­ins. Hún fer úr góðum aðstæðum þar sem hún er hús­freyja yfir stóru búi með fólk í vinnu og flýr til fjalla fyr­ir ást­ina,“ seg­ir Nína Dögg. „Sem krefst mik­ils hug­rekk­is,“ seg­ir Stefán Hall­ur. „Ekki síst á þess­um tíma,“ seg­ir Nína Dögg.

Að sögn Stef­áns Halls og Nínu Dagg­ar vel­ur leik­stjór­inn í nálg­un sinni að leggja aðaláhersl­una á ástar­sög­una í verk­inu. „Stef­an Metz er bú­inn að stytta verkið og vinna al­gjör­lega sína leik­gerð upp úr verk­inu,“ seg­ir Nína Dögg. „Segja má að það sé búið að kjarna verkið í það sem það er, sem er saga þess­ara tveggja ein­stak­linga sem berj­ast fyr­ir ást­inni,“ seg­ir Stefán Hall­ur og bend­ir á að búið sé að strika út megnið af nátt­úru­lýs­ing­um verks­ins.

„Auðvitað hef­ur verið erfitt að sjá á eft­ir mörg­um þess­ara lýs­inga, því þetta er svo fal­legt vegna þess að Jó­hann var svo stór­kost­legt skáld. En stytt­ing­arn­ar þjóna sýn­ing­unni og sög­unni sem Stef­an Metz vill segja,“ seg­ir Nína Dögg og tek­ur fram að það sé viss kost­ur að fá menn að utan sem litið geti verkið fersk­um aug­um. Þar vís­ar hún ann­ars veg­ar til Metz og hins veg­ar til Sean Macka­oui, sem hann­ar leik­mynd og bún­inga. „Þeir koma að hreinu borði þegar þeir byrja vinnu sína með verkið. Við Íslend­ing­ar ber­um svo mikla virðingu fyr­ir þessu leik­riti og leik­skáld­inu að við þorum kannski ekki að nálg­ast verkið al­farið á eig­in for­send­um, en þeir eru al­veg laus­ir við slík­an ótta,“ seg­ir Nína Dögg.

Þegar leik­ritið var frum­sýnt hér­lend­is árið 1911 og þegar það var ein af þrem­ur opn­un­ar­sýn­ing­um Þjóðleik­húss­ins árið 1950 var titil þess Fjalla-Ey­vind­ur, en síðast þegar það var leikið í Þjóðleik­hús­inu árið 1988 var það sýnt und­ir heit­inu Fjalla-Ey­vind­ur og kona hans. Enn hef­ur titl­in­um verið breytt og nefn­ist verkið nú Fjalla-Ey­vind­ur og Halla. Það ligg­ur því beint við að spyrja hvort breytt­ur tit­ill sé til merk­is um að hlut­ur Höllu sé gerður meiri í nýju leik­gerðinni. „Sag­an hverf­ist að miklu leyti um Höllu. Í raun ætti verkið að heita Fjalla-Halla,“ seg­ir Stefán Hall­ur.

„Hún tek­ur þá ákvörðun að fylgja ást­inni til fjalla. Hún berst við yf­ir­valdið í sín­um hreppi. Fjalla-Ey­vind­ur er auðvitað goðsögn­in og flest­ar heim­ild­ir fjalla fyrst og fremst um hann. Það hef­ur ekki verið skrifað mikið um Höllu, þó hún sé alltaf þarna í bak­grunni,“ seg­ir Nína Dögg og bend­ir á að sam­band Ey­vind­ar og Höllu bygg­ist að ein­hverju leyti á sam­bandi leik­skálds­ins við Inge­borg Thi­demann eða Ib eins og hún var kölluð. „Hjóna­band þeirra var mjög storma­samt. Ib var gift þegar þau kynnt­ust og tíu árum eldri en Jó­hann, eins og Halla er eldri en Ey­vind­ur,“ seg­ir Nína Dögg.

Að sögn Nínu Dagg­ar hef­ur verið magnað að fá að setja sig inn í tíma verks­ins og skoða m.a. hlut­skipti kvenna. „Sem dæmi beið hörð refs­ing þeirra kvenna sem urðu ólétt­ar án þess að vera í hjóna­bandi. Þær neydd­ust jafn­vel til að fara út um há­vet­ur og eiga börn sín í laumi og farga þeim til að verða ekki sjálf­ar dæmd­ar til dauða. Maður get­ur varla sett sig í þessi spor. En þó þetta hafi gerst í gamla daga þá er þetta bara al­vöru fólk eins og við í dag með til­finn­ing­ar. Það er ótrú­legt hvað mann­eskj­an er fær um að kljást við í erfiðum aðstæðum,“ seg­ir Nína Dögg og rifjar upp að á Íslandi á 18. öld hafi ríkt harðstjórn og rétt­læti verið af skorn­um skammti.

Leiðin­legt að leika súper­mann

„Hrepp­stjór­ar og sýslu­menn höfðu ger­ræðis­vald. Það má auðveld­lega sjá sterk lík­indi milli Íslands á 18. öld og villta vest­urs­ins, því fólk var að mis­nota vald sitt. Það var líka nóg að ljúga upp á ann­an mann ein­hverj­um glæp til þess að hann yrði of­sótt­ur,“ seg­ir Stefán Hall­ur og rifjar upp að Danakóng­ur hafi á sín­um tíma þó komið í veg fyr­ir að sýslu­menn hér­lend­is fengju vald til að dæma menn og hengja sam­stund­is. „Það ríkti ógn­ar­stjórn hér­lend­is á þess­um tíma. Þar af leiðandi skil­ur maður mjög vel af hverju þau flýja,“ seg­ir Stefán Hall­ur. „Það er eini kost­ur­inn,“ bæt­ir Nína Dögg við. „Og þau flýja ekk­ert endi­lega í verri aðstæður. Frelsið á ör­æf­um er betra en fang­elsið í siðmenn­ing­unni,“ seg­ir Stefán Hall­ur. „Og þá geta þau líka verið sam­an,“ seg­ir Nína Dögg.

Að sögn Stef­áns Halls er auðvelt að sjá Fjalla-Ey­vind sem nokk­urs kon­ar Hróa hött síns tíma. „Ey­vind­ur stal aðeins af nauðsyn til að sjá fyr­ir sér og fjöl­skyldu sinni. Við rædd­um það hvort hann hefði verið vænd­ur um þjófnað að ósekju, en í þess­ari upp­færslu er hann rétti­lega sakaður um sauðaþjófnað. Okk­ur fannst áhuga­verðara að hann væri breysk­ur. Ey­vind­ur er bara mann­eskja. Hann er ekki súper­mann. Það er ekk­ert áhuga­vert að leika tví­víðar per­són­ur. Ég held það sé mjög erfitt að leika súper­mann,“ seg­ir Stefán Hall­ur. „Ég held það sé mjög leiðin­legt að leika súper­mann,“ seg­ir Nína Dögg.

Leik­ritið spann­ar 15 ára sam­veru Ey­vind­ar og Höllu, en í raun­veru­leik­an­um eyddu þau 40 árum sam­an á flótta. Einn af drama­tísk­um hápunkt­um verks­ins er þegar Halla vel­ur á flótta und­an armi rétt­vís­inn­ar að drepa þriggja ára dótt­ur þeirra Ey­vind­ar með því að kasta henni í foss. Spurð hvernig maður setji sig í spor konu sem velji að gera slíkt svar­ar Nína Dögg: „Það er pínu flókið. En það er ein­hver taug í mér sem skil­ur hana. Hún ger­ir þetta ekki af illsku. Hún er sann­færð um að það sé betra fyr­ir barnið að fara inn í ei­lífðina en lenda í hönd­um vondra manna. Að fara þangað til­finn­inga­lega er mjög flókið og erfitt, en það er part­ur af starf­inu.“

„Maður finn­ur ein­hvern þráð eða ein­hvern per­sónu­leg­an missi sem maður magn­ar og marg­fald­ur með þúsund. Leik­ar­ar fara ólík­ar leiðir að þessu og það get­ur verið mjög erfitt að út­skýra rök­rænt hvernig maður ger­ir þetta, því þetta ferli ligg­ur hand­an rök­hugs­un­ar. Þetta er frum­hvöt – líkt og ást­in. Það er ekki rök­hugs­un sem ligg­ur að baki gjörðum Ey­vind­ar og Höllu. Þess vegna er þetta svona flókið og vanda­samt,“ seg­ir Stefán Hall­ur.

Ekki málað eft­ir núm­er­um

„Maður má ekki hugsa of mikið í ferl­inu sjálfu. Halla tek­ur ákvörðun sína á ör­skots­stundu. Sjokkið kem­ur ekki fyrr en efti­rá, þegar hún þarf að horf­ast í augu við það sem hún hef­ur gert og reyna að sætta sig við það. Hún þarf að bera þessa ábyrgð alla ævi og spyr sjálfa sig eðli­lega hvort þetta hafi verið rétt ákvörðun,“ seg­ir Nína Dögg.

Stefán Hall­ur minn­ir á að Ey­vind­ur sé á staðnum þegar þetta ger­ist og hann verði því stöðug áminn­ing fyr­ir konu sína um hvað gerst hafi. „Það sem ger­ir eftir­köst­in svo flók­in og áhuga­verð er að þau eru stöðug áminn­ing fyr­ir þau bæði um það sem áttu og hvað þau hafa misst. Maður hef­ur lesið um hjón sem misst hafa börn sín og geta í fram­hald­inu ekki verið sam­an,“ seg­ir Stefán Hall­ur og bæt­ir við að hægt sé að tala um til­finn­ing­arn­ar sem fylgi því að missa barn, hvort held­ur það er reiði, gremja eða sorg, en það sé samt varla hægt að setja sig í þessi spor. „Það er ekki hægt að mála eft­ir ein­hverj­um núm­er­um í þess­um efn­um.“

Nína Dögg og Stefán Hall­ur hafa þekkst lengi, en unnu sína fyrstu sýn­ingu sam­an árið 2012 þegar Vest­urport setti upp Bast­arða. Spurð hvort það hjálpi þeim að þekkj­ast fyr­ir þegar komi að því að vinna jafn átaka­mikið verk og Fjalla-Ey­vind­ur og Halla sé svara þau bæði ját­andi. „Traustið hef­ur verið til staðar frá byrj­un og það er ótrú­lega góð til­finn­ing, því þá get­ur maður bara hent sér út í vinn­una. Við erum líka með frá­bær­an leik­stjóra sem held­ur vel utan um hóp­inn,“ seg­ir Nína Dögg. „Stef­an Metz býr til vinnu­um­hverfi sem er mjög gjöf­ult og ein­kenn­ist af miklu áreynslu­leysi,“ seg­ir Stefán Hall­ur og tek­ur fram að það sé svo ánægju­legt að finna þegar all­ir séu í sama bátn­um og rói í sömu átt. „Stef­an Metz horf­ir á leik­hóp­inn sem heild og er ekki upp­tek­inn af aðal- og auka­hlut­verk­um,“ seg­ir Stefán Hall­ur og rifjar upp að þessi nálg­un hafi líka ein­kennt Eld­raun­ina. „Það er eng­inn aðal og eng­inn auka. Við erum öll sem hóp­ur að segja þessa sögu. Um það á leik­húsið ein­mitt að snú­ast, þ.e. að hóp­ur­inn skapi heild­ina. Því hóp­ur­inn er heild­in.“

Að lok­um er ekki úr vegi að spyrja hvers vegna Fjalla-Ey­vind­ur og Halla tali enn jafn­sterkt til nú­tíma­áhorf­enda og fyr­ir rúm­um hundrað árum. „Vegna þess að við erum ennþá að kljást við þess­ar sömu til­finn­ing­ar, þ.e. ást, gleði, missi, sorg og kúg­un,“ seg­ir Nína Dögg. „Og reyn­um að vera ham­ingju­söm skuld­um vaf­in. Þetta er svo marglaga verk – eins og lífið sjálft,“ seg­ir Stefán Hall­ur og bæt­ir við að vanga­velt­urn­ar sem í verk­inu birt­ast um frelsið séu einnig mjög áhuga­verðar. „Hvenær erum við frjáls? Og hvað er að vera frjáls?“ spyr Nína Dögg. „Er maður frjáls ef maður er ást­fang­inn? Get­ur ást­in lifað af ör­æfi Íslands? Get­ur ást­in lifað af þau áföll sem þau verða fyr­ir?“ spyr Stefán Hall­ur. „Ást þeirra er svo sterk að þó það fari fyr­ir þeim eins og fer, þá ef­ast ég ekki um ást þeirra í lok­in,“ seg­ir Nína Dögg. „Ég er sam­mála því,“ seg­ir Stefán Hall­ur. „Það eru bara aðstæðurn­ar sem ýta þeim á þenn­an stað,“ seg­ir Nína Dögg. „Þau eru enn að berj­ast fyr­ir ást­inni í ómögu­leg­um aðstæðum,“ seg­ir Stefán Hall­ur. „Og með svo ótrú­lega mikið á sam­visk­unni eða eins og Halla orðar það und­ir lok leik­rits­ins: „Það er svo sárt.““

Vakti heims­at­hygli

Jó­hann Sig­ur­jóns­son (1880-1919) var fyrsta ís­lenska skáldið á eft­ir höf­und­um forn­bók­mennt­anna sem vakti veru­lega at­hygli utan land­stein­anna. Verkið Fjalla-Ey­vind­ur var frum­sýnt hjá Leik­fé­lagi Reykja­vík­ur 26. des­em­ber 1911 og hálfu ári síðar í Dag­mar-leik­hús­inu í Kaup­manna­höfn. Sú sýn­ing bar hróður verks­ins víða og var það í fram­hald­inu þýtt á mörg tungu­mál og sýnt á Norður­lönd­un­um, í ýms­um borg­um Þýska­lands, sem og í Bretlandi, Hollandi, Eistlandi, Rússlandi og Banda­ríkj­un­um, auk þess sem gerð var þögul kvik­mynd árið 1917 sem byggðist á leik­rit­inu.

Fjalla-Ey­vind­ur var ein af þrem­ur opn­un­ar­sýn­ing­um Þjóðleik­húss­ins árið 1950. Það var aft­ur tekið til sýn­ing­ar í Þjóðleik­hús­inu árið 1988 og þá sýnt und­ir heit­inu Fjalla-Ey­vind­ur og kona hans. Leik­ritið hef­ur verið leikið hjá áhuga­leik­fé­lög­um út um allt land og sett upp nokkr­um sinn­um hjá Leik­fé­lagi Reykja­vík­ur og Leik­fé­lagi Ak­ur­eyr­ar, auk þess sem leik­hóp­ur­inn Aldrei óstelandi sýndi það árið 2011.

Þess má geta að boðið verður upp á umræður í Þjóðleik­hús­inu um verkið og upp­færslu þess eft­ir 6. sýn­ingu laug­ar­dag­inn 11. apríl auk þess sem sýn­ing­in verður til um­fjöll­un­ar í Leik­hús­kaffi í Gerðubergi miðviku­dag­inn 29. apríl kl. 20.

Nína Dögg og Stefán Hallur í hlutverkum sínum á stóra …
Nína Dögg og Stefán Hall­ur í hlut­verk­um sín­um á stóra sviði Þjóðleik­húss­ins. Ljós­mynd/​Eddi
Fjalla-Eyvindur og Halla eftir Jóhann Sigurjónsson er sýnt í Þjóðleikhúsinu.
Fjalla-Ey­vind­ur og Halla eft­ir Jó­hann Sig­ur­jóns­son er sýnt í Þjóðleik­hús­inu. Ljós­mynd/​Eddi
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Vog

Sign icon Þú kannt að laðast að einhverjum sem er ólíkur þér hvað varðar bakgrunn og fyrri reynslu. Nú er lag að koma hugmyndum þínum og tillögum að.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Erla Sesselja Jens­dótt­ir
2
Jill Man­sell
3
Árni Þór­ar­ins­son og Páll Krist­inn Páls­son
4
Sofie Sar­en­brant
5
Birgitta H. Hall­dórs­dótt­ir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Vog

Sign icon Þú kannt að laðast að einhverjum sem er ólíkur þér hvað varðar bakgrunn og fyrri reynslu. Nú er lag að koma hugmyndum þínum og tillögum að.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Erla Sesselja Jens­dótt­ir
2
Jill Man­sell
3
Árni Þór­ar­ins­son og Páll Krist­inn Páls­son
4
Sofie Sar­en­brant
5
Birgitta H. Hall­dórs­dótt­ir