„Þetta er okkar Hamlet“

„Ást þeirra er svo sterkt að þó það fari fyrir …
„Ást þeirra er svo sterkt að þó það fari fyrir þeim eins og fer, þá efast ég ekki um ást þeirra í lokin,“ segir Nína Dögg Filippusdóttir sem leikur Höllu á móti Stefáni Halli Stefánssyni í hlutverki Fjalla-Eyvindar. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er óneit­an­lega gam­an að kljást við þessa þjóðsagna­per­sónu, því Fjalla-Ey­vind­ur stend­ur okk­ur Íslend­ing­um mjög nærri og all­ir telja sig þekkja hann. En, líkt og með öll önn­ur hlut­verk sem ég tekst á við, reyni ég að leita að mann­eskj­unni frem­ur en að leika goðsögn­ina. Það hef­ur því verið mjög gam­an á æf­inga­ferl­inu að skoða og rann­saka ólík­ar hliðar þessa manns. Þetta er að ein­hverju leyti okk­ar Hamlet,“ seg­ir Stefán Hall­ur Stef­áns­son sem fer með hlut­verk úti­legu­manns­ins fræga í Fjalla-Ey­vindi og Höllu sem Þjóðleik­húsið frum­sýn­ir á stóra sviðinu í kvöld. Leik­ritið er eft­ir Jó­hann Sig­ur­jóns­son en leik­stjór­inn Stef­an Metz, sem hlaut mikið lof í fyrra fyr­ir upp­færslu sína á Eld­raun­inni eft­ir Arth­ur Miller, hef­ur unnið eig­in leik­gerð upp úr verk­inu.

„Halla er mögnuð af því að hún er svo sterk,“ seg­ir Nína Dögg Fil­ipp­us­dótt­ir sem fer með hlut­verk Höllu. „Hún er dæmi­gerð ís­lensk kona, en heilt yfir eru ís­lensk­ar kon­ur mjög sterk­ar. Við grenj­um al­veg, en erum á sama tíma svaka­lega harðar af okk­ur. Halla er fylg­in sér, ákveðin og í raun al­gjör frenja. Hún er miklu sterk­ari en all­ir karl­menn verks­ins. Hún fer úr góðum aðstæðum þar sem hún er hús­freyja yfir stóru búi með fólk í vinnu og flýr til fjalla fyr­ir ást­ina,“ seg­ir Nína Dögg. „Sem krefst mik­ils hug­rekk­is,“ seg­ir Stefán Hall­ur. „Ekki síst á þess­um tíma,“ seg­ir Nína Dögg.

Að sögn Stef­áns Halls og Nínu Dagg­ar vel­ur leik­stjór­inn í nálg­un sinni að leggja aðaláhersl­una á ástar­sög­una í verk­inu. „Stef­an Metz er bú­inn að stytta verkið og vinna al­gjör­lega sína leik­gerð upp úr verk­inu,“ seg­ir Nína Dögg. „Segja má að það sé búið að kjarna verkið í það sem það er, sem er saga þess­ara tveggja ein­stak­linga sem berj­ast fyr­ir ást­inni,“ seg­ir Stefán Hall­ur og bend­ir á að búið sé að strika út megnið af nátt­úru­lýs­ing­um verks­ins.

„Auðvitað hef­ur verið erfitt að sjá á eft­ir mörg­um þess­ara lýs­inga, því þetta er svo fal­legt vegna þess að Jó­hann var svo stór­kost­legt skáld. En stytt­ing­arn­ar þjóna sýn­ing­unni og sög­unni sem Stef­an Metz vill segja,“ seg­ir Nína Dögg og tek­ur fram að það sé viss kost­ur að fá menn að utan sem litið geti verkið fersk­um aug­um. Þar vís­ar hún ann­ars veg­ar til Metz og hins veg­ar til Sean Macka­oui, sem hann­ar leik­mynd og bún­inga. „Þeir koma að hreinu borði þegar þeir byrja vinnu sína með verkið. Við Íslend­ing­ar ber­um svo mikla virðingu fyr­ir þessu leik­riti og leik­skáld­inu að við þorum kannski ekki að nálg­ast verkið al­farið á eig­in for­send­um, en þeir eru al­veg laus­ir við slík­an ótta,“ seg­ir Nína Dögg.

Þegar leik­ritið var frum­sýnt hér­lend­is árið 1911 og þegar það var ein af þrem­ur opn­un­ar­sýn­ing­um Þjóðleik­húss­ins árið 1950 var titil þess Fjalla-Ey­vind­ur, en síðast þegar það var leikið í Þjóðleik­hús­inu árið 1988 var það sýnt und­ir heit­inu Fjalla-Ey­vind­ur og kona hans. Enn hef­ur titl­in­um verið breytt og nefn­ist verkið nú Fjalla-Ey­vind­ur og Halla. Það ligg­ur því beint við að spyrja hvort breytt­ur tit­ill sé til merk­is um að hlut­ur Höllu sé gerður meiri í nýju leik­gerðinni. „Sag­an hverf­ist að miklu leyti um Höllu. Í raun ætti verkið að heita Fjalla-Halla,“ seg­ir Stefán Hall­ur.

„Hún tek­ur þá ákvörðun að fylgja ást­inni til fjalla. Hún berst við yf­ir­valdið í sín­um hreppi. Fjalla-Ey­vind­ur er auðvitað goðsögn­in og flest­ar heim­ild­ir fjalla fyrst og fremst um hann. Það hef­ur ekki verið skrifað mikið um Höllu, þó hún sé alltaf þarna í bak­grunni,“ seg­ir Nína Dögg og bend­ir á að sam­band Ey­vind­ar og Höllu bygg­ist að ein­hverju leyti á sam­bandi leik­skálds­ins við Inge­borg Thi­demann eða Ib eins og hún var kölluð. „Hjóna­band þeirra var mjög storma­samt. Ib var gift þegar þau kynnt­ust og tíu árum eldri en Jó­hann, eins og Halla er eldri en Ey­vind­ur,“ seg­ir Nína Dögg.

Að sögn Nínu Dagg­ar hef­ur verið magnað að fá að setja sig inn í tíma verks­ins og skoða m.a. hlut­skipti kvenna. „Sem dæmi beið hörð refs­ing þeirra kvenna sem urðu ólétt­ar án þess að vera í hjóna­bandi. Þær neydd­ust jafn­vel til að fara út um há­vet­ur og eiga börn sín í laumi og farga þeim til að verða ekki sjálf­ar dæmd­ar til dauða. Maður get­ur varla sett sig í þessi spor. En þó þetta hafi gerst í gamla daga þá er þetta bara al­vöru fólk eins og við í dag með til­finn­ing­ar. Það er ótrú­legt hvað mann­eskj­an er fær um að kljást við í erfiðum aðstæðum,“ seg­ir Nína Dögg og rifjar upp að á Íslandi á 18. öld hafi ríkt harðstjórn og rétt­læti verið af skorn­um skammti.

Leiðin­legt að leika súper­mann

„Hrepp­stjór­ar og sýslu­menn höfðu ger­ræðis­vald. Það má auðveld­lega sjá sterk lík­indi milli Íslands á 18. öld og villta vest­urs­ins, því fólk var að mis­nota vald sitt. Það var líka nóg að ljúga upp á ann­an mann ein­hverj­um glæp til þess að hann yrði of­sótt­ur,“ seg­ir Stefán Hall­ur og rifjar upp að Danakóng­ur hafi á sín­um tíma þó komið í veg fyr­ir að sýslu­menn hér­lend­is fengju vald til að dæma menn og hengja sam­stund­is. „Það ríkti ógn­ar­stjórn hér­lend­is á þess­um tíma. Þar af leiðandi skil­ur maður mjög vel af hverju þau flýja,“ seg­ir Stefán Hall­ur. „Það er eini kost­ur­inn,“ bæt­ir Nína Dögg við. „Og þau flýja ekk­ert endi­lega í verri aðstæður. Frelsið á ör­æf­um er betra en fang­elsið í siðmenn­ing­unni,“ seg­ir Stefán Hall­ur. „Og þá geta þau líka verið sam­an,“ seg­ir Nína Dögg.

Að sögn Stef­áns Halls er auðvelt að sjá Fjalla-Ey­vind sem nokk­urs kon­ar Hróa hött síns tíma. „Ey­vind­ur stal aðeins af nauðsyn til að sjá fyr­ir sér og fjöl­skyldu sinni. Við rædd­um það hvort hann hefði verið vænd­ur um þjófnað að ósekju, en í þess­ari upp­færslu er hann rétti­lega sakaður um sauðaþjófnað. Okk­ur fannst áhuga­verðara að hann væri breysk­ur. Ey­vind­ur er bara mann­eskja. Hann er ekki súper­mann. Það er ekk­ert áhuga­vert að leika tví­víðar per­són­ur. Ég held það sé mjög erfitt að leika súper­mann,“ seg­ir Stefán Hall­ur. „Ég held það sé mjög leiðin­legt að leika súper­mann,“ seg­ir Nína Dögg.

Leik­ritið spann­ar 15 ára sam­veru Ey­vind­ar og Höllu, en í raun­veru­leik­an­um eyddu þau 40 árum sam­an á flótta. Einn af drama­tísk­um hápunkt­um verks­ins er þegar Halla vel­ur á flótta und­an armi rétt­vís­inn­ar að drepa þriggja ára dótt­ur þeirra Ey­vind­ar með því að kasta henni í foss. Spurð hvernig maður setji sig í spor konu sem velji að gera slíkt svar­ar Nína Dögg: „Það er pínu flókið. En það er ein­hver taug í mér sem skil­ur hana. Hún ger­ir þetta ekki af illsku. Hún er sann­færð um að það sé betra fyr­ir barnið að fara inn í ei­lífðina en lenda í hönd­um vondra manna. Að fara þangað til­finn­inga­lega er mjög flókið og erfitt, en það er part­ur af starf­inu.“

„Maður finn­ur ein­hvern þráð eða ein­hvern per­sónu­leg­an missi sem maður magn­ar og marg­fald­ur með þúsund. Leik­ar­ar fara ólík­ar leiðir að þessu og það get­ur verið mjög erfitt að út­skýra rök­rænt hvernig maður ger­ir þetta, því þetta ferli ligg­ur hand­an rök­hugs­un­ar. Þetta er frum­hvöt – líkt og ást­in. Það er ekki rök­hugs­un sem ligg­ur að baki gjörðum Ey­vind­ar og Höllu. Þess vegna er þetta svona flókið og vanda­samt,“ seg­ir Stefán Hall­ur.

Ekki málað eft­ir núm­er­um

„Maður má ekki hugsa of mikið í ferl­inu sjálfu. Halla tek­ur ákvörðun sína á ör­skots­stundu. Sjokkið kem­ur ekki fyrr en efti­rá, þegar hún þarf að horf­ast í augu við það sem hún hef­ur gert og reyna að sætta sig við það. Hún þarf að bera þessa ábyrgð alla ævi og spyr sjálfa sig eðli­lega hvort þetta hafi verið rétt ákvörðun,“ seg­ir Nína Dögg.

Stefán Hall­ur minn­ir á að Ey­vind­ur sé á staðnum þegar þetta ger­ist og hann verði því stöðug áminn­ing fyr­ir konu sína um hvað gerst hafi. „Það sem ger­ir eftir­köst­in svo flók­in og áhuga­verð er að þau eru stöðug áminn­ing fyr­ir þau bæði um það sem áttu og hvað þau hafa misst. Maður hef­ur lesið um hjón sem misst hafa börn sín og geta í fram­hald­inu ekki verið sam­an,“ seg­ir Stefán Hall­ur og bæt­ir við að hægt sé að tala um til­finn­ing­arn­ar sem fylgi því að missa barn, hvort held­ur það er reiði, gremja eða sorg, en það sé samt varla hægt að setja sig í þessi spor. „Það er ekki hægt að mála eft­ir ein­hverj­um núm­er­um í þess­um efn­um.“

Nína Dögg og Stefán Hall­ur hafa þekkst lengi, en unnu sína fyrstu sýn­ingu sam­an árið 2012 þegar Vest­urport setti upp Bast­arða. Spurð hvort það hjálpi þeim að þekkj­ast fyr­ir þegar komi að því að vinna jafn átaka­mikið verk og Fjalla-Ey­vind­ur og Halla sé svara þau bæði ját­andi. „Traustið hef­ur verið til staðar frá byrj­un og það er ótrú­lega góð til­finn­ing, því þá get­ur maður bara hent sér út í vinn­una. Við erum líka með frá­bær­an leik­stjóra sem held­ur vel utan um hóp­inn,“ seg­ir Nína Dögg. „Stef­an Metz býr til vinnu­um­hverfi sem er mjög gjöf­ult og ein­kenn­ist af miklu áreynslu­leysi,“ seg­ir Stefán Hall­ur og tek­ur fram að það sé svo ánægju­legt að finna þegar all­ir séu í sama bátn­um og rói í sömu átt. „Stef­an Metz horf­ir á leik­hóp­inn sem heild og er ekki upp­tek­inn af aðal- og auka­hlut­verk­um,“ seg­ir Stefán Hall­ur og rifjar upp að þessi nálg­un hafi líka ein­kennt Eld­raun­ina. „Það er eng­inn aðal og eng­inn auka. Við erum öll sem hóp­ur að segja þessa sögu. Um það á leik­húsið ein­mitt að snú­ast, þ.e. að hóp­ur­inn skapi heild­ina. Því hóp­ur­inn er heild­in.“

Að lok­um er ekki úr vegi að spyrja hvers vegna Fjalla-Ey­vind­ur og Halla tali enn jafn­sterkt til nú­tíma­áhorf­enda og fyr­ir rúm­um hundrað árum. „Vegna þess að við erum ennþá að kljást við þess­ar sömu til­finn­ing­ar, þ.e. ást, gleði, missi, sorg og kúg­un,“ seg­ir Nína Dögg. „Og reyn­um að vera ham­ingju­söm skuld­um vaf­in. Þetta er svo marglaga verk – eins og lífið sjálft,“ seg­ir Stefán Hall­ur og bæt­ir við að vanga­velt­urn­ar sem í verk­inu birt­ast um frelsið séu einnig mjög áhuga­verðar. „Hvenær erum við frjáls? Og hvað er að vera frjáls?“ spyr Nína Dögg. „Er maður frjáls ef maður er ást­fang­inn? Get­ur ást­in lifað af ör­æfi Íslands? Get­ur ást­in lifað af þau áföll sem þau verða fyr­ir?“ spyr Stefán Hall­ur. „Ást þeirra er svo sterk að þó það fari fyr­ir þeim eins og fer, þá ef­ast ég ekki um ást þeirra í lok­in,“ seg­ir Nína Dögg. „Ég er sam­mála því,“ seg­ir Stefán Hall­ur. „Það eru bara aðstæðurn­ar sem ýta þeim á þenn­an stað,“ seg­ir Nína Dögg. „Þau eru enn að berj­ast fyr­ir ást­inni í ómögu­leg­um aðstæðum,“ seg­ir Stefán Hall­ur. „Og með svo ótrú­lega mikið á sam­visk­unni eða eins og Halla orðar það und­ir lok leik­rits­ins: „Það er svo sárt.““

Vakti heims­at­hygli

Jó­hann Sig­ur­jóns­son (1880-1919) var fyrsta ís­lenska skáldið á eft­ir höf­und­um forn­bók­mennt­anna sem vakti veru­lega at­hygli utan land­stein­anna. Verkið Fjalla-Ey­vind­ur var frum­sýnt hjá Leik­fé­lagi Reykja­vík­ur 26. des­em­ber 1911 og hálfu ári síðar í Dag­mar-leik­hús­inu í Kaup­manna­höfn. Sú sýn­ing bar hróður verks­ins víða og var það í fram­hald­inu þýtt á mörg tungu­mál og sýnt á Norður­lönd­un­um, í ýms­um borg­um Þýska­lands, sem og í Bretlandi, Hollandi, Eistlandi, Rússlandi og Banda­ríkj­un­um, auk þess sem gerð var þögul kvik­mynd árið 1917 sem byggðist á leik­rit­inu.

Fjalla-Ey­vind­ur var ein af þrem­ur opn­un­ar­sýn­ing­um Þjóðleik­húss­ins árið 1950. Það var aft­ur tekið til sýn­ing­ar í Þjóðleik­hús­inu árið 1988 og þá sýnt und­ir heit­inu Fjalla-Ey­vind­ur og kona hans. Leik­ritið hef­ur verið leikið hjá áhuga­leik­fé­lög­um út um allt land og sett upp nokkr­um sinn­um hjá Leik­fé­lagi Reykja­vík­ur og Leik­fé­lagi Ak­ur­eyr­ar, auk þess sem leik­hóp­ur­inn Aldrei óstelandi sýndi það árið 2011.

Þess má geta að boðið verður upp á umræður í Þjóðleik­hús­inu um verkið og upp­færslu þess eft­ir 6. sýn­ingu laug­ar­dag­inn 11. apríl auk þess sem sýn­ing­in verður til um­fjöll­un­ar í Leik­hús­kaffi í Gerðubergi miðviku­dag­inn 29. apríl kl. 20.

Nína Dögg og Stefán Hallur í hlutverkum sínum á stóra …
Nína Dögg og Stefán Hall­ur í hlut­verk­um sín­um á stóra sviði Þjóðleik­húss­ins. Ljós­mynd/​Eddi
Fjalla-Eyvindur og Halla eftir Jóhann Sigurjónsson er sýnt í Þjóðleikhúsinu.
Fjalla-Ey­vind­ur og Halla eft­ir Jó­hann Sig­ur­jóns­son er sýnt í Þjóðleik­hús­inu. Ljós­mynd/​Eddi
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Vog

Sign icon Reyndu að halda sambandi við vini þína jafnvel þótt vík verði í milli. Láttu stríðni annarra sem vind um eyru þjóta.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofie Sar­en­brant
2
Erla Sesselja Jens­dótt­ir
3
Jill Man­sell
4
Árni Þór­ar­ins­son og Páll Krist­inn Páls­son
5
Birgitta H. Hall­dórs­dótt­ir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Vog

Sign icon Reyndu að halda sambandi við vini þína jafnvel þótt vík verði í milli. Láttu stríðni annarra sem vind um eyru þjóta.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofie Sar­en­brant
2
Erla Sesselja Jens­dótt­ir
3
Jill Man­sell
4
Árni Þór­ar­ins­son og Páll Krist­inn Páls­son
5
Birgitta H. Hall­dórs­dótt­ir