„Þetta er okkar Hamlet“

„Ást þeirra er svo sterkt að þó það fari fyrir …
„Ást þeirra er svo sterkt að þó það fari fyrir þeim eins og fer, þá efast ég ekki um ást þeirra í lokin,“ segir Nína Dögg Filippusdóttir sem leikur Höllu á móti Stefáni Halli Stefánssyni í hlutverki Fjalla-Eyvindar. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er óneitanlega gaman að kljást við þessa þjóðsagnapersónu, því Fjalla-Eyvindur stendur okkur Íslendingum mjög nærri og allir telja sig þekkja hann. En, líkt og með öll önnur hlutverk sem ég tekst á við, reyni ég að leita að manneskjunni fremur en að leika goðsögnina. Það hefur því verið mjög gaman á æfingaferlinu að skoða og rannsaka ólíkar hliðar þessa manns. Þetta er að einhverju leyti okkar Hamlet,“ segir Stefán Hallur Stefánsson sem fer með hlutverk útilegumannsins fræga í Fjalla-Eyvindi og Höllu sem Þjóðleikhúsið frumsýnir á stóra sviðinu í kvöld. Leikritið er eftir Jóhann Sigurjónsson en leikstjórinn Stefan Metz, sem hlaut mikið lof í fyrra fyrir uppfærslu sína á Eldrauninni eftir Arthur Miller, hefur unnið eigin leikgerð upp úr verkinu.

„Halla er mögnuð af því að hún er svo sterk,“ segir Nína Dögg Filippusdóttir sem fer með hlutverk Höllu. „Hún er dæmigerð íslensk kona, en heilt yfir eru íslenskar konur mjög sterkar. Við grenjum alveg, en erum á sama tíma svakalega harðar af okkur. Halla er fylgin sér, ákveðin og í raun algjör frenja. Hún er miklu sterkari en allir karlmenn verksins. Hún fer úr góðum aðstæðum þar sem hún er húsfreyja yfir stóru búi með fólk í vinnu og flýr til fjalla fyrir ástina,“ segir Nína Dögg. „Sem krefst mikils hugrekkis,“ segir Stefán Hallur. „Ekki síst á þessum tíma,“ segir Nína Dögg.

Að sögn Stefáns Halls og Nínu Daggar velur leikstjórinn í nálgun sinni að leggja aðaláhersluna á ástarsöguna í verkinu. „Stefan Metz er búinn að stytta verkið og vinna algjörlega sína leikgerð upp úr verkinu,“ segir Nína Dögg. „Segja má að það sé búið að kjarna verkið í það sem það er, sem er saga þessara tveggja einstaklinga sem berjast fyrir ástinni,“ segir Stefán Hallur og bendir á að búið sé að strika út megnið af náttúrulýsingum verksins.

„Auðvitað hefur verið erfitt að sjá á eftir mörgum þessara lýsinga, því þetta er svo fallegt vegna þess að Jóhann var svo stórkostlegt skáld. En styttingarnar þjóna sýningunni og sögunni sem Stefan Metz vill segja,“ segir Nína Dögg og tekur fram að það sé viss kostur að fá menn að utan sem litið geti verkið ferskum augum. Þar vísar hún annars vegar til Metz og hins vegar til Sean Mackaoui, sem hannar leikmynd og búninga. „Þeir koma að hreinu borði þegar þeir byrja vinnu sína með verkið. Við Íslendingar berum svo mikla virðingu fyrir þessu leikriti og leikskáldinu að við þorum kannski ekki að nálgast verkið alfarið á eigin forsendum, en þeir eru alveg lausir við slíkan ótta,“ segir Nína Dögg.

Þegar leikritið var frumsýnt hérlendis árið 1911 og þegar það var ein af þremur opnunarsýningum Þjóðleikhússins árið 1950 var titil þess Fjalla-Eyvindur, en síðast þegar það var leikið í Þjóðleikhúsinu árið 1988 var það sýnt undir heitinu Fjalla-Eyvindur og kona hans. Enn hefur titlinum verið breytt og nefnist verkið nú Fjalla-Eyvindur og Halla. Það liggur því beint við að spyrja hvort breyttur titill sé til merkis um að hlutur Höllu sé gerður meiri í nýju leikgerðinni. „Sagan hverfist að miklu leyti um Höllu. Í raun ætti verkið að heita Fjalla-Halla,“ segir Stefán Hallur.

„Hún tekur þá ákvörðun að fylgja ástinni til fjalla. Hún berst við yfirvaldið í sínum hreppi. Fjalla-Eyvindur er auðvitað goðsögnin og flestar heimildir fjalla fyrst og fremst um hann. Það hefur ekki verið skrifað mikið um Höllu, þó hún sé alltaf þarna í bakgrunni,“ segir Nína Dögg og bendir á að samband Eyvindar og Höllu byggist að einhverju leyti á sambandi leikskáldsins við Ingeborg Thidemann eða Ib eins og hún var kölluð. „Hjónaband þeirra var mjög stormasamt. Ib var gift þegar þau kynntust og tíu árum eldri en Jóhann, eins og Halla er eldri en Eyvindur,“ segir Nína Dögg.

Að sögn Nínu Daggar hefur verið magnað að fá að setja sig inn í tíma verksins og skoða m.a. hlutskipti kvenna. „Sem dæmi beið hörð refsing þeirra kvenna sem urðu óléttar án þess að vera í hjónabandi. Þær neyddust jafnvel til að fara út um hávetur og eiga börn sín í laumi og farga þeim til að verða ekki sjálfar dæmdar til dauða. Maður getur varla sett sig í þessi spor. En þó þetta hafi gerst í gamla daga þá er þetta bara alvöru fólk eins og við í dag með tilfinningar. Það er ótrúlegt hvað manneskjan er fær um að kljást við í erfiðum aðstæðum,“ segir Nína Dögg og rifjar upp að á Íslandi á 18. öld hafi ríkt harðstjórn og réttlæti verið af skornum skammti.

Leiðinlegt að leika súpermann

„Hreppstjórar og sýslumenn höfðu gerræðisvald. Það má auðveldlega sjá sterk líkindi milli Íslands á 18. öld og villta vestursins, því fólk var að misnota vald sitt. Það var líka nóg að ljúga upp á annan mann einhverjum glæp til þess að hann yrði ofsóttur,“ segir Stefán Hallur og rifjar upp að Danakóngur hafi á sínum tíma þó komið í veg fyrir að sýslumenn hérlendis fengju vald til að dæma menn og hengja samstundis. „Það ríkti ógnarstjórn hérlendis á þessum tíma. Þar af leiðandi skilur maður mjög vel af hverju þau flýja,“ segir Stefán Hallur. „Það er eini kosturinn,“ bætir Nína Dögg við. „Og þau flýja ekkert endilega í verri aðstæður. Frelsið á öræfum er betra en fangelsið í siðmenningunni,“ segir Stefán Hallur. „Og þá geta þau líka verið saman,“ segir Nína Dögg.

Að sögn Stefáns Halls er auðvelt að sjá Fjalla-Eyvind sem nokkurs konar Hróa hött síns tíma. „Eyvindur stal aðeins af nauðsyn til að sjá fyrir sér og fjölskyldu sinni. Við ræddum það hvort hann hefði verið vændur um þjófnað að ósekju, en í þessari uppfærslu er hann réttilega sakaður um sauðaþjófnað. Okkur fannst áhugaverðara að hann væri breyskur. Eyvindur er bara manneskja. Hann er ekki súpermann. Það er ekkert áhugavert að leika tvívíðar persónur. Ég held það sé mjög erfitt að leika súpermann,“ segir Stefán Hallur. „Ég held það sé mjög leiðinlegt að leika súpermann,“ segir Nína Dögg.

Leikritið spannar 15 ára samveru Eyvindar og Höllu, en í raunveruleikanum eyddu þau 40 árum saman á flótta. Einn af dramatískum hápunktum verksins er þegar Halla velur á flótta undan armi réttvísinnar að drepa þriggja ára dóttur þeirra Eyvindar með því að kasta henni í foss. Spurð hvernig maður setji sig í spor konu sem velji að gera slíkt svarar Nína Dögg: „Það er pínu flókið. En það er einhver taug í mér sem skilur hana. Hún gerir þetta ekki af illsku. Hún er sannfærð um að það sé betra fyrir barnið að fara inn í eilífðina en lenda í höndum vondra manna. Að fara þangað tilfinningalega er mjög flókið og erfitt, en það er partur af starfinu.“

„Maður finnur einhvern þráð eða einhvern persónulegan missi sem maður magnar og margfaldur með þúsund. Leikarar fara ólíkar leiðir að þessu og það getur verið mjög erfitt að útskýra rökrænt hvernig maður gerir þetta, því þetta ferli liggur handan rökhugsunar. Þetta er frumhvöt – líkt og ástin. Það er ekki rökhugsun sem liggur að baki gjörðum Eyvindar og Höllu. Þess vegna er þetta svona flókið og vandasamt,“ segir Stefán Hallur.

Ekki málað eftir númerum

„Maður má ekki hugsa of mikið í ferlinu sjálfu. Halla tekur ákvörðun sína á örskotsstundu. Sjokkið kemur ekki fyrr en eftirá, þegar hún þarf að horfast í augu við það sem hún hefur gert og reyna að sætta sig við það. Hún þarf að bera þessa ábyrgð alla ævi og spyr sjálfa sig eðlilega hvort þetta hafi verið rétt ákvörðun,“ segir Nína Dögg.

Stefán Hallur minnir á að Eyvindur sé á staðnum þegar þetta gerist og hann verði því stöðug áminning fyrir konu sína um hvað gerst hafi. „Það sem gerir eftirköstin svo flókin og áhugaverð er að þau eru stöðug áminning fyrir þau bæði um það sem áttu og hvað þau hafa misst. Maður hefur lesið um hjón sem misst hafa börn sín og geta í framhaldinu ekki verið saman,“ segir Stefán Hallur og bætir við að hægt sé að tala um tilfinningarnar sem fylgi því að missa barn, hvort heldur það er reiði, gremja eða sorg, en það sé samt varla hægt að setja sig í þessi spor. „Það er ekki hægt að mála eftir einhverjum númerum í þessum efnum.“

Nína Dögg og Stefán Hallur hafa þekkst lengi, en unnu sína fyrstu sýningu saman árið 2012 þegar Vesturport setti upp Bastarða. Spurð hvort það hjálpi þeim að þekkjast fyrir þegar komi að því að vinna jafn átakamikið verk og Fjalla-Eyvindur og Halla sé svara þau bæði játandi. „Traustið hefur verið til staðar frá byrjun og það er ótrúlega góð tilfinning, því þá getur maður bara hent sér út í vinnuna. Við erum líka með frábæran leikstjóra sem heldur vel utan um hópinn,“ segir Nína Dögg. „Stefan Metz býr til vinnuumhverfi sem er mjög gjöfult og einkennist af miklu áreynsluleysi,“ segir Stefán Hallur og tekur fram að það sé svo ánægjulegt að finna þegar allir séu í sama bátnum og rói í sömu átt. „Stefan Metz horfir á leikhópinn sem heild og er ekki upptekinn af aðal- og aukahlutverkum,“ segir Stefán Hallur og rifjar upp að þessi nálgun hafi líka einkennt Eldraunina. „Það er enginn aðal og enginn auka. Við erum öll sem hópur að segja þessa sögu. Um það á leikhúsið einmitt að snúast, þ.e. að hópurinn skapi heildina. Því hópurinn er heildin.“

Að lokum er ekki úr vegi að spyrja hvers vegna Fjalla-Eyvindur og Halla tali enn jafnsterkt til nútímaáhorfenda og fyrir rúmum hundrað árum. „Vegna þess að við erum ennþá að kljást við þessar sömu tilfinningar, þ.e. ást, gleði, missi, sorg og kúgun,“ segir Nína Dögg. „Og reynum að vera hamingjusöm skuldum vafin. Þetta er svo marglaga verk – eins og lífið sjálft,“ segir Stefán Hallur og bætir við að vangavelturnar sem í verkinu birtast um frelsið séu einnig mjög áhugaverðar. „Hvenær erum við frjáls? Og hvað er að vera frjáls?“ spyr Nína Dögg. „Er maður frjáls ef maður er ástfanginn? Getur ástin lifað af öræfi Íslands? Getur ástin lifað af þau áföll sem þau verða fyrir?“ spyr Stefán Hallur. „Ást þeirra er svo sterk að þó það fari fyrir þeim eins og fer, þá efast ég ekki um ást þeirra í lokin,“ segir Nína Dögg. „Ég er sammála því,“ segir Stefán Hallur. „Það eru bara aðstæðurnar sem ýta þeim á þennan stað,“ segir Nína Dögg. „Þau eru enn að berjast fyrir ástinni í ómögulegum aðstæðum,“ segir Stefán Hallur. „Og með svo ótrúlega mikið á samviskunni eða eins og Halla orðar það undir lok leikritsins: „Það er svo sárt.““

Vakti heimsathygli

Jóhann Sigurjónsson (1880-1919) var fyrsta íslenska skáldið á eftir höfundum fornbókmenntanna sem vakti verulega athygli utan landsteinanna. Verkið Fjalla-Eyvindur var frumsýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur 26. desember 1911 og hálfu ári síðar í Dagmar-leikhúsinu í Kaupmannahöfn. Sú sýning bar hróður verksins víða og var það í framhaldinu þýtt á mörg tungumál og sýnt á Norðurlöndunum, í ýmsum borgum Þýskalands, sem og í Bretlandi, Hollandi, Eistlandi, Rússlandi og Bandaríkjunum, auk þess sem gerð var þögul kvikmynd árið 1917 sem byggðist á leikritinu.

Fjalla-Eyvindur var ein af þremur opnunarsýningum Þjóðleikhússins árið 1950. Það var aftur tekið til sýningar í Þjóðleikhúsinu árið 1988 og þá sýnt undir heitinu Fjalla-Eyvindur og kona hans. Leikritið hefur verið leikið hjá áhugaleikfélögum út um allt land og sett upp nokkrum sinnum hjá Leikfélagi Reykjavíkur og Leikfélagi Akureyrar, auk þess sem leikhópurinn Aldrei óstelandi sýndi það árið 2011.

Þess má geta að boðið verður upp á umræður í Þjóðleikhúsinu um verkið og uppfærslu þess eftir 6. sýningu laugardaginn 11. apríl auk þess sem sýningin verður til umfjöllunar í Leikhúskaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 29. apríl kl. 20.

Nína Dögg og Stefán Hallur í hlutverkum sínum á stóra …
Nína Dögg og Stefán Hallur í hlutverkum sínum á stóra sviði Þjóðleikhússins. Ljósmynd/Eddi
Fjalla-Eyvindur og Halla eftir Jóhann Sigurjónsson er sýnt í Þjóðleikhúsinu.
Fjalla-Eyvindur og Halla eftir Jóhann Sigurjónsson er sýnt í Þjóðleikhúsinu. Ljósmynd/Eddi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist að í hverju verkefni sem þér er falið felst æfing sem eykur hæfni þína. Ræktaðu garðinn þinn, fyrst þá getur þú deilt uppskerunni með náunganum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist að í hverju verkefni sem þér er falið felst æfing sem eykur hæfni þína. Ræktaðu garðinn þinn, fyrst þá getur þú deilt uppskerunni með náunganum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar