„Einhvers konar hugljómun“

"Hann hefur byggt sér upp e.k. lífsmynstur sem hentar honum vel og hann er sáttur í eigin skinni. En hann kemst í snertingu við það að lífið gæti haft upp á meira að bjóða," segir Dagur Kári um Fúsa. mbl.is/RAX

Sýningar hefjast í dag á nýjustu kvikmynd Dags Kára Péturssonar, Fúsa. Í henni fer Gunnar Jónsson, kallaður Gussi, með hlutverk Fúsa sem er 43 ára og starfar við farangursþjónustu í Leifsstöð. Fúsi býr enn hjá móður sinni og í frístundum býr hann til nákvæm líkön af sögufrægum orrustum úr seinni heimsstyrjöldinni með vini sínum sem Sigurjón Kjartansson leikur. Mikil breyting verður á lífi Fúsa þegar hann fær línudansnámskeið í afmælisgjöf frá kærasta móður sinnar og verður á því ástfanginn af Sjöfn, konu á svipuðum aldri. Fúsi hefur aldrei verið við kvenmann kenndur og veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga.

Fimm ár eru liðin frá því síðasta kvikmynd Dags Kára var frumsýnd, The Good Heart sem bandarísku leikararnir Brian Cox og Paul Dano fóru með aðalhlutverk í. Blaðamaður tók viðtal við Dag Kára af því tilefni í marsbyrjun árið 2010. Undir lok þess varð hljóðið heldur þungt í leikstjóranum. Hann sagðist upplifa ákveðið óvissuástand, hann hefði gefið allt sem hann átti í myndina og að hann væri ekki búinn að átta sig á því hvernig hann ætti að halda áfram eða hvort hann ætti yfirleitt að halda áfram að gera kvikmyndir. Þó langaði hann næst að gera kvikmynd á Íslandi. Og það gerði hann, Fúsa sem frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Berlín í febrúar sl.

Blaðamaður rifjar þessi ummæli upp þar sem hann situr með Degi Kára á kaffihúsi, fimm árum síðar. Dagur Kári segir The Good Heart hafa verið erfiða mynd að gera að mörgu leyti. Hann hafi t.a.m. þurft að bíða í fjögur ár eftir því að hefja tökur og að það hafi verið tímafrekt að landa aðalleikurum. Á tímabili voru Tom Waits og Ryan Gosling í sigtinu. Dagur Kári segir þetta hafa verið slítandi ferli en að sama skapi lærdómsríkt. Hann hafi misst alla löngun til að búa til kvikmyndir í um tvö ár eftir að hann lauk við myndina. ,,Ég íhugaði aðra möguleika, byrjaði m.a. í námi í tónsmíðum í Listaháskóla Íslands en entist ekki þar nema í hálfa önn. Það var samt mjög hollt því það virkjaði einhverjar heilastöðvar sem legið höfðu í dvala í 15 eða 20 ár. Upp úr því kviknaði löngunin til að gera bíómynd aftur,“ segir Dagur Kári og bætir við að það sé dýrmætt að hafa beinan aðgang að fagfólki í kvikmyndageiranum, líkt og raunin sé á Íslandi og Norðurlöndunum.

Ný upplifun

– Það hefur komið fram í viðtölum við þig um Fúsa að þú hafir fengið hugmyndina að aðalpersónunni þegar þú varst að fylgjast með töskuflutningabílum á flugvelli og sást Gussa fyrir þér í slíkum bíl. Kviknaði hugmyndin að sögunni þá?

,,Ég held þetta sé næst því sem ég hef komist einhvers konar hugljómun. Það hefur alltaf verið þveröfugt með allar aðrar myndir eftir mig, það er ferli sem ég er alveg sáttur við en það er mjög hægt ferli því ég fæ aldrei hugmynd að sögu. Ég er að vinna með smærri brot og smám saman vex sagan út úr þeim en þarna kom sagan eiginlega á meðan ég var að bíða eftir flugvél. Þannig að það var alveg ný upplifun og fyrir vikið þá vannst þetta hraðar en með hinar myndirnar.“

– Aðalpersónurnar í myndunum þínum virðast flestar eiga það sameiginlegt að vera berskjaldaðar á einhvern hátt, fólk sem glímir við mótlæti og fellur ekki fullkomlega að samfélaginu. Er þetta manngerð sem heillar þig?

,,Já, ég hef pælt mikið í því að eftir því sem fólk fullorðnast fer það að byggja upp varnarmúra sem eru í formi einhvers konar viðhorfs, hroka eða hvað það nú er. Ég hef oft verið upptekinn af því þegar fólk verður fullorðið án þess að takast að byggja upp þessa varnarmúra,“ segir Dagur Kári. Slíkar persónur séu ríkari efniviður en þær sem lagi sig fullkomlega að samfélaginu og öðru fólki, ,,kasti af sér fleiri senum en einhver sem er mjög vel fúnkerandi“, eins og Dagur Kári orðar það.

Blessun í dulargervi

– Það er líka sterk kvenpersóna í þessari mynd, Sjöfn, sem Ilmur Kristjánsdóttir leikur, og hún glímir við mótlæti líkt og Fúsi. Fúsi og Sjöfn eru eyjar í fljótinu, svo maður vitni nú í lag sem heyrist oftar en einu sinni í myndinni, ,,Islands in the Stream“ með Dolly Parton og Kenny Rogers. Hvað er málið með þetta lag, er það í miklu uppáhaldi hjá þér eða fannst þér það passa svona vel við söguna? Þetta er frábært lag, svo því sé nú haldið til haga!

,,Já, þetta er frábært lag. Ég var reyndar með annað lag upphaflega, ,,Rocket Man“ eftir Elton John og myndin átti á tímabili að heita Rocket Man. En mér tókst með engu móti að fá réttinn á því að nota það sem reyndist blessun í dulargervi því mér finnst þetta lag passa miklu betur við kvenpersónuna, Sjöfn, og textinn og stemningin er einhvern veginn mun betri.“

– Línudansinn og stríðsleikirnir sem Fúsi stundar í myndinni, notaðirðu þá til að gera myndina hlægilegri eða var tilgangurinn annar?

,,Ég hef í langan tíma verið veikur fyrir öllu sem er svona ,,miniature“, það er ákveðið blæti hjá mér. Þegar ég var að þróa persónu Fúsa var ég að reyna að finna eitthvað sem hann gæti verið að gera sem væri á þessu gráa svæði, eitthvað sem væri samþykkt í heimi fullorðinna en er barnalegt,“ segir Dagur Kári. ,,Þannig að þetta passaði mjög vel inn í það. Með línudansinum var ég meira að reyna að finna óþægilegustu aðstæður sem maður getur komið sér í, eins langt og mögulegt er frá þeim stað sem maður vill helst vera á,“ segir Dagur Kári kíminn og bætir við að línudans sé líka heillandi að því leyti að fólk dansi eitt þó það sé í hópi.

– Áður en ég sá myndina las ég þá lýsingu á Fúsa að hann væri fastur í barnæskunni. Eftir að hafa séð myndina finnst mér það ekki fullnægjandi lýsing, þetta er fullorðinn maður með hæfileika á ákveðnu sviði, ekki barnslega saklaus þó hann sé vissulega vanþroska þegar kemur að samskiptum við fólk og þá sérstaklega hitt kynið...

,,Já, hann hefur byggt sér upp e.k. lífsmynstur sem hentar honum vel og hann er sáttur í eigin skinni. En hann kemst í snertingu við það að lífið gæti haft upp á meira að bjóða,“ segir Dagur Kári. Spurður að því hvernig hafi verið að vinna með Gussa segir hann það hafa verið mjög gott. ,,Ég held hann hafi fengið handritið hátt í ári áður en við fórum í tökur og við ræddum það í sjálfu sér ekki mikið og hann spurði ekki spurninga heldur fundum við fljótlega að við hefðum þöglan skilning á því hvert væri verið að fara. Það hefði líka verið út úr karakter að fara að analísera hlutina mikið. Hann tók þennan karakter algjörlega inn á sig og svo var hann bara ótrúlega einbeittur og nákvæmur í tökum, negldi hlutina yfirleitt í fyrstu töku,“ segir Dagur Kári. Gussi er ekki lærður leikari en vakti mikla athygli fyrir bráðfyndinn leik sinn í grínþáttunum Fóstbræður. Dagur Kári tekur fram að allir leikarar myndarinnar hafi staðið sig með prýði.

Og talandi um Fóstbræður þá leikur einn þeirra, Sigurjón Kjartansson, vin Fúsa í myndinni. Dagur Kári er spurður hvers vegna Sigurjón hafi orðið fyrir valinu. ,,Það var nú bara einhver tilfinning fyrir því að þeir pössuðu vel saman,“ segir hann. ,,Sigurjón er líka tónlistarmaður og í einni bestu rokkhljómsveit heims, HAM, og mér fannst skemmtilegt að hans karakter hefði þá sögu í sér en með öðrum formerkjum. Ég sá fyrir mér að hann væri karakter sem hefði verið efnilegur sem ungur maður en hefði gefist upp á sínum draumum,“ segir Dagur Kári og brosir.

Ekki haft tíma til að sitja í tíma

Dagur Kári býr í Danmörku og er deildarstjóri leikstjórnardeildar Den danske filmskole, Danska kvikmyndaskólans. Spurður að því hvort það sé fullt starf segir hann svo vera. ,,Það kom mér pínulítið á óvart hvað það er mikil binding, ég bjóst við því að það væri meira svigrúm, að ég gæti unnið meira í mínum eigin hlutum,“ segir Dagur Kári. Starfið sé lærdómsríkt og skemmtilegt. ,,Þetta er eins og að fara aftur í skóla finnst mér og það var kannski líka dulinn ásetningur með þessu, að fara aftur í skóla. Þarna væri ég í þeirri stöðu að geta prógrammerað námið og svo ætlaði ég að sitja kúrsana en svo hef ég ekki haft tíma til þess að sitja einn einasta tíma,“ segir Dagur Kári og hlær. Óneitanlega þurfi hann þó að hafa svigrúm til að sinna eigin kvikmyndagerð. ,,Ég er að vinna í því að koma því þannig fyrir, að ég fái meira svigrúm,“ segir Dagur Kári.

– Ertu farinn að leggja drög að næstu mynd? Kannski fullsnemmt að spyrja að því?

,,Nei, þetta er dálítið sérkennilegt ástand því hingað til hef ég alltaf verið með eina hugmynd í gangi í einu og afgreitt hana og beðið eftir næstu. En núna, þegar ég hef engan tíma, hef ég aldrei verið með jafnmargar hugmyndir í gangi. Þannig að það eru ýmsir möguleikar sem tengjast bæði Danmörku og Íslandi. Þannig að núna er planið að setja einhverja tvo, þrjá hluti í gang og sjá hvað gerist.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Loka