Fúsi: Tilvistarspekileg þroskasaga

Hér sést Sjöfn, sem Ilmur Kristjánsdóttir leikur, með Fúsa á …
Hér sést Sjöfn, sem Ilmur Kristjánsdóttir leikur, með Fúsa á línudansnámskeiði í myndinni.

Kvikmyndin Fúsi eftir Dag Kára var frumsýnd í Háskólabíó og Smárabíó í gær. Myndin er framleidd af þeim Baltasar Kormáki og Agnesi Johansen fyrir framleiðslufyrirtækið Sögn, en hún vakti lukku á kvikmyndahátíð í Berlín í febrúar og hefur nú þegar verið bókuð á margar af helstu kvikmyndahátíðum heims. Hjördís Stefansdóttir, gagnrýnandi Morgunblaðsins, gefur myndinni fjórar stjörnur af fimm í umsögn sinni í blaðinu í dag en lesa má dóm hennar hér að neðan:

Nýjasta mynd kvikmyndaskáldsins Dags Kára var frumsýnd á Berlinale hátíðinni í byrjun febrúar þar sem hún vakti töluverða lukku og hlaut talsvert lof. Hún heggur að mörgu leyti í sama knérunn og fyrri myndir leikstjórans, Nói albínói, Voksne mennesker og The Good Heart, því segja má að allar séu þær tilvistarspekilegar og einlægar þroskasögur eftirminnilegra persóna sem höfða til áhorfenda og hreyfa við þeim á alþjóðlegum vettvangi.

Fúsi (Gunnar Jónsson), titilpersóna nýjustu myndarinnar, er liðlega fertugur piparsveinn sem býr enn hjá móður sinni (Margrét Helga). Það fyrirkomulag er ástmanni hennar (Arnar Jónsson) til nokkurs ama, en hann fær vart rönd við reist því Fúsi er afar fastur í viðjum vanans og ragur við að hleypa heimdraganum. Fátt tíðindavert drífur á daga Fúsa sem unir sér best í félagsskap eina vinar síns (Sigurjón Kjartansson), en saman sviðsetja þeir gömul heimsstríð með fornfálegum módelum. Hegðun hans og framkoma minnir því þversagnarkennt í senn á forsögulegan, risavaxinn loðfíl með þykkan skráp og óharðnaðan, ófleygan unga sem getur ekki steypt sér úr hreiðrinu. Þegar tvær örlagadísir, báðar kenndar við gyðjur, koma óvænt inn í líf hans, fer það allt úr skorðum þannig að Fúsi neyðist til að stíga út fyrir þægindaramma sinn og bjóða framtíðinni byrginn. Tilvera einbúans Sjafnar (Ilmur Kristjánsdóttir) og hinnar barnungu Heru (Franziska Una) er einnig fremur lítilfjörleg við upphaf frásagnarinnar, en hún tekur stakkaskiptum líkt og hlutskipti Fúsa eftir að þau fara að rugla saman reytum.

Líkt og áður er framvinda þessarar nýjustu myndar Dags Kára, hispurslaus, án allrar tilgerðar og mörkuð einstaklega mannlegu skopskyni. Myndatakan og sögusviðið, sem er að mörgu leyti afar gamaldags, ramma persónu Fúsa myndrænt inn, svo áhorfendur eru vel meðvitaðir um hvernig honum er sniðinn allt of þröngur stakkur, jafnt í lifanda lífi sem og innan hans huglæga heims. Hann stingur verulega í stúf hvert sem hann fer og hefur því dregið sig inn í skelina og setið eftir í framrás tímans þannig að hann er orðinn að risavaxinni tímaskekkju. Hlutverkið er bersýnilega skrifað fyrir Gunnar og hann nær því að gæða persónu sína afar mikilli tilfinninganæmni, að því er virðist áreynslulaust og á lágstemmdasta mögulega máta. Mótleikur Ilmar er á hinn bóginn hamslausari, enda Sjöfn miklu opinskárri og berskjaldaðri tilfinningavera sem ræður ekkert við skapgerðarsveiflur sínar. Líkt og nafna hennar er hún ástargyðja og hún seiðir Fúsa til lags við sig með óvæntri glettni og kántríballöðunni „Islands in the Stream“. Persóna Heru veitir að sama skapi skemmtilegt mótvægi með barnslegri einlægni sinni og raunar kallast allar aukapersónur á við aðalhetjuna. Þar sem þær eru nánast allar haganlega dregnar upp í handriti skila leikararnir allir af sér sterkum, þéttum og samstilltum leik.

Eins og gerist og gengur í lífinu almennt hefur hver persóna sinn djöful að draga. Þær geta fyrirvaralaust stokkið í vænisjúka vörn og verið fordómafullar og skeytingarlausar í garð náungans ef þeim finnst að sér vegið og hvorki manndómur þeirra, gæska né örlög liggja ljós fyrir þegar þær stíga fram á sjónarsviðið. Breytni þeirra kemur því áhorfendum sífellt á óvart og þær endurspegla þannig ágætlega fjölbreytileika raunverulegs mannlífs. Óhætt er að hvetja fólk til að flykkjast í bíó, hvort sem það telur sig tilfinninganæmt eða kaldlynt, til að sjá hvort hjákátlegi en hjartahreini og óspjallaði riddarinn Fúsi sem ekur um á skriðdrekalegum kagga með þungarokk á hæsta hljóðstyrk í græjunum geti staðið af sér fordóma og skeytingarleysi samfélagsins og leyst ástargyðju sína úr hennar eigin heljaránauð. Eitt er víst að þeir sem það gera koma til með að nærast andlega og geta í kjölfarið orðið kærleiksríkari og jafnvel sýnt meira umburðarlyndi í garð náungans.

Leikstjórn og handrit: Dagur Kári. Kvikmyndataka: Rasmus Videbæk. Klipping: Olivier Bugge Coutté, Andri Steinn Guðjónsson og Dagur Kári. Aðalhlutverk: Gunnar Jónsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Sigurjón Kjartansson, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Arnar Jónsson og Franziska Una Dagsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir