Aðdáendum tónlistarmanna hættir sumum til að sveipa dauðdaga átrúnaðargoða sinna dýrðarljóma, sérstaklega þegar þá ber voveiflega að. Rannsókn ástralsks fræðimanns á dauða rúmlega 12.000 tónlistarmanna bendir hins vegar til að „27-klúbbur“ þekktra tónlistarmanna sem létust 27 ára sé aðeins goðsögn.
Dianna Theodora Kenny, prófessor í sálfræði og tónlist við Háskólann í Sydney, hefur birt röð greina um rannsókn sem hún gerði á dauða 12.665 tónlistarmanna sem létust á árunum 1950 til 2014. Hún komst meðal annars að því að tónlistarmenn eru mun líklegri til að látast af völdum slysa, sjálfsvíga eða morða en bandarískur almenningur almennt.
Þá skoðaði hún sérstaklega það sem nefnt hefur verið „27-klúbburinn“, nokkurs konar félagsskapur þekktra tónlistarmanna sem létust þegar þeir voru 27 ára eins og Amy Winehouse, Kurt Cobain og Jimmy Hendrix.
Rannsókn Kenny leiddi hins vegar í ljós að fleiri tónlistarmenn hafa látist 28 ára en 27 ára. Algengast er að þeir látist 56 ára. Þeir sem létust 27 ára voru hins vegar frægari og dauðdagi þeirra meira sláandi.
Þegar Kenny skoðaði tengsl tónlistarsefnu og dauðdaga komast hún að því að rapp- og hiphop-tónlistarmenn eru langlíklegastir til þess að vera myrtir af öllu tónlistarmönnum.
Pönkarar og þungarokkarar eru áberandi líklegastir til þess að deyja af slysförum en þeir eru einnig líklegastir til þess að fyrirfara sér. Þannig hafði einn af hverjum fimm þungarokkurum sem rannsóknin náði til svipt sig lífi.
Frétt The Guardian af rannsókninni á dauðdögum tónlistarmanna