Phil Rudd, trommari rokkhljómsveitarinnar AC/DC, hefur gengist við því að hafa hótað starfsmanni lífláti í kjölfar þess að sólóplatan Head Job mæltist ekki jafn vel fyrir og vonir stóðu til. Rudd játaði einnig fíkniefnavörslu.
Trommarinn var handtekinn á heimili sínu í fyrra, en fyrir dómi hefur m.a. komið fram að hann rak fjölda starfsmanna í ágúst sl. eftir að Head Job komst ekki upp vinsældarlistana. Mánuði seinna hringdi hann í samstarfsmann og sagði að hann vildi að einn þeirra sem hann rak yrði „tekinn út“.
Rudd bauð viðkomandi 153 þúsund dollara, og „mótorhjól, bíl eða hús“. Sá taldi að um væri að ræða greiðslu fyrir viðvikið, en Rudd á að hafa hringt í hið ætlaða fórnarlamb í framhaldinu og hótað honum lífláti.
Lögmaður Rudd sagði málið í raun snúast um reiðilegt símtal, og ekkert annað. Rokkarinn á yfir höfði sér sjö ára fangelsi fyrir hótunina og einhverja mánuði fyrir fíkniefnavörsluna.