Gamanleikkonan Roseanne Barr er að missa sjónina hægt og rólega vegna gláku og aldursbundinnar augnbotnahrörnunar. Þessu greindi leikkonan frá í viðtali við The Daily Beast sem birtist á mánudaginn.
Hin 62 ára Barr talaði opinskátt um ástand sitt í viðtalinu. Hún kvaðst nota marijúana til að lina þjáningar sem fylgja sjúkdómnum.
„Ég er með aldursbundina augnbotnahrörnun og gláku, þess vegna er það [marijúana] gott fyrir mig því ég er með þrýsting í augunum. Þetta er gott lyf við ýmsum kvillum,“ útskýrði Barr sem veit að hún mun að lokum missa alla sjón.
„Sjón mín fer versnandi. Þetta er skrýtið,“ sagði Barr sem hefur tileinkað sér jákvætt hugarfar. „Maður gerir bara það sem maður þarf að gera. Ég reyni bara að njóta sjónarinnar eins mikið og ég get.“