Óprúttinn einstaklingur virðist hafa hakkað sig inn á vefsíðu Félags fuglaáhugamanna á Hornafirði. Þar er nú að finna frétt um að strútur hefði sést á Akranesi auk þess sem birt var mynd af blesgæs sem er óhemju lík fyrrverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
Brynjúlfi Brynjólfssyni, einum þeirra sem halda síðunni úti, var ekki alveg eins skemmt og blaðamanni þegar mbl.is náði af honum tali en hann hafði þá ekki tekið eftir uppátækinu. Hann neitaði því að um innanbúðarhúmor hjá forsvarsmönnum síðunnar væri að ræða. „Maður er kannski fyndinn, en ekki svona fyndinn.“
Brynjúlfur lofar blaðamanni að fréttin um strútinn sé uppspuni frá rótum. Eins segir hann fosætisráðherrann Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem titlaður er strútasérfræðingur og ljósmyndari myndarinnar sem fylgir fréttinni, ekki meðlim í félaginu þó svo að það væri vissulega óskandi að hann sýndi málefninu stuðning.
Fréttin á síðu fuglar.is hljóðar svo:
„Sást til strúts á Akranesi í hádeginu í dag 24. apríl. Ekki er óalgengt að strútar leiti á þessi mið þegar sumarið rennur upp til að maka sig og koma sér fyrir í hreiðri. Mökunarkall Strútsins ómar nú um götur Akraness. Strúturinn er oft kallaður sumarboðinn” og öruggt er að segja að sumarið sé að renna upp.
Mynd tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson – strútasérfræðingur“