Listamaður frá Greater Manchester í Bretlandi hefur farið ansi óvenjulega leið að því að mótmæla lélegu ástandi gatna í heimabæ sínum. Síðustu vikur hefur hann nefnilega tekið sig til og málað typpi og rassa á fjölmargar holur í vegum.
Listamaðurinn kallar sig Wanksy en vill ekki láta raunverulegs nafns síns getið. Í viðtali við Manchester Evening News sagðist hann vilja vekja athygli á þessu hræðilega ástandi, eftir að vinir hans sem eru hjólreiðamenn slösuðu sig alvarlega vegna holna í vegum.
„Ég vildi beina athygli að holunum og gera þær minnisstæðar. Ekkert virtist gera það betur en risavaxinn skondinn getnaðarlimur,“ sagði hann. „Það tekur einnig stuttan tíma. Ég vil ekki vera á veginum í langan tíma. En þetta virðist vera orðið kennimerki mitt. Ég vil bara kalla fram bros og vekja athygli á vandamálinu.“
Wanksy notar málningu sem hverfur af götunum innan tveggja vikna. Hann segist þó hafa náð árangri með myndunum, en vegahaldarar virðast fylla hraðar í holurnar núna að hans sögn.
Yfirvöldum á svæðinu er þó ekki skemmt. „Þetta er ekki aðeins heimskulegt heldur einnig gríðarlega móðgandi fyrir þá sem hér búa,“ sagði talsmaður bæjarstjórnar í Bury í Greater Manchester. „Hefur þessi manneskja hugsað um það hvernig fjölskyldum með ung börn hlýtur að líða þegar þeir sjá þessi klámfengnu merki á leið í skólann? Ekki aðeins eru þetta skemmdarverk, heldur er þetta einnig gríðarlega óhagkvæmt,“ bætti hann við. „Með hverri krónu sem við eyðum í það að hreinsa þetta af götunum fækkar þeim krónum sem við getum eytt í það að raunverulega laga holurnar.“