Kate Middleton leit of vel út og getur ekki hafa verið nýbúin að eignast barn er hún kom út af sjúkrahúsinu í gær. Þetta er ein þeirra fáránlegu samsæriskenningar um fæðingu litlu prinsessunnar sem fram hafa komið. Rekja má sumar þeirra til Rússlands.
Rússneska ríkisdagblaðið Komsomolskaya Pravda sló þessu upp og vitnaði í margar rússneskar konur. Þær sögðu allar sem ein að það væri „ógerningur“ að Katrín hertogaynja hafi verið nýbúin að eignast barn er hún kom út af St Mary's sjúkrahúsinu í síðdegis í gær. Segir blaðið því hugsanlegt að barnið hafi fæðst einhverjum dögum fyrr.
Frétt mbl.is: Af hverju leit Katrín svona vel út?
Í frétt blaðsins segir ein konan: „Ef hún fæddi barn sitt eðlilega var það fyrir nokkrum dögum.“
Önnur segir: „Hún fæddi barnið fyrir þremur dögum. Þeir eru bara að segja frá því núna. Sjáðu barnið, hún lítur ekki út fyrir að vera nýfædd.“
Enn ein konan heldur því fram að Katrín hafi einfaldlega alls ekki fætt neitt barn. „Það var staðgöngumóðir sem gekk með barnið og fæddi það, ekki hún. Kate hefur bara verið með gervimaga til að sýnast ólétt.“
Frétt Mirror um samsæriskenningarnar má lesa í heild hér.