Danski kvikmyndaframleiðandinn Valeria Richter, sem missti hluta af öðrum fæti sínum, segir sér hafa verið vísað frá rauða dreglinum á Cannes kvikmyndahátíðinni fyrir að vera ekki í háum hælum. Í samtali við breska ríkisútvarpið sagði hún eftirlitsmenn hafa litið á fætur hennar og sagt: „Nei, nei, nei þetta mun ekki ganga, þú getur ekki komið inn svona.“
Kvikmyndahátíðin í Cannes hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að víkja konum á flatbotna skóm af rauða dreglingum. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar hefur þó neitað fyrir þetta.
Richter sagði í samtali við BBC að hún gæti ekki haldið jafnvægi á háum hælum eftir að hluti vinstri fótar hennar var fjarlægður. Hún var fjórum sinnum stoppuð þegar hún var á leið á frumsýningu á laugardag.
„Þeir bentu á skóna mína og veifuðu svo fingrunum að mér. Það var mjög augljóst að það væru skórnir mínir sem voru vandamál,“ sagði hún. „Augljóslega gat ég veifað fætinum mínum að þeim, og það gerði aðstæðurnar frekar vandræðalegar fyrir þá, því ég hafði sýnilega skýringu á því að vera ekki í hælum.“
Richter var á endanum hleypt inn, en hún segir marga samstarfsfélaga sína sem ekki geta gengið á hælum hafa verið neitað og ekki komist inn.
Frétt mbl.is: Flatbotna skór bannaðir á rauða dreglinum