„Getum við haldið keppnina? Ef þú vilt fá stutt svar, já“

Jónatan Garðarsson, yfirmaður íslensku sendinefndarinnar.
Jónatan Garðarsson, yfirmaður íslensku sendinefndarinnar. mbl.is/Gunnar Dofri

„Getum við haldið keppnina? Ef þú vilt fá stutt svar, já“ segir Jónatan Garðarsson og brosir þegar ég spyr hann hvort Íslendingar geti með góðu móti haldið Eurovision þegar að því kemur að við loksins sigrum í þessari keppni.

Jónatan er yfirmaður íslensku sendinefndarinnar (e. Head of Delegation). Hlutverk hans er að tryggja að íslenska Eurovisionvélin gangi vandræðalaust allan þann tíma sem sendinefndin er úti, og undirbúa þann mikla fjölda sem fer með keppendunum til leiks hverju sinni fyrir kepnnina. Vinnudagar hans hér í Vín eru því langir og erfiðir, en reynslan hefur sitt að segja. Jónatan hefur gengt þessu hlutverki oft áður, fyrst árið 1989, síðan 2001 og allar götur frá 2003 nema árið 2007. Hann veit því hvað hann er að segja þegar hann segir að Ísland geti haldið Eurovision.

„Við höfum kannski ekki tækjabúnaðinn og mannskapinn til að halda keppnina, en við höfum aðstæður sem eru vel boðlegar til að halda þetta.“ Hann bendir á Laugardalssvæðið sem góðan kost. „Þar eru nokkur góð hús, því eins og maður veit þá þarf að vera aðstaða fyrir matsölustað, blaðamannasvæði, tæknirými og höll til að halda keppnina. Síðan þarf að vera svæði fyrir heiðursgesti sem koma og ýmislegt fleira,“ segir Jónatan.

EBU

Í höllinni sjálfri þar sem keppnin er haldin þurfa svo að vera bæði stæði og sæti fyrir gesti. „En í grunninn er þetta „black box“. Bara stórt hús með veggjum og þaki sem er hægt að byggja inn í,“ segir Jónatan. „Því meiri möguleikar til að byggja svið og stóra leikmynd inn í húsið, þeim mun meiri möguleikar eru á að gera þetta.“

Allt að 15.000 sem koma að keppninni

Hann bendir á að það þurfi ekki einu sinni að vera áhorfendastæði eins og hér í Stadthalle í Vín, það sé einfaldlega hægt að byggja þau, eins og gert var í Kaupmannahöfn í fyrra. „Það þarf því bara stórt hús, sem gæti verið íþróttahús. Við erum náttúrlega með nokkur stór hús á Íslandi, t.d. Egilshöll og meira að segja Laugardalshallirnar sameinaðar, þær myndu ganga ágætlega.“

Jónatan segir enga þörf á að koma 10.000 manns inn í höllina, það sé alveg nóg að koma 5.000 manns að, ýmist í sæti eða stæði. „Gamla Laugardalshöllin gæti þess vegna komið til greina.“ Opnunarpartíið í Ráðhúsinu í Vínarborg var ekki nema 1.000 manna samkvæmi, eftir að búið var að takmarka fjölda boðsgesta verulega. „Harpa kæmi því vel til greina til að halda opnunarhátíð á Íslandi,“ segir Jónatan, en Eldborgarsalurinn rúmar á góðum degi 1.800 manns.

Harpa rúmar fleiri en Ráðhúsið í Vín.
Harpa rúmar fleiri en Ráðhúsið í Vín. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Þar í kring eru líka ýmis hús sem væri hægt að nýta í stuðningshlutverki, því um það bil 1.500 manns koma að því að halda Eurovision. Við það bætast svo 1.700 blaðamenn, keppendur frá 40 löndum, aðstoðarfólk keppenda, ættingjar, vinir og aðdáendahópar. Lágmarksfjöldi er því 5.000 manns, en getur farið í 15.000. Við þetta bætast svo áhorfendur. Svo sé alltaf hægt að reisa tjöld eins og gert var t.d. í Kaupmannahöfn, Osló og Malmö.

„Þannig að möguleikarnir eru ýmsir og engin ein formúla til að gera þetta.“ Hann bendir á að Stadthalle, þar sem keppnin er haldin nú, sé í raun ekkert mjög stór. Þar að auki er um 1.000 sætum fórnað til að hafa græna herbergið inni í salnum, sem var ekki gert í Svíþjóð. Þar var græna herbergin í öðru húsi, þar sem hægt var að horfa á keppnina á skjám.

Áskorun númer eitt að hýsa fólkið

„Við þurfum því ekki að hafa áhyggjur af húsnæði fyrir keppnina sjálfa. Það sem gæti reynst erfiðast eru hótelherbergi. Keppnin er haldin í maí og ferðamannatímabilið á Íslandi hefur lengst, þannig að það gæti verið áskorun númer eitt: hvar á að hýsa allt þetta fólk,“ segir Jónatan.

Mörland og Debrah Scarlett
Mörland og Debrah Scarlett Thomas Hanses/EBU

„Í Úkraínu var sama staða uppi, en þeir fundu lausnir á því. Fólk leigði bara út íbúðarhúsin sín. Við erum með fullt af gistirými í svoleiðis húsum um allan bæ í Reykjavík, fyrir utan að það er ekkert að því að vera í Hveragerði eða Keflavík. Það er hægt að keyra á milli,“ sem hann segir vera eitt aðalvandamálið í þessum keppnum, að koma fólki milli staða.

„Að koma fólki frá einum stað til annars. Vínarborg er vel sett til þess en Reykjavík er ekki með gott almenningssamgöngukerfi. Þá þyrftu bara að vera rútur sem keyra ákveðinn hring á 20 mínútna fresti og stoppa á fyrirfram ákveðnum stöðum. Öll svona mál er auðvelt að leysa,“ bætir hann við

Vantar mannskap til að halda keppnina

„Það eru á bilinu 1.000 til 1.500 manns sem vinna við keppnina. Sumt af þessu fólki er fagfólk, til dæmis í tæknimálum, svo er fólk sem sér um mat, þrif, öryggisverðir, slökkviliðsmenn, lögregla og fullt af sjálfboðaliðum sem sjá um að allt gangi rétt fyrir sig.“ Hann segir að við getum mannað þetta sjálf heima, til dæmis með björgunarsveitarfólki sem er vant að sinna svona störfum.

„Sjálfboðaliðarnir kæmu bæði frá Íslandi og erlendis frá eins og hérna, hér er fólk sem fylgir keppninni ár eftir ár og fer á milli landa og fer í ákveðin lykilstörf.“ Þar að auki sé EBU með sitt teymi.

Skandinavía tilbúin að aðstoða

Jónatan segir allar Skandinavíuþjóðirnar hafa boðið fram aðstoð sína til Íslendinga þegar að því kemur að við höldum keppnina. „Þeir gerðu það 1999 og aftur 2003 þegar við vorum í 8. sæti og líka þegar Yohanna lenti í 2. sæti. Við höfum því nokkrum sinnum átt þessar samræður við hina og þessa, meðal annars Þjóðverja.“

AFP

Sá hluti sem Jónatan telur hins vegar langerfiðastan er kostnaðurinn, sem fer aldrei undir tvo milljarða. „Þetta kostar á bilinu tvo til fjóra milljarða,“ segir hann. Kostnaðurinn fór að vísu í sjö milljarða króna í Aserbaídjan, en það var vegna þess að þar var byggð heil höll undir keppnina. „Lágmarkskostnaður væri því tveir milljarðar fyrir okkur. Af því kæmi milljarður frá EBU, þannig að við þyrftum að ná í annan milljarð. Hvernig gerum við það? Til dæmis með styrktaraðilum og svo hefur borgin sem heldur keppnina alltaf lagt peninga í þetta. Þar er ekki úr mörgum borgum að velja,“ segir hann.

Svona keppni stendur ekki undir sér

„Síðan eru ýmsar aðrar leiðir til að afla tekna fyrir þetta. Miðasala gerir í raun ekkert nema standa undir sér, hún skilar engum tekjum. Ferðamálaráð landanna gera oft samninga við keppnina og símafyrirtæki í landinu leggja yfirleitt til nettengingu og borga oft eitthvað með sér. Svo er alltaf einhver aðili sem sér um hár og smink, það er hluti af styrktaraðilunum - í ár er það MAC en hefur gegnum tíðina oft verið Schwartzkopf. Síðan eru ýmsir möguleikar til að finna styrktaraðila, sem bæði EBU og sú sjónvarpsstöð sem vinnur keppnina leitast við að finna.“ Það breytir því ekki, bætir Jónatan við, að svona keppni stendur ekki undir sér.

Emmelie de Forest, sem sigraði í Eurovision fyrir Danmörku 2013.
Emmelie de Forest, sem sigraði í Eurovision fyrir Danmörku 2013. AFP

„Það hefur einu sinni gerst að keppnin stóð undir sér, það var þegar hún var haldin á Parken í Kaupmannahöfn. Danir ætluðu að gera það sama í fyrra entöpuðu háum fjárhæðum. Þeir reiknuðu dæmið alveg rammskakkt. Hér í Vín er engin svona reiknigsskekkja, hér virðist þetta vera hárrétt dæmi. Það var allt saman útskýrt fyrir okkur á fundi í mars, hvernig þeir ætluðu að gera þetta og það virðist hafa gengið upp. Ég myndi segja að þetta sé rólegasta keppnin hvað varðar stress og vandamál sem ég hef farið á,“ segir Jónatan.

Ég get því rétt ímyndað mér hversu mikið stress og mörg vandamál hafi verið á fyrri keppnum, þetta verandi í fyrsta skipti sem ég sé hvernig þessi keppni gengur fyrir sig bak við tjöldin - og nóg er af stressi, þótt lítið fari fyrir vandamálum.

„Menn hafa gert þetta á allrahanda máta. Þegar keppnin hefur blásið of mikið út hafa stjórnendur keppninnar sagt: „Það væri fínt að fara til Íslands til að skala þetta niður.“ Það þarf einhversstaðar að trappa þetta niður, hvort sem það væri gert á Íslandi eða í San Marínó. Mér finnst vera aðeins að róa þetta niður hérna í Austurríki. Umfangið er, þó svo þetta virki gríðarlega mikið fyrir einhvern sem er að sjá þetta í fyrsta skipti, þá er þetta samt minna skrímsli en þetta hefur verið.“

Kerfið hrynur er skipulagið er ekki gott

Það sé ekki vegna þess að hér sé færra fólk eða keppendur, heldur vegna þess að Austurríkismönnum hefur tekist að skipuleggja keppnina mjög vel. „Þegar skipulag er ekki gott fer allt úr böndunum, kostnaðurinn hleðst upp og þá hrynur kerfið. Það hefur ekki gerst hér, en það gerðist í Kaupmannahöfn og Noregi og líka í Malmö, eins undarlegt og það var því Svíarnir hafa haldið margar keppnir.“

AFP

Samtal okkar Jónatans verður fyrir minniháttar truflun þegar yfirmaður öryggismála keppninnar gengur framhjá okkur. Jónatan á við hann erindi vegna nýrra passa sem gefa þurfi út. Passarnir sem allir í blaðamannasalnum eru með um hálsin eru ekki bara nafnspjald, heldur líka aðgöngumiði inn í salinn. Hér þarf bæði að stimpla sig inn og út, þannig að þeir sem sjá um öryggismálin vita alltaf hver er inni í húsinu. Þegar Jónatan fær sér sæti aftur segir hann mér að yfirmaður öryggismála keppninnar hafi áður séð um öryggismálin frá 2010. Þar áður sá hann um öryggismál þýsku sendinefndanna.

Ég nefni við Jónatan áhyggjur mínar af þessum þáttum, skipulags og öryggismálum ef keppnin væri haldin á Íslandi, en hann segir þær áhyggjur óþarfar. „Hann kemur alltaf með EBU þangað sem keppnin er haldin.“

Hvítmappa búin til fyrir Eistland 2002

Undirbúningur keppninnar sem fer fram árið 2016 hefst í raun laugardagskvöldið 23. maí, þegar ljóst er hvaða þjóð muni halda keppnina að ári. Ár er vissulega stuttur tími, en menn nýta þann tíma til hins ítrasta.

Þegar Eistar unnu Eurovision árið 2002 var ljóst að eistneska ríkissjónvarpið hefði litla burði til að halda keppnina. Þá voru innan við 10 ár frá því landið varð sjálfstætt og Sovétmenn höfðu tekið meira og minna allt sem hægt var að taka af tæknibúnaði frá sjónvarpsstöðinni.

„Eistar voru með einhver tæki, en ekki nóg til að hægt væri að halda keppnina. Þá fer þessi vél af stað og það er búið til hvítt albúm eða hvíta mappan. Hvað gerir þú þegar land sem hefur ekki innviðina vinnur keppnina? Hvernig hjálpast þjóðir Evrópu að við að hjálpa landinu að halda keppnina án þess að landið fari illa út úr því? Þá var búin til þessi mappa. Eftir það vann Lettland og síðan Tyrkland. Hvorugt þessara landa var í stakk búið til að haldakeppnina. Síðan vinnur Úkraína, sem var í miðri byltingu - Appelsínugulu byltingunni. Síðan vinnur Grikkland,“ segir Jónatan.

Ljósmynd/ORF/Roman Zach-Kiesling/Eurovision.tv

Ekkert þessara landa var í aðstöðu til að halda keppnina án mikillar aðstoðar. Það er því komin mikil reynsla á þessa áætlun fyrir þjóðir sem þurfa aðstoð við að halda keppnina - vonandi að hún verði einhverntíma sett í framkvæmd á Íslandi.

„Árið 2003 í Lettlandi héldu margir að Birgitta Haukdal myndi vinna. Þá vorum við strax farin að skoða græjur fyrir Ísland. Ég var bara kallaður á fund og spurður: „Eruð þið tilbúin að halda keppnina?“ Við vorum miklu minna tilbúin þá en við erum núna. Við áttum ekki einu sinni nógu mörg hótel til að taka á móti öllum þessum mannskap. En þetta er bara verkefni sem er hægt að leysa ef viljinn er fyrir hendi.“

Tæknimálin ákveðin áskorun

Jónatan segir að tæknimálin séu vissulega áskorun, en ekki eitthvað sem Íslendingar þyrftu að hafa verulegar áhyggjur af. Hann vekur athygli á fjölda tæknibíla sem eru fyrir utan höllina. „Þetta eru allt trukkar sem koma annarsstaðar frá, þessar græjur eru allrar leigðar. Svo eru 20 eða 30 díselrafstöðvar sem skaffa rafmagn fyrir allt svæðið, þannig að ef rafmagnið í borginni fer þá verður áfram rafmagn hérna.

„Þetta hér er ekki keyrt á rafmagni borgarinnar, þetta er aðskilið öryggissvæði. Það getur hvað sem er gerst, en þetta heldur áfram. Vatnið gæti farið, en sjónvarpið heldur áfram. Það er tvöfalt sett af öllu, tveir bílar sem sent er út frá og svo framvegis.“ Þá var dómararennslið í gær tekið upp í öllum löndum þar sem keppnin er send út tekin upp, þannig að ef eitthvað kemur upp á í kvöld, þá heldur sýningin áfram um alla Evrópu. The show must go on eins og Freddy Mercury söng.

„Þannig að ef það verður eitthvað stórslys hérna, þá heldur þetta áfram. Það er hugsað fyrir öllu hérna.“ Eins og Jónatan benti á þá kom ýmislegt upp á þegar keppnin var haldin í Kaupmannahöfn og Malmö, en áhorfendur heima í stofu tóku ekki eftir því, þar sem því var öllu haldið bak við tjöldin. „Það sér það enginn nema við sem erum á bak við og fáum vitneskju um þetta.“

Allir yfirmenn sendinefndanna voru þar að auki boðaðir á fund þar sem farið var yfir hvernig ætti að bregðast við ef allt færi úrskeiðis, til dæmis ef fólk yrði vart við reyk eða eitthvað þaðan af verra. „Þannig að við vitum nákvæmlega hvað á að gera við þær aðstæður. Mitt hlutverk er því ekki bara að halda utan um íslenska hópinn, heldur er ég líka á vaktinni ef eitthvað kemur upp á, sem hefur ekki gerst hingað til. Það er hugsað fyrir öllu,“ segir Jónatan.

Helstu áskoranirnar sem myndu mæta Íslandingum þegar við loksins höldum keppnina verða mannskapur, peningar og skipulagshæfileikar. „Þeir sem eru núna í aðalteyminu sem heldur utan um keppnina eru Þjóverji, Norðmaður, Svíi, Slóveni, fullt af fólki frá Sviss, einn Dani og margir fleiri.“ All utanumhald um keppnina er því að mörgu leyti grundvallað á hugsjóninni um sameinaða Evrópu. „Hér hjálpast allir að,“ segir Jónatan. „Eurovision er Evrópuhugsjónin - að sameina þjóðir Evrópu eftir stríðsátökin þegar allar þjóðir voru sundraðar og í sárum. Hér var búinn til vettvangur þar sem allir gátu verið saman á jafnræðisgrundvelli í einhverju sem myndi ekki leiða til stríðs - það var tónlist og skemmtun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar