Svíþjóð er sigurvegari í Eurovision 2015.
Söngvarinn Måns Zelmerlöw söng sig inn í hjörtu Evrópu með frammistöðu sinni í keppninni en hann flutti lagið „Heroes“. Úrslitin urðu ljós áður en stigagjöfinni lauk og var Zelmerlöw ákaft fagnað. Rússland lenti í öðru sæti og Ítalía í því þriðja.
Það þýðir að Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva mun fara fram í Svíþjóð á næsta ári. Þetta er sjötti sigur Svía í keppninni sem þýðir að þeir eiga nú næstflesta sigra í Eurovision í gegnum tíðina á eftir Írum sem hafa sigrað sjö sinnum.
„Við erum öll hetjur,“ sagði Zelmerlöw þegar hann tók við bikarnum.
Þess má geta að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, lofaði fyrr í kvöld að mæta í leðurbuxum í vinnuna kæmi til þess að Svíþjóð sigraði. Nú er að standa við stóru orðin, Dagur.