Samkvæmt Independent bendir allt til þess að Richard Hammond og James May, tveir þriðju af Top Gear-tríóinu óforbetranlega, muni hafna veglegu tilboði BBC um endurnýjun samninga vegna þáttarins, og ganga til liðs við Netflix í staðinn með sínum gamla, „fallna“ félaga.
Independent segir frá því að Hammond og May séu „afar nærri“ því að hafna 4,6 milljón punda tilboði BBC um að halda áfram með Top Gear án Clarkson. Báðir höfðu áður sagt að þeir myndu ekki snúa aftur eftir að tilkynnt var að samningur Clarkson yrði ekki endurnýjaður, í kjölfar þess að hann réðist á einn framleiðanda þáttanna.
Fregnir herma að þess í stað hyggist þremenningarnir ganga til liðs við Netflix, en efnisveitan hefur malað gull með eigin þáttagerð, og má þar nefna þættina House of Cards sem dæmi.
Independent hefur eftir heimildarmanni að Hammond, May og Clarkson séu afar spenntir fyrir því að fá að stýra eigin þætti frá a-ö, allt frá efnistökum til dreifingar. Þá myndi samningur við Netflix líklega skila þeim mun meira í vasann en áframhaldandi samstarf við BBC.
Áður hafði verið sagt frá því að BBC hugnaðist vel að hefja leikinn á ný með Hammond og May við stýrið og nýjan gestastjórnanda í hverjum þætti. May sagði hins vegar í apríl að enginn kæmi í staðinn fyrir Clarkson, það væru þeir þrír eða ekkert.
Þá hefur reyndar ekki verið útilokað að Clarkson myndi snúa aftur á BBC að lokum, eftir að fjaðrafokið væri yfirstaðið og dagblöð ársins komin í endurvinnsluna.