Allir geta sungið á táknmáli

Kolbrún gefur Maríu Ólafsdóttur ekkert eftir í flutningi sínum á …
Kolbrún gefur Maríu Ólafsdóttur ekkert eftir í flutningi sínum á laginu en sænski túlkurinn á ekki roð í þær stöllur. Skjáskot af YouTube

Þýðing táknmálstúlks sænska ríkisútvarpsins á íslenska Eurovision laginu „Unbroken“ yfir á alþjóðlegt táknmál vakti nokkra athygli hér á landi en þó ekki af þeim ástæðum sem óskandi væru. Margrét Gígja Þórðardóttir hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra segist hreinlega hafa haldið að þýðandinn væri að flytja vitlaust lag.

„Hún er eiginlega að misskilja lagið alveg svakalega. Hún er að tala um einhverja ástarsorg: Hann er farinn og mér líður illa, á meðan að lagið er bara ekkert um það,“ segir Gígja. Hún segist hafa horft á hin lögin í keppninni og að þau hafi verið rétt þýdd en að þýðingin við íslenska lagið sé hreint og beint út úr kú.

Magnaður flutningur á íslensku táknmáli

„Við þýðum oft lög yfir á táknmál og gerðum t.d. Pollapönk í fyrra, en þýðing þessarar konur er allt önnur en sú sem Kolbrún gerði,“ segir Gígja og vísar þar til myndbands sem Samskiptamiðstöð birti þann 22.maí, þar sem Kolbrún Völkudóttir flytur „Unbroken“ af mikilli innlifun á íslensku táknmáli.

„Kolbrún er heyrnarlaus og þýðir textann alfarið. Mér finnst lagið mikið flottara með þýðingunni,“ segir Gígja og blaðamaður getur ekki annað en tekið undir. Svipbrigðin, blæbrigðin í handahreyfingunum, spennan og léttirinn sem Kolbrún túlkar með líkama sínum segja allt sem segja þarf, ef ekki meira. Flutningur hennar er hreint út sagt magnaður, hvort sem maður heyrir lagið eða ekki.

Alveg eins og rödd og raddblær breytist við söng tekur táknmálið ákveðnum breytingum við tónlistarflutning. „Þegar maður syngur notar maður röddina meira og það er það sama með táknmálið, þá notar maður hendurnar miklu meira og sömuleiðis svipbrigðin. Það er allt miklu stærra og flottara,“ útskýrir Gígja. „Það er miklu skemmtilegra að syngja á táknmáli en að syngja með röddinni. Það geta allir sungið á táknáli, þar er enginn falskur,“ bætir hún hlæjandi við.

Gefur tónlistinni dýpt

Gígja, sem er sjálf heyrnarskert, segir töluverðan áhuga á Eurovision meðal heyrnarskertra og heyrnarlausra. Hún segir táknmálstúlkun gefa tónlistinni aukna dýpt sem jafnvel fólk með fulla heyrn kunni að meta og nefnir sérstaklega hvernig sigurlag Conchitu Wurzt tók á sig nýja mynd fyrir henni eftir að hún sá táknmálstúlkunina sænska ríkisútvarpsins á laginu. Hún nefnir einnig að lög á erlendum tungumálum, svo sem finnsku, verði mun skýrari jafnt fyrir heyrnarlausa sem og þá sem heyra.

 „Sænska ríkisútvarpið sýnir keppnina með túlkun árlega og við viljum auðvitað að RÚV bjóði upp á þetta,“ segir Gígja.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sumt af því sem þú ert að reyna að afreka er mjög djarft, kannski af því að þú veist að það mun hefja keðjuverkun og líf þitt verður aldrei samt. Vertu opin/n fyrir skoðunum annarra.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sumt af því sem þú ert að reyna að afreka er mjög djarft, kannski af því að þú veist að það mun hefja keðjuverkun og líf þitt verður aldrei samt. Vertu opin/n fyrir skoðunum annarra.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir