Ísland er umfjöllunarefni ferðablaðamannsins Paula Froelich í grein sem birtist á vef New York Post í dag. Froelich starfar hjá Yahoo og stjórnar þar ferðaþættinum A Broad Abroad.
Í greininni segir Froelich frá ferð sinni til Íslands. Hún greiniri frá því að 72% Íslendinga trúi á álfa, tröll og huldufólk sem lítur út eins og mannfólk en býr í öðrum víddum inni í steinum. „Ég er ekki að skálda þetta. Þetta er það sem fólk segir þér á Íslandi. Það segir þér meira að segja að sumir steinar, sem frá vissum sjónarhornum líti út eins og andlit, séu álfar,“ skrifar hún.
Froelich segir jafnframt frá því þegar að fyrrum alþingismaðurinn Árni Johnsen lét næstum því lífið í bílslysi árið 2010. „Íslenski þingmaðurinn Árni Johnsen dó næstum því í bílslysi árið 2010 en heldur því fram að honum hafi verið bjargað af fjölskyldu álfa sem bjuggu í 30 tonna hnullungi rétt hjá. Til þess að þakka þeim samþykkti hann að flytja hnullunginn á lóð sína þar sem þau gátu lifað sældarlífi ekki við hraðbraut. Sönn saga,“ skrifar Froelich.
Umfjöllun mbl.is um álfasteinninn má sjá hér fyrir neðan.
Froelich mælir með því að þeir sem hafi áhuga á álfum heimsæki Hellisgerði í Hafnarfirði og ræði þar við Ragnhildi Jónsdóttur. Blaðamaðurinn kallar Ragnhildi „óopinberan talsmann álfa“ í grein sinni.
Froelich lýsir því hvernig Ragnhildur fræddi hana um álfa, tröll og huldufólk og kallar hún hana „álfahvíslara Íslands“ eða „the elf-whisperer of Iceland“
Að lokum mælir Froelich með því að fólk fari til Íslands. „Það er töfrandi staður og það er ekki erfitt að sjá af hverju fólk þar trúir á álfa.“