„Ekki halda að Íslendingar séu ókurteisir, eða ruddalegir í daglegum samskiptum. Við erum bara vanari því að fólk haldi sig til hlés á almannafæri“. Þetta er meðal þess sem íslenskir Reddit notendur hafa að segja um æskilega hegðun ferðamanna í heimsókn hérlendis. Vefurinn Business Insider tók saman hagnýt ráð heimamanna frá hinum ýmsu löndum af samskiptavefnum Reddit.
„Það er ekki vænlegt til vinnings að hefja samtal við okkur að ástæðulausu á opinberum vettvangi, t.d. á söfnum. Að vera spurð „Hæ, hvernig hefurðu það?,“ væri eflaust það skrýtnasta sem við Íslendingar gætum lent í,“ segir annar notandi.
Noregur kemur einnig við sögu í úttektinni. „Ekki spyrja fólk hvernig því líður án þess að vera tilbúinn í djúpar samræður. Við gefum alvöru svör við svona spurningum,“ segir einn notandi.
Þá er ferðalöngum ráðlagt að halda ró sinni í Japan. „Ekki öskra, æpa eða tala hátt á almannafæri. Þetta gera Japanir aldrei og þú ert álitin(n) villimaður sýnir þú slíka hegðun.“ Væntanlegum gestum í Hollandi er ráðlagt að líta ekki á landið sem fíkniefnaparadís. „Þrátt fyrir að kannabis sé að einhverju leyti löglegt hér þýðir það ekki að þú eigir að reykja það úti um allt, í lestinni eða á heimilum fólks.“
Ferðamönnum í Bretlandi er hins vegar ráðlagt að falla ekki í þá gryfju að vísa alltaf til landsins sem „Englands“. „Stóra-Bretland er samsett af Englandi, Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi. Þó þú þekkir England kannski best er það ekki eitt á ferð og þeim sem ekki koma þaðan þykir þessi siður sérdeilis leiðinlegur.“
Grein Business Insider má lesa í heild sinni hér.