Tilkynnt hefur verið að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, verði einn af síðustu gestum Jons Stewarts í gamanþættinum Daily Show. Stewart hyggst hætta sem þáttastjórnandi þann sjötta ágúst. Obama mun koma fram í þættinum annað kvöld.
Obama hefur verið gestur í mörgum spjallþáttum og er fyrsti forseti Bandaríkjanna sem mætt hefur í gamanþætti sem þennan. Hann var einn af síðustu gestum Davids Lettermans í Late Show og hefur áður mætt sem gestur í The Tonight Show, Jimme Kimmel Live og The Colbert Report.
Samkvæmt vefnum Contactmusic hefur Stewart verið þáttastjórnandi Daily Show í sextán ár en í ágúst mun Trevor Noah, grínisti frá Suður-Afríku, taka við keflinu. Noah kom fram í The Tonight Show með Jimmy Fallon og sagði að Stewart hafi gefið sér mörg góð ráð varðandi þáttinn, það mikilvægasta væri þó að hafa gaman af þessu.