Heiður að spila með Jakob Frímanni

Jakob Frímann Magnússon spilaði með hljómsveitinni Amabadama á Innipúkanum í …
Jakob Frímann Magnússon spilaði með hljómsveitinni Amabadama á Innipúkanum í gær. mbl.is/Eggert

Jakob Frímann Magnússon og hljómsveitin Amabadama leiddu saman hesta sína í Innipúkanum í gær. Spilaði sveitin þjóðþekkt lög með Stuðmönnum í bland við eigin tónlist. Reggísveitin síhressa er á leið til Vestmannaeyja þegar þessi frétt er skrifuð, þar sem hún mun spila fyrir þjóðhátíðargesti, og því annríkt hjá meðlimum sveitarinnar um helgina.

„Stemningin var mjög góð,“ segir Steinunn Jónsdóttir, önnur söngkona sveitarinnar, í samtali við mbl.is Aðspurð hvernig henni hafi fundist að spila með Jakobi Frímann segir hún: „Það var bara snilld. Þetta er allt öðruvísi en það sem við höfum sjálf verið að gera, en maður þekkir þessi lög og er búinn að alast upp við þau. Mér fannst geðveikt gaman að prófa að taka þau og setja þau í okkar búning.“

Um er að ræða ákveðna hefð á Innipúkanum, að sögn Steinunnar, þar sem fullorðnari tónlistarmenn og yngri hljómsveitir spila saman, en í fyrra var það Megas sem steig á svið með hljómsveitinni Grísalappalísu.

Snýst ekki um fylleríið

„Það var sérstaklega gaman að sjá að fólk var mætt hingað til þess eins að hlusta á tónlistina, sem er svo gaman fyrir okkur uppi á sviði að finna fyrir,“ segir Magnús Jónsson, annar söngvari sveitarinnar, sem er einnig þekktur sem Gnúsi Yones. „Þetta snerist ekki bara um fylleríið.“

Í kvöld á þjóðhátíð mun hljómsveitin spila sína langstærstu tónleika fram til þessa, að sögn Magnúsar. „Ég er mjög spenntur fyrir því.“

Það jafnast ekkert á við djass

Ingólfur Arason gítarleikari sveitarinnar og Ellert Björgvin Schram hljómborðsleikari taka undir að tónleikarnir hafi verið vel heppnaðir. „Stemningin í kvöld var mjög heit, sveitt og blaut,“ segir Ingólfur í samtali við mbl.is. „Ég svitnaði óvenju mikið. Það var mjög gaman, sérstaklega þegar fólk söng með lögunum.“ Best heppnaða lag kvöldsins var „Það jafnast ekkert á við djass“ með Stuðmönnum, að mati Ingólfs. „Það steinlá.“

Ellert bætir við að hann var sérstaklega ánægður með salinn á Innipúkanum. „Áhorfendur virtust vera mjög framsæknir. Það hafði áhrif á lögin okkar að fremsta röðin var farin að syngja línur sem voru ekki upphaflega í laginu.“

Aðspurður hvernig það hafi verið að hafa annan hljómborðsleikara í sveitinni þetta kvöld, þar sem Jakob Frímann var einnig í því hlutverki, segir Ellert það ekki koma að sök. „Það er bara betra, sérstaklega í reggítónlist, þar sem hún á til að skiptast í svo mörg lög. Ég sá um undirölduna og hann sá um skrautið. Maður getur ekki gert hvort tveggja. Svo er Jakob náttúrulega fagmaður. Það var heiður að fá að spila með honum.“

Hljómsveitin Amabadama.
Hljómsveitin Amabadama. mbl.is/Eggert
mbl.is/Eggert
mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar