„Ég reykti hass en ég var ekki afreksmaður í því. Það gerðu það allir á þeim tíma. Við héldum það á þessum tíma að kannabis væri hættulaust og göfgandi en það var vitleysa því þetta er hættulegt,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
„Þetta getur tekið frá fólki lífslöngunina. Ef þú berð saman alkóhól og kannabis held ég að alkóhól sé jafnvel hættulegra. Það getur valdið 5-6 mismunandi skemmdum á heila og svo er auðveldara að ná í það og það er viðurkenndara,“ segir Kári og bætir við að með fíkniefnanotkun sértu að fikta í heilanum á þér.
„Þú ert heilinn á þér. Svo ferðu að drekka í þig vökva eða sjúga að þér reyk til að breyta þér. Þetta er hættulegt og ógnvekjandi og ber að forðast.“
„Ég held það sé miklu betra að komast í sína vímu með því að lesa góða bók, hreyfa sig eða borða súkkulaði,“ sagði Kári.