Tónlistarkonan Chrissi Hynde hefur verið gagnrýnd fyrir að segja að það geti verið konu að kenna ef henni er nauðgað. Hynde, sem fór fyrir The Pretenders, sagðist einnig kenna sjálfri sér um að hafa framkvæmt kynferðislegar athafnir undir ógn um ofbeldi.
Í samtali við Sunday Times sagði Hynde frá því að hún axlaði fulla ábyrgð á því að hafa verið misnotuð þegar hún var 21 árs og meðlimur mótorhjólagengis í Ohio hefði lofað að fara með hana í partý en þess í stað ekið með hana að yfirgefnu húsi.
„Tæknilega séð, hvernig sem þú vilt líta á það, þá kom ég mér í þetta sjálf og ég axla fulla ábyrgð á því. Þú getur ekki f***að með fólk, sérstaklega fólk sem ber merki sem á stendur „Ég hjarta nauðgun“ og „Farðu á hnén“... þessi mótorhjólagengi; þetta er það sem þau gera,“ sagði hún.
Spurð að því hvort að gengið hefði ekki misnotað það hversu berskjölduð hún var, sagði hún: „Ef þú leikur þér að eldi þá brennir þú þig. Það er ekkert leyndarmál, er það?“
Söngkonan sagði einnig að konur sem færu eftir götum fáklæddar og drukknar gætu sjálfum sér um kennt ef ráðist væri á þær. „Ef ég geng um á nærfötunum og er full? Hverjum öðrum er um að kenna?“
Meðal þeirra sem hafa fordæmt ummæli Hynde er Lucy Hastings, framkvæmdastjóri samtakanna Victim Support. „Fórnarlömb kynferðisofbeldis ættu aldrei að upplifa eða vera látin upplifa að þau séu ábyrg fyrir þeim hörmulega glæp sem þau hafa verið beitt, óháð kringumstæðum eða þáttum sem kunna að hafa gert þau viðkvæm fyrir.“