„Gat ekki sagt annað en já“

„Við verðum að brenna fyrir það sem við erum að …
„Við verðum að brenna fyrir það sem við erum að fást við og hafa metnaðinn til að segja sögur sem skipta máli,“ segir leikarinn Søren Malling. mbl.is/Eggert

„Það kom mér skemmtilega á óvart þegar Guðmundur reyndist svo bíræfinn að biðja mig að leika hjá sér að ég gat ekki annað en sagt já. En ég skal alveg viðurkenna að ég veit ekki hvort ég hefði svarað játandi ef leikstjóri sem ég kannaðist ekkert við hefði beðið mig um þetta,“ segir danski leikarinn Søren Malling, sem leikur stórt aukahlutverk í kvikmyndinni Hjartasteini sem Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstýrir.

Þegar blaðamaður náði tali af Malling fyrir skemmstu var tökum á hans senum í myndinni nýlokið og hann á leið heim til Danmerkur. Þar hefur hann nóg að gera, enda vinsæll leikari sem gert hefur það gott í sjónvarpsþáttaröðum á borð við Forbrydelsen (Glæpinn), Borgen (Höllina) og 1864 sem allar hafa verið sýndar hjá RÚV, auk þess að leika í vinsælum myndum á borð við Mifunes sidste sang (Síðasti söngur Mifune), Bænken (Bekkurinn), Kapringen (Sjóránið) og En kongelig affære (Konunglegt samband). Að sögn Malling hafa þeir Guðmundur þekkst í nokkur ár. „Árið 2011 lék ég í danskri stuttmynd eftir Guðmund sem ber heitið Malou. Mig grunar að hann hafi haft mig í huga þegar hann skrifaði hlutverk Svens sem ég leik í Hjartasteini. Sven er fimmtugur Dani sem búið hefur í nokkur ár á Íslandi. Hann er einfari og raunar mætti lýsa honum sem kúreka sem býr einn með hestum sínum og kindum. Hann er í góðum tengslum við börnin, sem myndin hverfist um, og stendur alfarið með þeim þegar þau gera hluti sem þau mega ekki á sama tíma og foreldrarnir styðja ekki börn sín. Á yfirborðinu virkar Sven svolítið ógnvekjandi en þegar allt kemur til alls er hann mjög vingjarnlegur.“

mbl.is/Eggert

Guðmundur Arnar fylginn sér

Í samtali við Morgunblaðið fer Malling afar fögrum orðum um leikstjóra myndarinnar. „Mér finnst Guðmundur sérdeilis flinkur að segja sögur og leikinn við að skoða þær áskoranir sem felast í unglingsárunum. Honum liggur eitthvað á hjarta og hann er afar fylginn sér,“ segir Malling og hrósar meðleikurum sínum í hástert. „Ég er algjörlega gáttaður á því hversu góðir drengirnir tveir, sem fara með aðalhlutverkin, eru. Þeir virka svo eðlilegir fyrir framan myndavélarnar,“ segir Malling og vísar þar til Baldurs Einarssonar og Blæs Hinrikssonar, sem leika Þór og Kristján.

Mér skilst að þú hafir þurft að læra íslensku fyrir hlutverkið. Hvernig gekk það?

„Þegar Guðmundur hafði samband við mig og bauð mér hlutverkið nefndi hann að ég myndi þurfa að tala íslensku í myndinni. Ég samþykkti það án umhugsunar. Síðan fékk ég vinnuhandrit á ensku og leiddi ekki hugann frekar að þessu fyrr en örfáum vikum áður en tökur áttu að hefjast, þegar ég fékk íslensku útgáfuna af handritinu. Þá runnu á mig tvær grímur, enda ekki hlaupið að því að bera orðin fram. Okkur Guðmundi samdist um að einfalda mál Svens nokkuð þannig að ég hefði möguleika á að læra textann á íslensku og bera hann rétt fram. Ég lagði mikið á mig til að læra textann og vanda framburðinn því mér finnst mikilvægt að tal mitt sé skiljanlegt Íslendingum þannig að ekki sé nauðsynlegt að texta það sem ég segi. Drengirnir tveir sem leika á móti mér skilja allt sem ég segi, sem er góðs viti.“

Vel fór á með þeim Malling og Guðmundir Arnarni Guðmundssyni …
Vel fór á með þeim Malling og Guðmundir Arnarni Guðmundssyni á tökustað á Borgarfirði eystri við gerð Hjartasteins.

Hvað er fram undan hjá þér þegar þú kemur aftur heim til Danmerkur?

„Í næstu viku liggur leið mín á kvikmyndahátíðina í Toronto, þar sem ég mun kynna gamanmyndina Mænd og høns [Menn og hænsn] sem Anders Thomas Jensen leikstýrði,“ segir Malling, en meðal mótleikara hans í myndinni eru Mads Mikkelsen og Nikolaj Lie Kaas. „Myndin fjallar um tvo bræður sem á dánarbeði móður sinnar komast að því að maðurinn sem þeir álitu föður sinn er ekki líffræðilegur faðir þeirra. Þeir ákveða að leita líffræðilega föður sinn uppi, en hann er virtur vísindamaður sem sérhæft hefur sig í stofnfrumurannsóknum. Fljótlega komast þeir að því að þeir eiga þrjá hálfbræður,“ segir Malling, sem leikur einn hálfbræðranna þriggja.

Missti leikgleðina í leikhúsinu

„Sitt hvoru megin við næstu áramót hefjast tökur á tveimur stórum dönskum kvikmyndum. Skömmu fyrir jól hefjast tökur á mynd sem gengur undir vinnutitlinum Mesteren [Meistarinn] og fjallar um mjög sérvitran en sjarmerandi málara,“ segir Malling, sem fer með hlutverk málarans sem yfirgaf eiginkonu sína og barnungan son. „Dag einn bankar uppkomni sonurinn upp á hjá honum og í ljós kemur að sonurinn er líka orðinn listamaður en mun vinsælli en pabbinn, sem fellur ekki í góðan jarðveg, enda málarinn mjög sjálfmiðaður. Sagan er einföld en dregur upp áhrifaríka mynd af uppgjöri innan fjölskyldunnar þegar fortíðin bankar upp á og maður er þvingaður til að horfast í augu við eigin gjörðir. Leikstjóri myndarinnar er Charlotte Sieling, en hún er orðin stórt nafn í bransanum eftir að hafa leikstýrt þáttum í Homeland [Föðurlandi] og Broen [Brúnni],“ segir Malling, en Sieling leikstýrði honum í Borgen og Forbrydelsen.

„Í febrúar á nýju ári hefjast síðan tökur á mynd sem byggir á skáldsögunni Gud taler ud eftir Jens Blendstrup. Myndin fjallar um mjög sérvitran geðlækni sem er algjörlega markalaus þegar hann tjáir sig um menn og málefni, með alvarlegum afleiðingum fyrir eiginkonu hans og syni. Þegar ég las bókina fyrst fannst mér hún hryllilega fyndin, en þetta er auðvitað líka dramatískur efniviður. Ef ég er heppinn býðst mér síðan að leika í bæði breskum og bandarískum sjónvarpsþáttaröðum, en viðræður eru á því stigi að ég get því miður ekki sagt meira um það.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar