Horfst í augu við söguna

Magarethe von Trotta
Magarethe von Trotta Photo: RIFF

Magarethe von Trotta er heiðursgestur kvikmyndahátíðarinnar RIFF og verða þeim kanadíska leikstjóranum David Cronenberg veitt verðlaun fyrir ævistarfið auk þess sem hún mun stjórna meistaraspjalli ásamt Elísabetu Rónaldsdóttur í Norræna húsinu á þriðjudag klukkan þrjú og svara spurningum bíógesta. Þrjár mynda hennar verða sýndar á hátíðinni, Þýsku systurnar (Die bleierne Zeit, 1981), Rosenstrasse (2003) og Í týndum heimi (Die abhandene Welt, 2015).

Von Trotta er eitt þekktasta nafnið í þýskri kvikmyndagerð. Hún var hluti af þeim kjarna leikstjóra, sem hóf þýskar kvikmyndir til virðingar eftir langvarandi lægð. Hún fæddist 1942 og hefur talað um að á uppvaxtarárum sínum í Þýskalandi hafi kvikmyndir verið annars flokks skemmtun og hún hafi þurft að fara til Parísar til að uppgötva hvers miðillinn væri megnugur. Skömmu síðar átti hún þátt í endurreisn þýskrar kvikmyndagerðar, fyrst sem leikkona og síðan sem leikstjóri.

Lærði af þeim bestu

Hún sneri aftur til Þýskalands frá Frakklandi áður en vorið í þýskri kvikmyndagerð hófst. 1965 eignaðist hún son og næstu árin var hann í fyrirrúmi. Það ár komu myndirnar, sem hrundu þýsku bylgjunni af stað, Der junge Törless eftir Völker Schlöndorff, sem síðar varð eiginmaður von Trotta til 20 ára, og Abschied von gestern eftir Alexander Kluge.

„Nokkrum árum síðar einsetti ég mér að komast inn í þennan hóp sem leikkona,“ sagði hún. „Metnaður minn lá til þess á þeim tíma, ég kunni ekki annað og hefði ekki notið trausts til annars. Ég kynntist Volker og Rainer Werner Fassbinder nokkurn veginn á sama tíma.“

Schlöndorff leikstýrði sjónvarpsmynd eftir leikriti Bertolds Brechts, Baal, 1969 og von Trotta lék þar á móti Fassbinder.

„Rainer fékk mig til að leika í þremur myndum eftir sig og ekki leið á löngu áður en við Volker tókum saman,“ segir hún. „Við giftum okkur 1971 og eftir það átti ég þátt í öllum hans verkum, ýmist sem höfundur, aðstoðarleikstjóri eða leikari. Alltaf blundaði samt í mér löngun til að leikstýra sjálf og ég lærði með því að fylgjast með, spyrja og auðvitað horfa á fjölda mynda. Ég fór aldrei í skóla, en ég lærði af þeim bestu – hvað gat verið betra en að læra af Schlöndorff og Fassbinder.“

Von Trotta segir að um hafi verið að ræða náinn hóp hæfileikamanna og München var vettvangurinn.

„Þarna voru ekki bara Schlöndorff og Fassbinder, heldur einnig Wim Wenders, Werner Herzog, Alexander Kluge og Edgar Reitz,“ segir hún. „Við vorum stór hópur, sem hittist oft. Síðar dró úr samskiptunum, margir fóru til Bandaríkjanna og til Berlínar eftir að múrinn féll. Nú eru tengslin ekki jafn sterk, en þetta voru frábærir tímar.“

Von Trotta segir að nú séu nýir leikstjórar komnir fram á sjónarsviðið í Þýskalandi sem hún þekki varla því að hún búi þar ekki lengur.

„Þeir vinna allir hver í sínu horni, það er ekki lengur hægt að tala um hóp. Á sínum tíma þurftum við hins vegar að hasla okkur völl gagnvart „afabíóinu“ eins og það var kallað í þá daga. Það var talað um okkur sem hreyfingu, en sú nafngift kom að utan. Þetta var hin nýja þýska kvikmynd, kröftug, pólitísk og meðvituð. Herzog sagði alltaf að við yrðum að spyrða okkur við þriðja áratuginn, við tímabil UFA-kvikmyndaversins og þýsku stórmyndanna og gleyma því sem gert hefði verið þar á milli og ég tók undir það. En við vorum hvert öðru ólíkara.“

Schlöndorff, sem þekktastur er fyrir að hafa fest skáldsögu nóbelshöfundarins Günters Grass, Blikktrommuna, á filmu, hafði þegar haslað sér völl sem leikstjóri þegar von Trotta byrjaði að leikstýra. Skyndilega voru hjónin bæði farin að vinna á sama sviði.

„Ég held að það hafi ekki alltaf verið auðvelt fyrir hann,“ segir von Trotta og hlær. „Þetta var ekkert vandamál fyrir mig, enda byrjaði ég á eftir honum. Það gegndi öðru máli fyrir hann. Hann kynntist mér og varð ástfanginn af mér þegar ég var leikkona og allt í einu var ég farin að gera myndir. Í upphafi studdi hann mig þó, en ég held að fyrst hafi hann talið að fyrir mér væri þetta tómstundagaman og ég myndi síðan hætta og aftur fara að vinna hjá honum. Síðan varð honum hins vegar ljóst að ég liti á þetta sem starf mitt, þessa hefði ég óskað mér og draumur minn hefði ræst. Eftir að ég leikstýrði fyrstu myndinni minni hætti ég meira að segja alfarið að leika.“

Lifði undir blýhimni

Von Trotta vakti á sér athygli fyrir alvöru með myndinni Die bleierne Zeit (Þýsku systurnar). Fyrirmyndin er systurnar Christiane og Gudrun Ensslin, sem var félagi í hryðjuverkasamtökunum Rauðu herdeildinni og lést í fangelsi í Stammheim 1977.

„Heitið „Tímar blýs“ vísar til öldu hryðjuverka, sem reið yfir á þessum tíma,“ segir von Trotta. „Í Frakklandi var talað um „les anneés de plomb“ og á Ítalíu „anni di piomba“, sem skírskotaði eiginlega bara til vopnanna og blýsins í vopnunum. Ég sótti hins vegar heitið „die bleierne Zeit“ í ljóð eftir Hölderlin og fyrir mér átti það fremur við sjötta áratuginn í Þýskalandi þegar var eins og maður lifði undir blýkúpu, undir blýhimni og maður fann að eitthvað hræðilegt og slæmt hefði gerst í fortíðinni, en enginn sagði okkur frá því, hvorki í skólanum, né vildu foreldrar okkar tala um það. Lýsingin „die bleierne Zeit“ átti við það í mínum huga, en teygði sig inn í áttunda áratuginn þegar næsta kynslóð gerði uppreisn með mjög margvíslegum hætti. Sumir vildu breyta þjóðfélaginu hægt, aðrir með offorsi og þegar það gekk ekki nógu hratt hófu þeir neðanjarðarstarfsemi. Þetta var eins konar uppgjör í samfélaginu og lýsti sér sem andróður gegn foreldrunum, sem höfðu lagst á sveif með nasistunum.“

Myndin Þýsku systurnar fjallar að mestu um það hvernig systirin Juliane tekst á við þátttöku systur sinnar, Marianne, í hryðjuverkum og eigið hlutverk í samfélagi, sem hún vill líka breyta. Von Trotta var legið á hálsi fyrir að sýna hryðjuverkum samúð í myndinni.

„Það var mjög furðulegt,“ segir hún. „Þeir sem voru lengst til vinstri sökuðu mig um að gera þessa sögu að markaðsvöru og hægri vængurinn vændi mig um að vera á bandi hryðjuverkamannanna. Ég var gagnrýnd úr öllum áttum.“

Von Trotta velur sér oft sagnfræðileg viðfangsefni. Það á við um tvær af þeim myndum, sem nú verða sýndar á Riff, Þýsku systurnar og Rosenstrasse, sem fjallar um sannsögulega atburði þegar eiginkonur gyðinga mótmæltu handtöku manna sinna í Berlín árið 1943, en einnig má nefna myndirnar Hönnuh Arendt og Rósu Luxemburg.

„Þessi viðfangsefni koma til mín,“ segir hún. „Það er ekki þannig að ég segi við sjálfa mig að nú vilji ég taka ákveðið efni eða persónu fyrir. Rósa Lúxemborg var til dæmis síðasta verkið, sem Fassbinder ætlaði að ráðast í. Eftir andlátið kom framleiðandinn til mín og sagði að ég yrði nú að gera myndina. Fyrst sagðist ég alls ekki geta það, ég yrði að gera minnst tíu myndir áður en ég gæti vogað mér að taka svo mikilvæga manneskju fyrir. En hann linnti ekki látum þannig að ég fór af stað.“

Í tvö ár sat hún og las áður en hún byrjaði að skrifa handritið.

„En áhuginn var til staðar. Eftir að ég gerði Þýsku systurnar spurði ég sjálfa mig hvar þetta hefði hafist í Þýskalandi. Í mínum huga er Rósa Lúxemborg fyrsta fórnarlamb nasistanna, ef svo má segja. Hún var gyðingur og morðingjar hennar gengu síðar til liðs við Hitler. Með þessu blóðbaði þar sem hún var myrt og Karl Liebknecht hófst þessi öld. Rosenstrasse er einnig mynd, sem passar inn í þetta.“

Hún segir að sagan eigi líka ítök í sér vegna sérstakra aðstæðna í uppvextinum: „Kannski hafði sitt að segja að fram að mínu fyrsta hjónabandi var ég án ríkisfangs, ég hafði ekki þýskan ríkisborgararétt þótt ég væri fædd í Berlín. Fyrir vikið spurði ég alltaf sjálfa mig hvað það væri að vera Þjóðverji og hvers vegna þýsk saga væri svona sérkennileg með andstæðum hámenningar og villimennsku.“

Hún heldur áfram: „Ég hef komið tvisvar til Íslands. Íbúarnir eru fáir og landið stórt. Auðvitað eigið þið ykkar eigin sögu, en hún er ekki samofin sögu Evrópu að sama skapi og allra síst með jafn hryllilegum hætti. Þýskaland liggur í miðri Evrópu og hefur hlaðið á sig óendanlegri sekt. Einhvern veginn verður maður að takast á við það þegar maður er Þjóðverji, býr í Þýskalandi eða vex úr grasi í landinu. Þótt ég hafi verið án ríkisfangs fæddist ég í Berlín, gekk þar í skóla og þýska er mitt móðurmál. Maður verður að horfast í augu við söguna.“

Sambönd kvenna, hvort sem það eru vinkonur eða systur, koma iðulega fyrir í myndum von Trotta og hún hefur jafnvel sagt um persónur að þær séu hennar annað sjálf.

„Ég veit ekki hvers vegna þetta efni er mér svona hugleikið,“ segir hún. „Ég átti systur, sem ég vissi ekki af, og verið getur að það hafi haft sitt að segja.“

Von Trotta var að verða fertug þegar hún komst að því að hún ætti hálfsystur, sem ólst upp hjá fósturforeldrum í Moskvu.

„Nýjasta mynd mín, Í týndum heimi, fjallar einnig um systur, sem vissu ekki af tilvist hvor annarrar og finna síðan hver aðra. Hún er ekki alfarið mín saga, en hún er mjög persónuleg vegna þess að ég var í sömu stöðu gagnvart systur minni. En nú held ég að systraþemað sé tæmt.“

Ömmurnar sem ruddu brautina

Á Riff er sérstök áhersla lögð á verk kvenna. Von Trotta segir að staðan hafi gerbreyst frá því að hún byrjað að leikstýra.

„Nú gera mun fleiri konur kvikmyndir,“ segir hún. „Það er enn erfitt fyrir þær. Í Berlín hafa nokkrar konur tekið sig saman og krefjast þess að settur verði kvóti þannig að jafn margar konur fái jafn mikla hlutdeild í fjárstuðningi og karlar. Það er langt frá því að það hafi náðst. Enn er það svo að konur þurfa að baka kökuna með minna hráefni en karlarnir og samt þarf hún að bragðast vel. Við getum orðað það svo að karlarnir fá aðeins meira gæðahráefni. Staðan hefur þó gerbreyst frá því ég var að byrja. Það var barist gegn mér, en ég held að það sé ekki raunin nú. Nú erum við ömmurnar, sem ruddum brautina.“

Ýmsar myndir Margarethe von Trotta hafa valdið fjaðrafoki, en sér á parti er Heller Wahn eða Algert æði um samband tveggja vinkvenna, sem margir áhorfendur ætluðu að væru lesbíur þótt svo væri ekki. Myndin vakti reiði og sagan segir að leigubílstjóri hafi hent von Trotta út úr bíl sínum því að myndin hafi eyðilagt hjónaband sitt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Loka